21.01.1982
Sameinað þing: 41. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

53. mál, upplýsinga- og tölvumál

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka þær undirtektir sem hv. síðasti ræðumaður lét í ljós við þessa tillögu.

Það er eðlileg athugasemd að mínum dómi, sem hv. ræðumaður gerði við till., þ. e. til hvers sé ætlast með könnun umræddrar nefndar sem muni vinna að þessu máli. Nú var það ekki ætlun okkar flm. að gera þessu tæmandi skil, ef ég má svo að orði komast, og svo er hugur minn a. m. k. til margra fleiri þingmála. Ég lít svo til að það sé ekki óeðlilegt að nefndir þingsins taki mál til umfjöllunar með þeim hætti að breytingar séu gerðar á tillögum sem þessari. Það finnst mér í fyllsta máta eðlilegt.

Hins vegar er það skoðun mín, að þar sem öll umfjöllun um þennan málaflokk er raunar á frumstigi í okkar þjóðfélagi sé alls ekki þess að vænta, að út úr slíku nefndarstarfi komi eitthvað sem kallast mætti fullmótaðar tillögur. Mér dettur ekki í hug að halda það. Þetta er að mínum dómi fyrsti vísirinn að umfjöllun um þessi mál. Það er gert ráð fyrir því, eins og stendur í till., að nefndin geri tillögur um með hvaða hætti íslenskt þjóðfélag geti best numið og hagnýtt sér hina nýju tækni til alhliða framfara, svo sem að því er varðar atvinnumál o. s. frv. Þarna er afskaplega erfitt að setja fram vinnureglur. Ég vil fyrir fram treysta því, að stjórnvöld setji þessa nefnd saman með þeim hætti að þar sitji menn sem hafi allnokkra þekkingu á þessum málum.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á launþegasamtökin í landinu. Ég geri fastlega ráð fyrir að fulltrúi af þeim vettvangi verði með í þeirri umfjöllun, svo mikið sem öll þessi mál varða hinn almenna launþega í landinu, og beint og óbeint gerir till. ráð fyrir því.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en þakka fyrir góðar undirtektir.