21.01.1982
Sameinað þing: 41. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

51. mál, landnýtingaráætlun

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Jóni Helgasyni, Sverri Hermannssyni, Helga Seljan og Karli Steinari Guðnasyni að flytja hér till. til þál. um landnýtingaráætlun. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að hafinn verði undirbúningur landnýtingaráætlunar er taki til landbúnaðar og annarra þátta, svo sem ferðamála, útivistar og náttúruverndar. Drög að landnýtingaráætlun skulu liggja fyrir í árslok 1983. Við gerð þeirra verði áhersla lögð á sem hagkvæmasta nýtingu og varðveislu landgæða.“

Svo sem kunnugt er byggist búseta í landinu fyrst og fremst á endurnýjanlegum auðlindum til lands og sjávar. Því hlýtur jafnan að vera mjög brýnt verkefni að sjá um að nýting þessara auðlinda verði á hverri tíð með þeim hætti að höfuðstóllinn verði ekki rýrður, ef svo má að orði komast. Þetta verkefni er að sjálfsögðu margbrotið og krefst mikils sveigjanleika á langri leið að lokamarkmiðinu: meiri efnahagslegri og andlegri velferð okkar sem lifum hér og störfum í landinu, jafnframt því sem við skilum auðlegð íslenskrar náttúru fram á veginn til nytja fyrir afkomendurna.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að hin síðari ár hafi gætt meiri skilnings á þessum málum og fleiri og fleiri hafa vaknað til vitundar um þær hættur sem íslenskri þ jóð eru búnar ef auðlindir til lands og sjávar eru mergsognar. Meðal þessara auðlinda eru að sjálfsögðu gróður og gróðurmold, landgæði sem varða mjög búsetu og umhverfi allra manna. Með landgræðsluáætlun 1974 var gert stórátak til að vinna markvisst að stöðvun gróðureyðingar og uppblásturs í þeim tilgangi auðvitað að varðveita og bæta landgæði.

Eins og kunnugt er hefur nú verið lögð fram till. til þál. um landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1982–1986. Okkur flm. þessarar till. þykir eðlilegt og nauðsynlegt, m. a. til að fylgja því starfi eftir, að gerð verði víðtæk áætlun sem taki til hinna fjölmörgu þátta landnýtingar, svo sem nýtingar beitilanda, ræktunar skóga og meðferðar lands til útivistar.

Hér verður ekki farið út í að rek ja eða telja upp alla þá fjölmörgu þætti sem falla beint undir eða eru tengdir landnýtingu á einn eða annan hátt. Ég mun þó drepa á nokkur atriði í þessu sambandi af fjölmörgum sem ræða þarf áður en ákveðið er fyrir fullt og fast með hvaða hætti verður staðið að gerð áætlunar um landnýtingu.

Eins og till. ber með sér er ætlaður nokkuð rúmur tími til undirbúnings þess verks sem þar er lagt til, í ljósi þess að till. verði samþykkt á þessu þingi. Lagt er til að drög að áætlun um landnýtingu liggi fyrir í árslok 1983. Okkur flm. er fullljóst að sú vinna, sem þarf að inna af hendi í þessu sambandi, er nokkuð yfirgripsmikil og tekur óhjákvæmilega alllangan tíma.

Einn af veigameiri þáttum landnýtingar er nýting úthagabeitar bæði í heimalöndum og á afréttum. Landbúnaðurinn og þó einkum og sér í lagi sauðfjárræktin byggist að miklu leyti á þessari miklu auðlind, fjölbreyttum og kjarnmiklum gróðri, svo sem kunnugt er. Í ljósi þeirra mikilsverðu nytja hlýtur framtíð íslensks landbúnaðar í reynd að byggjast að verulegu leyti á hóflegri og hagkvæmri nýtingu beitilanda. Það mætti spyrja þeirrar spurningar, hvort framleiðslugildi úthagagróðurs væri metið að verðleikum. Er þar ekki um stærri hagatölur að ræða en tíundaðar hafa verið til þessa.

Á tímum síhækkandi orkukostnaðar eru náttúrleg gróðurlendi augljóslega mikil og dýrmæt auðlind. Að sjálfsögðu eru það engin ný sannindi að sem best samræmi þarf að vera á milli búfjárfjölda og tiltæks haglendis á hinum ýmsu beitarsvæðum landsins. Því er nauðsynlegt að koma á nánara samhengi milli vals á búgreinum, búfjárfjölda á sérhverri bújörð og í sérhverju héraði annars vegar og hins vegar þeirra landgæða sem til umráða eru. Þannig verði ekki aðeins tekið tillit til ræktunarskilyrða, heldur jafnframt landrýmis í heimahögum og afréttum. Hér er t. d. komið að þeim þætti, hvernig fjárfestingu er hagað í landbúnaði, hvernig er hægt að koma á virkari og markvissari stjórnun án hafta í sjálfu sér, með það að markmiði að auka afrakstur landbúnaðarins jafnframt varðveislu landgæða sem ætíð verður að hafa í huga. Í mörgum tilfellum þyrfti að vera hægt að koma því við að aðstoða þá bændur í ríkari mæli sem gera róttækar breytingar á búskaparháttum.

Við gerð búrekstrar- og byggðaáætlana er óhjákvæmilegt að taka tillit til landnýtingar. Í ljósi þess, að nýting jarðargróða er einn af hornsteinum lífvænlegrar byggðar um land allt, er landnýting að því leyti veigamikið byggðamál. Ekki væri t. d. úr vegi að athuga hvort æskilegt eða fært væri að stofna til einhvers konar svæðaskipulagningar landbúnaðarframleiðslunnar í samræmi við hóflega og skynsamlega nýtingu landkosta og jafnframt með tilliti til markaðsþarfar fyrir hinar ýmsu búvörur og framleiðslusvæði. Mismunandi verðlagning búvara eftir framleiðslusvæðum gæti hugsanlega komið til greina, en slíkt er að sjálfsögðu nokkuð flókið og örðugt í framkvæmd.

Í þeirri skipulagningu, sem hér er vikið að, þarf að huga í ríkari mæli en gert hefur verið að öllum þáttum á sviði framleiðslu, úrvinnslu og sölu afurðanna í ljósi staðhátta. Hingað til hefur því lítt eða ekki verið sinnt, hvort menn byggðu fjós eða fjárhús innst til dala eða á láglendi svo að segja við hliðina á mjólkurbúunum. Menn geta gert sér í hugarlund hagkvæmnina í hvoru atriðinu fyrir sig, ekki síst í ljósi flutninga og hagkvæmri nýtingar afrétta, svo að eitthvað sé nefnt. Hið svokallaða kvótakerfi, sem mikið hefur verið rætt um nú síðustu misseri og er komið til framkvæmda, tekur lítið sem ekkert mið af landnýtingar- og byggðasjónarmiðum, en framleiðslustjórnun þyrfti að taka tillit til þeirra í ríkari mæli en raun er á. Hér er að sjálfsögðu um margþætt og að mörgu leyti viðkvæmt mál að ræða sem að dómi okkar flm. þarfnast ítarlegrar könnunar og gaumgæfilegrar umfjöllunar.

Við bændur viljum að sjálfsögðu hafa sem mest frelsi til athafna, en gerum okkur þó ljósa grein fyrir þörf eðlilegrar skipulagningar. Hún mun reynast stéttinni til framdráttar í hvívetna og síðast en ekki síst stuðla að bættum þjóðarhag. Margt fleira þarf auðvitað að taka til umfjöllunar þegar lögð eru á ráðin um skipulega nýtingu landgæða, svo sem skógrækt og nýtingu hlunninda, enda þótt þeim þáttum verði ekki gerð skil hér.

En landnýting tekur til fleiri þátta en búskapar. Með breyttum þjóðfélagsháttum og auknum áhuga almennings á útivist, umhverfismálum og náttúruvernd verður deginum ljósara að fjalla þarf um landnýtingu á breiðum grundvelli. Ferðamál eru að sjálfsögðu einn þáttur landnýtingar í ljósi náttúruskoðunar og útivistar. Í þessu sambandi vil ég minna á þá möguleika sem fyrir hendi eru í fjölgun ferðafólks hingað til lands og auknum ferðalögum Íslendinga sjálfra á sinni heimaslóð er gætu orðið drýgri tekjulind.

Herra forseti. Hin náttúrlegu gróðurlendi eru viðkvæm fyrir óhóflegum ágangi, hvort sem er af völdum fénaðar eða manna. Með bættum skilyrðum til ferðalaga um óbyggðir landsins þarf margs að gæta. Öll meðferð gróðurlendis er í sjálfu sér náttúruverndarmál. Í fjölmörgum tilfellum verður ekki komist hjá röskun lífríkja, það vitum við öll. Mestu varðar þó að leita jafnan þeirra leiða sem minnstri röskun valda. Við viljum auka á hagsæld okkar í landinu jafnframt því sem við stuðlum að aukningu landgæða í bráð og lengd til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Það er von okkar flm. að landnýtingaráætlun geti stuðlað að æskilegri þróun á þessu sviði.

Herra forseti. Ég mælist til að að loknum þessum hluta umr. verði till. vísað til allshn.