25.01.1982
Efri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

170. mál, flutningssamningar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli nú fyrir frv. til l. um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi. Frv. þetta á sér þann aðdraganda, að forsvarsmenn landflutningamanna, þ. e. Landvara, vöktu athygli á því, að hér á landi eru engin ákvæði um hvernig gera skuli samninga um slíka flutninga, hver er ábyrgð þeirra, sem flytja, og ábyrgð þeirra, sem senda. Ég varð við ósk þeirra og skipaði nefnd til að kanna þetta mál. Í nefndina voru skipaðir Ólafur S. Valdimarsson skrifstofustjóri samgrn., sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Jónas Þór Steinarsson framkvæmdastjóri Félags ísl. stórkaupmanna og Stefán Pálsson framkvæmdastjóri Landvara. Nefndin vann vel að þessu máli. Hún komst fljótlega að þeirri niðurstöðu, að ekki væru tök á því að setja með reglugerð eða með öðrum boðum rn. ákvæði um slíka flutninga, heldur væri nauðsynlegt að flytja um málið sérstakt frv. og fá slíkar skyldur og ábyrgðir settar í lög. Mér þótti því rétt að þessari niðurstöðu fenginni að fela þessari sömu nefnd að semja slíkt frv. Það liggur nú fyrir hv. deild.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mjög mörgum orðum um þetta frv. út af fyrir sig. Meginefni frv. kemur fram m. a. í þeirri kaflaskiptingu sem er í frv.

I. kafli fjallar um gildissvið frv. og er vert að vekja athygli á því, að frv. nær eingöngu til flutninga innanlands og flutninga á landi.

II. kafli fjallar um flutningssamninga, þ. e. hvað fram skuli tekið í slíkum samningum, og er það allítarlega sundurliðað, einkum í 6. gr. frv., einnig um ýmis atriði sem fram skuli tekin í fylgibréfum sem með sendingunni eru útbúin.

Þá er III. kafli frv. sem fjallar um ábyrgð flytjanda, þ. e. frá því að hann tekur við vörunni til flutnings og þar til hann skilar henni af sér, og sömuleiðis þá í þeim tilfellum að varan er ekki sótt eða sérstakar tafir verða af óviðráðanlegum ástæðum á flutningi vörunnar.

IV. kafli fjallar um ábyrgð sendanda. Er þar rakið í fjórum greinum, hvaða upplýsingar sendanda er skylt að láta flytjanda í té, og sömuleiðis fjallað um varúðarráðstafanir með tilliti til brothætts varnings eða hættulegs varnings sem fluttur er.

Þá er V. kafli frv. sem fjallar um ábyrgð móttakanda á svipaðan hátt og ég hef rakið í mjög lauslegu máli bæði fyrir flytjanda og sendanda.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls er frv. þetta mjög nýtt af nálinni, getum við sagt. Slík ákvæði um flutningssamninga hafa ekki verið hér í lögum. Fullkomin samstaða er um málið með flytjendum og sendendum, sem áttu fulltrúa í þessari nefnd, og reyndar fleirum, að brýna nauðsyn beri til að hafa slík ákvæði í íslenskum lögum. Því hef ég fallist á að flytja þetta frv. sem ég tel hið þarfasta.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.