25.01.1982
Efri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

152. mál, viðbótarlán til íbúðarbyggjenda

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um viðbótarlán til íbúðabyggjenda og íbúðakaupenda. Frv. þetta er af sömu rót runnið og frv. sem við þm. Alþfl. í þessari hv. deild fluttum á síðasta þingi um bætt kjör íbúðabyggjenda og íbúðakaupenda og sparifjáreigenda.

Megintilgangur þessa frv. er að gefa íbúðabyggjendum og íbúðakaupendum kost á langtímaláni í stað þeirra skammtímalána sem tíðkast hafa á undanförnum árum. Með því er fólki gert kleift að fjármagna íbúðabyggingar og íbúðakaup með eðlilegri hætti en hingað til. Þetta frv. gerir ráð fyrir viðbótarlán að upphæð 200 þús. kr., sem komi að verulegu leyti í stað ýmiss konar skammtímalána sem nú eru veitt lánþegum og eru þeim afar óhagstæð vegna þungrar greiðslubyrði.

Sem dæmi um þá greiðslubyrði, sem nú viðgengst, getum við tekið kaup á íbúð fyrir 600 þús. kr. Það mun ekki vera sérlega stór íbúð, en ekki hinnar minnstu gerðar heldur, en einmitt af því tagi sem margt ungt fólk verður að reyna að komast yfir.

Útborgun á fyrsta ári, ef þetta væri á almennum markaði eldri íbúða, yrði að líkindum um 480 þús. kr. — og ég spyr: Á hvers konar lánum eiga menn kost til þess að mæta kaupum af þessu tagi? Jú, menn eiga kost á láni hjá Húsnæðisstofnun, G-láni, sem nemur 80 þús. kr., og við skulum hugsa okkur að þessi ungu hjón ættu líka kost á einu lífeyrissjóðsláni upp á 120 þús. kr. Þá þyrfti eigið framlag eða viðbótarfjárþörf, sem mæta þyrfti vegna útborgunarinnar, að vera 280 þús. kr. Þetta er mikið fé. Með hvaða hætti ætli fólk geti mætt þessari útborgunarþörf upp á 280 þús. kr.? Eins og málið er í pott búið eiga menn yfirleitt ekki annarra kosta völ en að taka verðtryggð lán. Mér er kunnugt um að verðtryggð lán er næsta ókleift að fá til lengri tíma en fjögurra ára. Ég hef leitað mér upplýsinga um það. Þannig standa mál eins og sakir standa. Til þess að auðvelda þetta reikningsdæmi skulum við gera ráð fyrir að þessi ungu hjón eigi 80 þús. kr. þannig að um það sé að ræða að taka 200 þús. kr. að láni til að mæta þeirri viðbótarfjárþörf sem hér er um að ræða til þess að komast yfir þessa íbúð, — 200 þús. kr., verðtryggð til fjögurra ára með 2.5% vöxtum. Árleg greiðslubyrði, miðað við verðlag eins og það er núna, mundi vera af þessu láni 51.250 kr. Heildargreiðslubyrðin af þeim lánum, sem þessi ungi hjón hefðu tekið á sig, mundi nema 63.700 kr., sem sagt 12.500 eða því sem næst af húsnæðisstjórnarláninu og lífeyrissjóðsláninu og 51.200 kr. af hinu verðtryggða láni.

Það er fróðlegt að bera þessa tölu, árlega greiðslubyrði upp á 63.700 kr., saman við atvinnutekjur verkamanna eins og þær eru nú miðað við verðlag frá des. til febr. Atvinnutekjur verkamanna á ári eru samkv. þessu verðlagi áætlaðar 157.600 kr. samkv. opinberum gögnum. Sú greiðslubyrði, sem hér er um að ræða, nemur þannig 40.4% af þessum atvinnutekjum verkamanna. Sé miðað við atvinnutekjur iðnaðarmanna er um að ræða 37.5%. 37–40% af árstekjum þarf til að standa undir þeirri greiðslubyrði sem hér um ræðir. Allir sjá vitaskuld að þetta er óhugsandi. Allir sjá að þetta er ekki hægt, og þó er í þessu dæmi gert ráð fyrir að þessi ungu hjón ættu 80 þús. kr. til að leggja inn í íbúðarkaupin þegar í upphafi.

Ef það frv., sem ég mæli hér fyrir, yrði að lögum yrði myndin verulega mikið öðruvísi. Þá yrði þessi árlega greiðslubyrði samtals 22.700 kr. Sem hlutfall af atvinnutekjum iðnaðarmanna og verkamanna yrði hún 13–14% af árstekjunum í stað þess að vera 37–40%. Þetta hlutfall, 13–14% , er eðlilegt og ætti að geta verið bærilega viðráðanlegt.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að meðan við bjuggum við það vaxtakerfi sem var hér á árum áður, þar sem menn þurftu ekki að greiða raunvirði þess fjár til baka sem menn höfðu tekið að láni, gaf gengið að lækka hlutfall langtímalána í sambandi við íbúðakaup niður úr öllu valdi. Þá gátu menn staðið undir greiðslubyrðinni af slíkum lánum jafnvel þó þeir þyrftu að taka svo hátt hlutfall að láni sem hér er gert ráð fyrir til skamms tíma og eins og við búum nú við. En það kerfi hefði vitaskuld sprungið. Fjármagnsmarkaðurinn hefði ekki þolað það. Húsnæðiskerfið hefði sprungið. Hitt trúi ég að sé viðurkennt af öllum, að það sé algert siðleysi að ætla mönnum ekki að greiða til baka sömu verðmæti og þeir fá að láni.

Við Alþfl.-menn höfum barist fyrir því að verðtryggingar- og raunvaxtastefnan væri viðurkennd, að vísu oftast nær einir flokka, með því að segja það hreint út að sú stefna sé rétt. En í reynd hafa aðrir flokkar viðurkennt þessa stefnu með því að þeir hafa fylgt þessari stefnu í framkvæmd og þar á meðal núv. ríkisstj. En við sögðum það líka, Alþfl.-menn, að hluti af þessari stefnu, hluti af verðtryggingar- og raunvaxtastefnunni hlyti að vera að lengja lánstíma og jafna greiðslubyrði. Ef það yrði ekki gert mundi stefnan ekki ganga upp. Það er í þessu átriði sem núv. ríkisstj. hefur gersamlega brugðist. Það er eins og henni standi nákvæmlega á sama um fólkið í landinu, sérstaklega unga fólkið, og það er eins og þessi ríkisstj. ætli aldrei að geta gert sér ljóst að það er nauðsynlegt fyrir þetta fólk að geta komið sér fyrir með eðlilegum hætti og það eru villimannlegar aðfarir sem nú tíðkast í lánamálum til húsbyggjenda og íbúðakaupenda, í lánamálum ungs fólks. Það eru villimannlegar aðfarir sem eru eiginlega til marks um að siðvæðingin sé á heldur lágu stigi hér á landi. Við teljum brýna nauðsyn bera til þess, Alþfl.-menn, að á þessu verði breyting og hér verði tekin upp eðlileg lánakjör. Því er þetta frv. flutt.

Nú kunna menn að spyrja: En er þá til fé til að mæta viðbótarlánum af þessu tagi?

Ég vil fyrst benda á það, að auðvitað getur það unga fólk, sem leggur í íbúðakaup af því tagi sem ég hef hér lýst, ekki staðið undir greiðslunum af þeim lánum sem það tekur. Ráðið er að fara í banka 2 til að greiða af láninu sem tekið var í banka 1, fara í banka 3 til að greiða af láninu sem tekið var í banka 2 og þannig koll af kolli. Með þessum hætti verja menn stórum hluta af vinnutíma sínum til þess að sitja hjá bankastjórum og afla sér nýrra og nýrra lána til að standa undir þeim lánum sem þeir hafa áður tekið. Það er ekki einungis illa með tíma þessa unga fólks farið, heldur líka með heilsu þess. Það fyrirkomulag, sem hér viðgengst nú, þýðir í rauninni að heimilin eru brotin niður og menn búa við eilífa streitu og óvissu um hvernig þeir muni bjarga sér til næsta dags. Ég trúi því, að sú streita sé þeim a. m. k. jafnþungbær og sú streita sem virðist vera að heltaka þennan sal þessa stundina ef marka má allt það pískur og þau hlaup sem hér eiga sér stað eins og stendur. Ég held að það væri ráð fyrir hv. deild að koma nú til móts við þetta unga fólk, sýna af sér manndóm og koma lánskjörunum í það form að viðunandi geti talist. Trú mín er sú, að heildarútlánaþörfin í bankakerfinu sé alls ekki eins mikil og mönnum virðist við fyrstu sýn vegna þess, eins og ég rakti, að það er tekið lán á lán ofan úr bankakerfinu til að standa undir þessum greiðslum. Af hálfu lántakendanna er sífellt verið að endurnýja þessi skammtímalán til að geta staðið undir þeim.

Í annan stað vil ég benda á að 3/4 hlutar sparnaðarins í landinu koma frá almennum launþegum, en einungis 1/4 frá fyrirtækjunum, en útlánunum er þannig varið, að 3/4 hlutar fara til fyrirtækjanna í landinu, en einungis 1/4 til launþeganna. Ég tel að launþegarnir eigi þarna mjög verulegan rétt til aukinnar lánafyrirgreiðslu.

Menn kunna þá að spyrja: Er eðlilegt að skipa þessum málum með lögum? Svarið er já. Þegar svo er komið sem nú horfir er ekki annað til ráða og það er ekkert óeðlilegt við það. Ég skal t. d. benda mönnum á að í Noregi er bönkum skylt að lána mönnum til húsbygginga — og það sem meira er: launþegar búa við allt öðruvísi aðstöðu en ýmsir forsvarsmenn ríkisins til að fá lánafyrirgreiðslu í bankakerfinu.

Það má leiða að því rök, að atvinnurekendur og ríkisvald hafi betri aðstöðu til þess en almennt launafólk að þrýsta á um hagsmuni sína í bankakerfinu, m. a. fyrir áhrif kunningsskaparins og m. a. fyrir áhrif þess að launþegar eru bundnir í vinnu sinni. Það er einmitt af þessum sökum sem ástæða er til þess fyrir kjörna fulltrúa, sem skipa Alþingi, að tryggja sérstaklega hagsmuni almennings í samskiptum við bankakerfið og setja reglur um hverjar séu lágmarksskyldur bankakerfisins við almennt launafólk, skyldur bankanna að koma til móts við það þegar það er að koma sér fyrir.

Ég tel að það sé bæði rétt og nauðsynlegt af siðferðilegum ástæðum að koma til móts við launafólkið í þessum efnum. En ég vil líka benda á það, að ef ekki verður gripið til ráðstafana af þessu tagi má búast við að hér dynji yfir húsnæðisskortur á komandi árum. Ég skal styðja það fáeinum tölum úr opinberum gögnum um hver þróunin hefur verið í íbúðabyggingum á undanförnum árum.

Á árinu 1979 voru veitt lán á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins til 4854 íbúða, en á árinu 1981 er áætlað að fjöldi lána, og þá eru alls konar íbúðir taldar með: nýbyggingar, eldri íbúðir, íbúðir fyrir aldraða og öryrkja, viðbyggingar og heilsuspillandi húsnæði, orkusparandi breytingar og verkamannabústaðir og Framkvæmdanefndaríbúðir, — á árinu 1981 er þessi tala samkvæmt áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins frá því 14. des. komin niður í 3728 lán. Þetta er fækkun sem nemur 1100 íbúðum á tveimur árum og gerist á sama tíma og þjóðinni er þó enn að fjölga þótt landflótti sé mikill. Og ekki tekur betra við ef litið er á hvernig hugmyndin er að veita fé til húsnæðislánakerfisins á komandi ári samkv. gildandi lánsfjáráætlun.

Á liðnu ári — árinu 1981 — voru alls um 400 millj. kr. til ráðstöfunar í þennan málaflokk. Nú er hugmyndin að auka ráðstöfunarféð í 642 millj. kr. Aukningin hjá Byggingarsjóði ríkisins er einungis 73.7 millj. kr., úr 300 upp í 373.7 millj. kr., en hins vegar er aukningin í verkamannabústöðunum úr 100 millj. upp í 268 millj. kr. Nú er það góðra gjalda vert að auka fé til félagslegra íbúða. En hv. þm. sjá væntanlega að það er gert á kostnað Byggingarsjóðs ríkisins og lánsfjárhlutfallið í byggingum verkamannabústaða er mun hærra en það sem gerist á hinum almenna íbúðamarkaði. Þetta þýðir að sú fjárhæð, sem ætluð er til lánveitinga á næsta ári samkv. þessari formúlu, hrekkur ekki fyrir jafnmörgum lánum og á árinu 1981, og hafði þeim þó fækkað um 1100 á tveimur árum frá 1979, heldur mun fækkun íbúðalánanna nema um 550. Þá mundi á þremur árum hafa fækkað um 1650 íbúðir eða um þriðjung á þremur árum, og þó að landflótti sé mikill er þjóðinni samt enn þá að fjölga. Orsökin fyrir því, að hér eru ekki veitt fleiri lán, er auðvitað sú, að fólk treystir sér ekki til að eignast íbúðir, treystir sér ekki til þess að byggja með sama hætti og áður. Á þessu verður að verða bragarbót og í þeim tilgangi er þetta frv. flutt. Eins og ég gat um í upphafi er það að miklu leyti samhljóða frv. sem við þm. Alþfl. fluttum fyrir ári.

Ég vil að lokum segja það, að þeir menn, sem um efnahagsmál hugsa og verðbólgumál, en gleyma þessum þætti, gleyma mjög veigamiklum þætti í mótun efnahagsmálastefnunnar. Með því að koma ekki til móts við ungt fólk með þessum hætti er líka verið að auka þrýsting á verðbólgu hér á landi vegna þess að menn sjá það þá sem bjargræði út úr þessum ógöngum. Hvenær sem menn sjá verðbólguna sem bjargræði eykur það þrýstinginn á að hún haldi áfram. Þess vegna er hér líka um að ræða mikilvægt efnahagsmál — mál sem allir þm. ættu að láta sig varða, — auk þess sem hér er um gífurlegt réttlætismál að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. þessu vísað til hv. fjh.- og viðskn.