26.10.1981
Neðri deild: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um frv. Ég vil aðeins fagna því, að það er fram komið, og tel að í þessu frv. sé margt til bóta frá því sem er í gildandi lögum.

Ég fagna því sérstaklega, að sú ákvörðun er tekin með framlagningu þessa frv. að Brunamálastofnun ríkisins starfi áfram sem sjálfstæð stofnun en verði ekki deild í vinnueftirlitinu, eins og hugmyndir munu hafa verið uppi um. Ég tel að stofnunin hafi á undanförnum árum sannað tilverurétt sinn og ástæða sé til að halda henni áfram sem sjálfstæðri stofnun.

Í athugasemdunum eru talin upp helstu atriðin sem gert er ráð fyrir að breyta frá gildandi lögum og hæstv. ráðh. taldi hér upp í fjórum liðum. Ég sé ekki ástæðu til að ítreka það. Ég er sammála um þau atriði, sem þar eru nefnd, og tel að það sé allt saman til bóta.

Ég ætla ekki að fara hér út í athugasemdir við einstakar greinar. Ég hef almennan fyrirvara um flutning brtt. eða fylgi við bær brtt. sem kunna að koma fram.

Ég tel ástæðu til að benda sérstaklega á 24. gr., sem hæstv. ráðh. gerði hér líka að nokkru að umtalsefni og fjallar um brunavarnagjald og fleira, eða hinn eiginlega tekjustofn Brunamálastofnunarinnar. Þarna er gert ráð fyrir hækkun á framlagi tryggingafélaganna úr 1.25% í 1.5%. Það kann að vera vafi á því, hvort um sé að ræða nokkra raunverulega hækkun vegna lækkunar iðgjalda sem átt hefur sér stað, þó að breyting á fasteignamati kunni þar að vega eitthvað á móti. En þetta er kannske ástæða til að athuga frekar. Ég vil þó taka fram að ég er ekki í hópi þeirra sem vilja þenja þessa stofnun út, og ég vil líka láta þess getið, vegna heimilda sem eru í 24. gr. og eru reyndar í gildandi lögum um aðra gjaldtöku en frá tryggingafélögunum, að ég teldi æskilegast að tekjustofnar Brunamálastofnunarinnar kæmu eingöngu frá tryggingafélögunum en ekki yrði þörf á því að setja sérstaka gjaldskrá. Um þetta hefur verið rætt í stjórn stofnunarinnar en ekki náðst þar samstaða og ekki heldur við Samband ísl. sveitarfélaga.

Hæstv. ráðh. minntist hér aðeins á stjórn stofnunarinnar og að honum þætti hún kannske of fjölmenn. Ég get að mörgu leyti tekið undir þetta sjónarmið. Það sitja sex í stjórninni núna. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því, að það sé endilega rétt að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn og Reykjavíkurborg annan. Ég held að það sé út af fyrir sig nægilegt að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa. Reykjavíkurborg er aðili að Sambandi ísl. sveitarfélaga og áhrifaaðili þar af eðlilegum ástæðum. Ég hef heldur enga sannfæringu fyrir því, að það sé nauðsynlegt að tryggingafélögin tilnefni endilega tvo. Það mætti alveg eins hugsa sér að þar nægði einn. Með þessu móti mætti fækka um tvo í stjórninni. Það er auðvitað ekki eðlilegt að stjórn einnar stofnunar sé fjölmennari en starfsliðið þó að það út af fyrir sig þurfi kannske ekki að benda á neitt óeðlilegt. En einhvern veginn kann ég ekki við það.

Þetta eru hugmyndir sem ég set fram og mér finnst ástæða til að hv. félmn. athugi sérstaklega, hvort þarna sé hægt að fækka og þá hugsanlega með þessum hætti. Fyrst ég er farinn að minnast á þetta mál með stjórnina, þá vil ég líka benda á annað atriði sem breyting er gerð á í 2. gr. Það er þess efnis, að nú er gert ráð fyrir að eingöngu þau tryggingafélög, sem annast brunatryggingar, tilnefni í stjórnina, í stað þess sem nú er, að það er Samband ísl. tryggingafélaga. Ég er ekki alveg viss um að þarna sé farið inn á rétta braut, vegna þess að ég skil það svo að áfram muni greiða gjaldið þau tryggingafélög sem starfa í landinu og hafa ekki brunatryggingar fasteigna með höndum. Ég get nefnt þar Hagtryggingu h. f. Mér sýnist því ástæða til að athuga það sérstaklega.

Herra forseti. Það var ekki fleira sem ég vildi segja við þessa 1. umr., en ég fagna því að þetta frv. er fram komið.