25.01.1982
Neðri deild: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þar sem svo mjög er nú liðið á tíma hv. deildar skal ég stytta mál mitt, enda hafa þeir, sem hér hafa á undan talað, gert nokkra grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram komu í nefndinni og hæstv. ráðh. gert ítarlega grein fyrir því sem í þessu frv. stendur.

Ég átti einnig sæti í mþn., sem vann sumarið 1980 og lauk störfum þá um haustið, og það segir sig sjálft að þegar svo ólíkir hópar eiga að standa að því að gera breytingar á svo viðamiklum og nauðsynlegum lagabálki sem lög um námslán og námsstyrki hljóta að vera, verða menn auðvitað að reyna að setja sig í þær stellingar að ná samkomulagi um frv. sem til bóta mætti verða. Mjög snemma, eins og hér hefur komið fram, varð okkur ljóst að óhugsandi var að búa til brtt. sem skiptu nokkru verulegu máli um framtíð Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Það hefur verið minnst hér að að formaður hafi unnið gott starf og ég vil taka undir það. En ég vil ekki síður geta þess hér, að fulltrúar stúdenta og fulltrúi Lánasjóðs ísl. námsmanna í nefndinni unnu e. t. v. mesta starfið og ber að þakka þeim það einnig.

Þegar vinna á frv. sem þetta hlýtur að koma upp strax í upphafi: Til hvers er Lánasjóður ísl. námsmanna? Hver er hugur manna til hans? Ég er algerlega sammála hæstv. menntmrh. um það sem hann sagði hér áðan um tilgang sjóðsins. Hitt var svo annað mál, sem aldrei var rætt í verulegri alvöru, enda of viðkvæmt til þess að þar væri von til samkomulags, en það er hvert er raunverulega markmið menntunar. Hv. þm. Friðrik Sophusson sagði áðan að menntun einstaklings væri hans eigin fjárfesting ekki síður en steinsteypa sem hann kæmi sér upp. Ég þarf sjálfsagt ekki að lýsa því fyrir hv. deildarfélögum mínum hér, að þessu er ég auðvitað algerlega ósammála. Menntun er ekkert frekar fjárfesting en allt mannlíf sem til bóta má vera er fjárfesting. Við getum svo sem „filósóferað“ um það. Sé menntun fjárfesting er hún áreiðanlega ekki fjárfesting einstaklings, heldur samfélagsins alls.

Ég hefði auðvitað getað séð allt öðruvísi frv. fyrir mér, og þess vegna get ég ekki tekið undir orð hæstv. menntmrh. þar sem hann talar um að hér sé á ferðinni róttækt frv. Fyrir mér er þetta ekki róttækt frv., en ég held að þetta frv. sé til mikilla bóta. Því segi ég þetta að ég ætti afar auðvelt með að sjá fyrir mér að menntun manna væri ókeypis, menn þyrftu ekki að slá sér lán til að mennta sig í þágu samfélagsins. En mér er alveg ljóst, svo raunsær þm. sem ég er, að þetta sjónarmið á engan meiri hluta hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna datt mér ekki í hug að eyða miklum tíma í umr. um þetta mál, en auðvitað fóru þær fram.

Hér á eflaust eftir að verða veruleg umr. um þetta frv. og ég skal ekki eyða tíma héðan af í einstaka liði þess. Það kemur eflaust til umr. aftur þegar það kemur úr nefnd. En ég vil leggja áherslu á að þetta viðamikla mál komist sem allra fyrst til nefndar og hljóti afgreiðslu á þessu þingi, enda var í vetur í stefnuræðu forsrh. þess getið sérstaklega, að frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna yrði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Þar sem ég er þess fullviss, að nokkurn tíma tekur að afgreiða það, held ég að það sé ákaflega mikilvægt að það fari til nefndar sem fyrst.

Ég hef fyrr í vetur á þskj. 94 lagt fram í hv. Sþ. fsp. um þetta frv. sem nokkuð hefur dregist að svara vegna anna þingsins. Þar sem hæstv. menntmrh. hefur nú lagt fram þetta frv., sem eftir mínum samviskusamlegasta samanburði er efnislega algerlega samhljóða því frv. sem við lögðum fram ásamt grg., hef ég ákveðið að tilkynna hæstv. forseta Sþ. að ég dragi fsp. mína til baka.