25.01.1982
Neðri deild: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka allt það jákvæða sem sagt hefur verið um þetta frv. og þetta mál yfirleitt. Ég held að það sé augljóst, að eins og þetta mál liggur fyrir og eins og að því hefur verið unnið sé höfuðatriðið að það fái umfjöllun í þinginu eins og lög gera ráð fyrir, hér og í menntmn.

Ég verð að segja það, að flest af því, sem hér hefur verið sagt, hefur verið mjög málefnalegt og þær aths., sem fram hafa komið, almennt talað átt fullan rétt á sér, þannig að ég hef ekkert sérstakt um það að segja. Þó eru tvö atriði í máli hv. 10. þm. Reykv. sem ég sé ástæðu til að minnast á og gera nokkuð ákveðnar athugasemdir við.

Í fyrsta lagi finnst mér það nokkuð djarflega til orða tekið af hv. þm. að halda því fram, að þetta frv. sé flutt breytt. Í raun og veru er það rangt. Þetta frv. er efnislega nákvæmlega eins og endurskoðunarnefndin, sem hv. þm. átti sæti í, gekk frá því, — ég segi: efnislega óbreytt. Hitt er annað, eins og ég tók rækilega fram í mínu máli og kemur fram í aths. með þessu frv., að tímasetningum í frv. er breytt. Það leiðir einfaldlega af því að þetta frv. er flutt allmiklu siðar en til stóð. Ég held að hv. þm. muni allir sættast á það fyrir sanngirnissakir, að það sé eðlilegt að þessum tímasetningum hafi verið hnikað til með tilliti til þess sem ég hef nú verið að lýsa og hef áður gert grein fyrir. Ég vona því að það síist ekki inn í nokkurn mann að hér sé um að ræða breytt frv. frá því sem nefndin lagði til. Það er alls ekki svo. Eina breytingin er sú, að tekið er tillit til þess að frv. kemur fram fullu ári síðar en til stóð.

Eins er það, að hv. þm. hefur verið að átelja drátt sem orðið hefur á framlagningu frv. Út af fyrir sig getur hann átalið mig fyrir að það hafi dregist að flytja þetta frv., vegna þess að hann er mikill áhugamaður um að þetta mál gangi sem skjótast fram, og get ég ekki láð honum það. Hins vegar vil ég halda því fram, að sá dráttur, sem orðið hefur á framlagningu þessa frv., sé þegar öllu er á botninn hvolft alls ekkert óeðlilegur.

Þetta frv. barst mér í hendur um miðjan októbermánuð 1980, þ. e. eftir að síðasta þing var hafið, og síðan var þetta mál til umfjöllunar hjá mér og í ríkisstj. Er ekkert óeðlilegt við það, þó að það tæki sinn tíma að fá samstöðu innan ríkisstj. um svona viðamikinn lagabálk og vandmeðfarinn. Hins vegar varð að samkomulagi að þetta frv. skyldi flutt á þessu þingi. Það var reyndar boðað strax í stefnuræðu forsrh., þegar hann flutti hana í októbermánuði, þannig að það var ljóst að ætlunin var að flytja frv. um þetta efni á þinginu. Hinu mun ég hvorki nú né í annan tíma leyna, að það var viss ágreiningur um hvort rétt væri að flytja frv. óbreytt frá því sem nefndin hafði gengið frá því. Ég lagði ákveðið til að frv. yrði sýnt og flutt óbreytt og að það yrði þá þingsins að meta hvernig breyta skyldi. Þetta var mjög mikið rætt innan ríkisstj. og meðal stuðningsmanna ríkisstj., og sú niðurstaða varð að lokum innan ríkisstj., að þetta mál skyldi flutt óbreytt, þó með þeirri breytingu, sem hv. 10. þm. Reykv. vill gera mikið úr, að tímasetningum var hnikað til, sem er algerlega eðlileg afleiðing af því, að dráttur varð á að frv. yrði flutt.

Ég endurtek það enn, að þetta frv. barst mér í hendur eftir að þingið í fyrra var hafið. Þess vegna er engan veginn óeðlilegt þó að nokkur dráttur yrði á því að frv. yrði lagt fram, þ. e. að það væri ekki lagt fram á því þingi.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, vegna þess að það var óvenjulega óviðkunnanlegt, satt að segja, að fá það nú ofan í þessi ámæli um dráttinn, að námsmenn hefðu gert samning við menntmrh. um það, skilst mér, að flytja þetta frv. jafnskjótt og nefndarstarfinu yrði lokið, að ég hefði gaman af að sjá þann samning og hvernig hann var gerður, hvort hér var um að ræða skriflegan samning eða munnlegan samning eða hvaða gerð af samningi þetta var. Ég held satt að segja að ég sé nokkuð dómbær um það sjálfur, hvaða samninga ég geri. Ég held líka að námsmenn geti naumast haldið því fram, að þeir hafi nokkru sinni gert slíkan samning við mig, enda hefur slíkur samningur aldrei verið gerður, hvorki munnlega né skriflega, og undir slíkan samning hefði ég auðvitað aldrei gengist, hvorki skriflega né munnlega, því að slíkt er í sjálfu sér algerlega óviðeigandi af einum ráðh. og reyndar ekki í valdi hans að framkvæma slíkan samning. Þetta er því allt á misskilningi byggt. Eigi að síður gætu þessi orð misskilist nokkuð mikið ef ekki er gerð við þau athugasemd og þeim hreinlega mótmælt.

Í sambandi við þetta frv. er sannleikurinn sá, að það er lagt fram að vísu síðar en ég taldi æskilegt og margir hefðu óskað. Það er lagt fram í raun og veru 14 mánuðum eftir að það barst í mínar hendur. Það var ekki lagt fram á því þingi sem yfir stóð þegar það kom í mínar hendur, heldur á þingi þar á eftir. Þetta er allur drátturinn, og þetta eru hin óeðlilegu vinnubrögð sem hv. 10. þm. Reykv. er að deila á. Ég er orðinn það þingvanur, og hv. þm. er reyndar orðinn þingvanur líka, að ég veit að oft hefur liðið lengri tími frá því að endurskoðunarnefnd laga lauk störfum og þangað til ríkisstj. tók upp frumvörp frá slíkri nefnd. Það hefur oft liðið lengri tími en hér er um að ræða.

Mér finnst satt að segja á þessu stigi engin ástæða til að fara að karpa um atriði af þessu tagi, enda liggur þetta mál þannig fyrir að það er gerlegt og eðlilegt að ræða það málefnalega, en standa ekki í deilum um formsatriði eða hvernig á því hefur verið tekið innan ríkisstj., vegna þess að ég held að þau tök hafi á engan hátt, þegar upp er staðið, verið á neinn hátt óeðlileg. Aðalatriðið er að ræða þetta frv. eins og það liggur fyrir samkv. efni sínu og tilgangi. Ég held að niðurstaðan verði sú, eins og hér hefur reyndar komið fram í ræðum bæði hv. 10. þm. Reykv. og þá ekki síður hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, 9. þm. Reykv., að þetta frv. sé til bóta frá þeim reglum sem nú gilda um sjóðinn, en það er höfuðatriði þessa máls.

Ég lagði á það mikla áherslu á ræðu minni áðan, að hv. alþm. kynntu sér efnið og það sem í frv. felst og hvaða breytingar er þarna um að ræða og hvaða áhrif það hefur bæði í bráð og lengd, ekki síst lengd, vegna þess að áhrif þessa frv. munu vissulega koma í ljós á nokkru árabili, þau horfa að því leyti fram. Samt sem áður dettur mér ekki í hug að halda að þetta frv. sé svo vel og kirfilega úr garði gert að sú stund geti ekki komið að það þurfi að endurskoða þar eitt og annað og sniða það að aðstæðum sem kunna síðar að verða til í þjóðfélaginu. Þannig hefur þetta gengið með löggjöf um Lánasjóð s. l. 30 ár, að það er búið að gera á henni býsna margar breytingar, á 30 ára tímabili, og ekki dettur mér í hug að halda því fram, að ekki verði þörf á því innan kannske nokkurra ára að gera slíkar breytingar. En þegar á ferðinni er frv. sem horfir fram og er til bóta á ríkjandi kerfi held ég að sé full ástæða til þess fyrir hv. Alþingi að taka frv. vel.

Með þessum orðum endurtek ég ósk mína um það, að þetta frv. gangi til menntmn. þegar umr. er lokið og þar verði málið rætt ítarlega. Reyndar vil ég einnig endurtaka það sem ég hef sagt og undir hefur verið tekið bæði af hv. 9. þm. Reykv. og 10. þm. Reykv., að málið verði afgreitt sem lög frá Alþingi á þessu þingi. Segjum að því verði breytt, það er þingsins að gera það, en ég vona satt að segja að áður en þessu þingi lýkur fáum við nýja og betri löggjöf um námslán og námsstyrki.