26.01.1982
Sameinað þing: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

86. mál, fjölgun presta

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi lét þess getið, að farið væri að slá í fsp. þessa. Ég get á sama hátt tekið fram, að svarið er fyrir löngu tilbúið.

Fsp. hv. 3. landsk. þm., Karls Steinars Guðnasonar, á þskj. 89 fjallar um fjölgun presta með hliðsjón af því að auglýst hefur verið ný staða prests á Akureyri. Er jafnframt spurt um lagastöðu þessa starfs. Af þessu tilefni vil ég upplýsa eftirfarandi:

Í lögum um skipan prestakalla eru ákvæði um mannfjöldaviðmiðun við ákvörðun um tölu presta í kaupstöðum. Um Reykjavíkurprófastsdæmi segir í 1. gr. 15. lið í lögunum, að þar skuli jafnan vera svo margir prestar að sem næst 5 þús. manns komi á hvern að meðaltali. Um aðra kaupstaði segir í 3. gr., að þar skuli prestar vera svo margir að sem næst 4 þús. manns komi á hvern. Þrátt fyrir þetta beina lagaákvæði hefur þess verið gætt eftir föngum að afla fyrir fram fjárveitinga fyrir slíku starfi, einnig með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 97 frá 1974.

Svo var ástatt á s. l. hausti, er fjárlagafrv. var fullgert, að annað prestsembættið á Akureyri varð laust eftir biskupskosningu. Ráðagerðir höfðu verið á lofti í því prestakalli um að leita eftir stofnun nýs prestakalls vegna nýrrar og hraðvaxandi byggðar í Glerárhverfi þar í bæ. Nú þegar stofna þurfti til prestskosninga vegna hins lausa embættis þótti óæskilegt að í því kjöri tækju allir bæjarbúar þátt skömmu áður en væntanlega yrði stofnað til kosningar nýs prests í aðgreindu Glerárprestakalli. Þótti við þessar aðstæður rétt að leita velviljaðs stuðnings hæstv. fjmrh. við þetta málefni. — Svo vill til og gæti verið til skýringarauka, því að engin dæmi eru til alls fyrst, að mjög svipaðar aðstæður komu upp undir árslok 1974 í heimabyggð hv. fyrirspyrjanda. Prestsembætti í Keflavík losnaði er sóknarprestur var kjörinn til annars embættis. Þar höfðu verið óskir uppi um stofnun prestsembættis í Njarðvíkum og mælti fráfarandi sóknarprestur eindregið með skiptingu prestakallsins, sem var mjög annasamt, og var þar horfið að sama ráði og nú og af sömu ástæðum. Veit ég að fyrirspyrjandi hefur á þessu góðan skilning.

Í 2. lið fsp. hv. þm. er spurt, hvers vegna ekki sé fremur stofnað til nýs embættis á tilteknum stað í kjördæmi hv. þm. Svar við því er í sjálfu sér einfaldast það, að ekki hefur verið eftir því leitað. Jafnframt minni ég á að aðrar reglur gilda um Reykjavíkurprófastsdæmi en aðra kaupstaði. Ég vil til fróðleiks fyrir hv. alþm. gefa nokkrar upplýsingar um íbúatölur sem skipta máli við þessar aðstæður. Íbúatala á umræddum stöðum og fjöldi presta er sem hér segir:

Í Reykjavíkurprófastsdæmi er íbúatala 100 685, prestar 19. Í Akureyrarprestakalli er íbúatala 13 420 + Lögmannshlíð, prestar 2. Í Hafnarfirði er íbúatala 12 205, prestar 2. Auk þess mun nú vera í Hafnarfirði 1000 manna fríkirkjusöfnuður. Rétt er að greina hér einnig til skýringarauka frá íbúatölu í nokkrum hlutum Reykjavíkurprófastsdæmis. Í Kópavogi er íbúatala 13 819 og 2 prestar. Á Seltjarnarnesi er íbúatala 3100. Það er hluti úr Nesprestakalli sem hefur 2 presta. Í Breiðholti er íbúatala 22 010: Breiðholt III 10 700, Breiðholt II 6300, enn í vexti, Breiðholt 1 5000, fullbyggt, en prestar þrír.

Þetta svar læt ég nægja.