26.01.1982
Sameinað þing: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

341. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við þessari fsp. Eins og fram kom þegar efni þál. var reifað áðan er hún tvíþætt.

Annars vegar beinist hún að því, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði gert kleift að kanna hvernig best verði staðið að viðgerðum á alkaliskemmdum á steinsteypu í húsum. Af svari hæstv. iðnrh. kom fram, að þessum þætti ályktunarinnar hefur verið sinnt allrækilega og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gert kleift, m. a. með auknum mannafla, að vinna að þessari rannsókn, sem að sjálfsögðu hlýtur, eins og hæstv. iðnrh. gat um, að verða grundvöllur frekari aðgerða, þ. e. að koma sér niður á heppilegustu aðferðir til viðgerða á þessum húsum.

Hins vegar var efni þál. um það, að skipuð yrði nefnd til að kanna með hverjum hætti best yrði fyrir komið fjárhagsaðstoð við þá húseigendur sem hafa þurft að leggja margir hverjir í gífurlegan viðgerðarkostnað á húsum sínum. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum mínum með það, að þessi þáttur ályktunarinnar hefur ekki komist til framkvæmda. Honum hefur ekki verið sinnt. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. var þessi þál. send upphaflega til félmrn. eða hæstv. félmrh., en hann og hans rn. hafa ekki sinnt henni að neinu leyti. Ég verð að láta í ljós vonbrigði með það og jafnframt vil ég gagnrýna það. Ég vil ekki gagnrýna hæstv. iðnrh. fyrir þann þátt málsins. Það liggur ljóst fyrir af svörum hans, að það er við aðra að sakast í þeim efnum. En þetta vekur að sjálfsögðu upp spurningu, sem mjög oft kemur upp í huga okkar þm., þ. e. hversu litla virðingu hæstv. ríkisstj. og einstakir ráðherrar sýna Alþingi í störfum þess. Þetta kemur fram í margvíslegum myndum og kemur reyndar oft til umr. hér. Þetta dæmi, sem við höfum fyrir framan okkur, er eitt dæmi af mörgum.

Þessi till. var lögð fram á síðasta þingi og vísað til allshn. Sþ. og allshn. lagði á sig mikla vinnu við að kynna sér þessi mál. Hún fór m. a. í sérstaka heimsókn til Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og eyddi þar hálfum degi eða svo til að kynna sér hvað væri verið að gera í þessum málum þar, og hún fékk jafnframt umsagnir ýmissa aðila um þetta mál. Niðurstaðan varð að leggja til að þessi till. yrði samþykkt, sem og var gert. Svo kemur það í ljós tæpu ári seinna, að hæstv. ríkisstj. hefur á engan hátt sinnt þessum mikilvæga þætti þessa máls.

Það er enginn vafi á því, eins og hæstv. ráðh. sagði, að þetta er mjög stórt mál í huga mjög margra sem í þessu hafa lent, og það er svo stórt að ýmsir hafa látið sér detta í hug að það mætti jafna til þeirra tjóna sem bætt eru af Viðlagatryggingu Íslands. Hér er um að ræða óviðráðanlegt tjón sem fjöldi húseigenda verður fyrir. Orsakir þess eru ekki að fullu rannsakaðar, en margt bendir til þess t. d., að sementi frá Sementsverksmiðju ríkisins eigi sinn þátt í því, án þess að ég vilji þó fullyrða endanlega um það. Ég vil því eindregið skora á hæstv. iðnrh., sem hefur nú fengið þetta mál í hendur, að gerð verði gangskör að því sem fyrst að skipa þessa nefnd.

Ég er ekki viss um að Húsnæðisstofnun ríkisins sé rétti aðilinn í þessu efni, eins og fram kom í ræðu iðnrh. Húsnæðisstofnun hefur að vísu heimild í lögum til að veita lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á eldra húsnæði, og því er ótvíræð lagaheimild fyrir því, að hægt sé að veita lán í þessu skyni. Ég held hins vegar að það ætti að kanna hvort ekki væri möguleiki á að breyta reglum annaðhvort um Viðlagatryggingu Íslands eða Bjargráðasjóð Íslands þannig að hægt sé að koma að einhverju leyti til móts við þá mörgu húseigendur sem hafa lent í gífurlegu fjárhagstjóni vegna þess að alkalískemmdir hafa myndast í steinsteypu húsa.