26.01.1982
Sameinað þing: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

341. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Það er leitt til þess að vita, að þessi þál. skuli hafa villst á milli ráðuneyta, en vonandi er hún komin í rétta höfn nú. Það er hins vegar gott að heyra það frá hæstv. iðnrh., að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur tekið þetta mál föstum tökum og að fljótlega er von á ítarlegri skýrslu frá þeirri stofnun um þetta mál.

Það vita allir sem eitthvað hafa fylgst með þessu máli, að viðgerðir á þessum alkalískemmdum geta farið fram með ýmsum hætti og á þeim aðgerðum, sem til greina koma, er sjálfsagt mikill kostnaðarmunur. Það er þess vegna þjóðhagslega feiknalega stórt atriði að þetta mál sé vel athugað þannig að ráðist sé í þær viðgerðir, sem kostnaðarminnstar eru, en bera jafnframt góðan árangur. Þess vegna eru þær rannsóknir, sem þarna er vitnað til, mjög mikilvægar og gott að vita að við fáum fljótlega í hendur skýrslur varðandi þau atriði. Okkur er tjáð að íblöndun kísilryks í hið íslenska sement muni koma í veg fyrir alkalískemmdir í mannvirkjum okkar á komandi árum. Vonandi er það rétt.

Ég vil ítreka það og taka undir óskir um það með fyrirspyrjanda, að iðnrh. skipi hið fyrsta þá nefnd sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Það er enginn vafi á að fjöldi manna á um sárt að binda vegna þessara mála. Það er fjöldi manna sem er í verulegum erfiðleikum vegna þessara skemmda. Þarna er um að ræða glettilega flókið mál, hvernig best verður og réttast létt undir með þeim sem í þessum vandamálum hafa lent. Ég efa ekki að sú nefnd, sem skipuð verður, muni þess vegna eiga mikið starf fyrir höndum. Þeim mun fremur er nauðsyn að hún sé skipuð sem fyrst og geti hafið störf.