26.01.1982
Sameinað þing: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Komið er að því að slíta þessum fundi Sþ. sem á að fjalla um fyrirspurnir. Afgreiddar hafa verið tvær fsp., en á dagskrá eru 24. Margar þessara fsp. eru með lág númer, allt niður í 50, sem þýðir að þær eru orðnar nokkurra mánaða gamlar.

Ég vil benda á, að eins og haldið hefur verið á fsp. á þinginu í vetur, og á ég þá bæði við forseta, fyrirspyrjendur og ráðh., er þingið að glopra fsp.-forminu niður og missa af því góða sem á að vera hægt að hafa út úr því. Fsp. liggja vikum og mánuðum saman og er sjálfsagt bæði ráðh. og fyrirspyrjendum um að kenna að þær eru ekki teknar fyrir. Af þessu leiðir að þær verða gamlar, eru oft orðnar úreltar þegar þær koma til afgreiðslu.

Ég vil benda á að þetta á að vera eitt besta og hraðvirkasta form þingstarfa, en okkur tekst ekki að láta fsp. vera það. Ég vil taka það fram, að ég er ekki með þessum orðum að beina gagnrýni sérstaklega á hendur forseta, en vil beina því til þingheims alls að svona getur þetta ekki gengið. Það verður að gera breytingu á þannig að fsp. verði afgreiddar fljótt og vel og þær geri það gagn í þingstörfum og fyrir þjóðina alla að veita upplýsingar sem þær eiga að gera.