26.01.1982
Sameinað þing: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

140. mál, iðnaðarstefna

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að Alþingi samþykki ályktun um iðnþróun í þessu landi. Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að Alþingi samþykki stefnuyfirlýsingu varðandi málefni iðnaðarins, að Alþingi samþykki stefnulýsingu þess efnis, að það ætli að efla iðnað í þessu landi, að almenn skilyrði í þessu landi, að hinar almennu leikreglur í þjóðfélaginu séu þess eðlis, að innlendur iðnaður geti dafnað sem fullgild atvinnugrein í þessu landi, að grundvöllurinn sé slíkur að hann hvetji menn til iðnrekstrar og efli fyrirtækin. Það er ekki nóg að halda hátíðaræður um þessi efni og tala þar um nauðsyn þess að efla iðnað og iðnaðurinn eigi og muni taka við því starfsliði sem á vinnumarkað komi á næstu árum. Það þarf meira. Það þarf aðgerðir. Það þarf að grípa inn í þann grunn atvinnulífsins sem nú er. Það er meginmál að grunnurinn sé réttur, að grunnurinn sé með þeim hætti að frumkvæði landsmanna nýtist sem allra best.

Síðastur manna skal ég gera litið úr því, að reynt sé að skipuleggja þessi mál á besta veg. En við megum ekki gleyma okkur þannig að eingöngu verði um að ræða freðið skipulagstal eða einhvers konar uppbyggingu sem byggð er á þungum ákvarðanaferli hins opinbera kerfis. Það verður og er útilokað að virkja uppbyggingu hins íslenska iðnaðar miðstýrt frá einhverju skrifborði embættismanns eða stjórnmálamanns. Fyrst og fremst ríður á í allri umræðu um eflingu iðnaðar í þessu landi að grunnur atvinnulífsins sé réttur, að skattamálum sé hagað þannig að álögur á okkar innlenda iðnað, sem í mörgum tilvikum er veikburða, séu ekki meiri en í þeim löndum þar sem iðnaður okkar á að keppa, að skattamál séu með þeim hætti að munúr á starfsskilyrðum hinna ýmsu atvinnuvega séu ekki þannig að iðnaðinum sé beinlínis haldið niðri, að framlög og fyrirgreiðsla til hinna ýmsu atvinnugreina séu ekki beinlínis mismunun þannig að allt þetta hafi þau áhrif að gengisskráningin haldi iðnaðinum beinlínis niðri. Auðvitað er nauðsynlegt að gengið sé skráð þannig að okkar útflutnings- og samkeppnisiðnaður eigi möguleika í þeirri hörðu samkeppni sem hann tekur þátt í.

Hér skiptir fyrst og fremst máli að gera eitthvað. Það duga ekki endalausar ræður eða ályktanir um þessi mál. Þarna eru ákveðin atriði sem þarf að grípa inn í og verður að gera. Það er auðvitað öllum ljóst, að baráttan við verðbólguna að undanförnu, aðhald í gengismálum, hefur haft hamlandi áhrif á innlendan iðnað og minnkað markaðshlutdeild hans.

Íslenska þjóðfélagið hefur gengið í gegnum feiknalega mikla byltingu. Íslenska þjóðfélagið var bændaþjóðfélag í 1000 ár. Það er ekki fyrr en upp úr 1900 sem hér verður iðnbylting og þá með tilkomu togaranna, botnvörpunganna, vélskipanna. Þá breytist íslenska þjóðfélagið ísjávarútvegsþjóðfélag. Nú stöndum við enn frammi fyrir því, að við þurfum að breyta til. Við þurfum að efla hér iðnað. Hann þarf að verða ein meginundirstaða hins íslenska atvinnulífs. Íslenska þjóðfélagið þarf og á að verða sjávarútvegs- og iðnaðarþjóðfélag.

Ef menn líta yfir síðasta áratug kemur í ljós að hagvöxtur á síðasta áratug hefur verið um 2.5% að meðaltali. Verðbólgan hefur sjálfsagt verið um 40–50%. Flestir erlendir hagfræðingar hafa undrast hvernig íslenska þjóðfélagið hafi staðið af sér þessa miklu verðbólgu í hellan áratug, hvernig hafi verið unnt að auka framleiðni, að auka hagvöxt í þessu þjóðfélagi þrátt fyrir þessa gífurlegu verðbólgu, sem samkv. lögmálum hagfræðinnar mundi og ætti eðlilega að mola atvinnulífið niður. Skýringin er einfaldlega sú, að við höfum fengið aukinn sjávarafla. Við höfum veitt meira. Okkur er ljóst að fiskstofnanir eru takmarkaðir og næsta áratuginn getum við ekki treyst á að leysa vandann á sama hátt og við höfum leyst hann þann síðasta. Þess vegna verður efling iðnaðarins að vera grundvöllurinn sem við byggjum á þann áratug sem nú fer í hönd. Um það er engin spurning. Og þá á ég ekki bara við að efla hinn almenna útflutnings- og samkeppnisiðnað í þessu landi, heldur ekki hvað síst og kannske öllu fremur orkuiðnað. Ég kann betur við að tala um orkuiðnað en orkufrekan iðnað eða stóriðju.

Ég bind vonir við að nú þegar, eins og fram kom reyndar í ræðu iðnrh., er fyrirhugað að stíga nokkur skref til að jafna starfsaðstöðu hins innlenda iðnaðar: að lækka launaskatt á iðnaði og fiskvinnslu og samræma aðstöðugjald iðnaðar við fiskvinnslu. Ég bind miklar vonir við þessar aðgerðir, því að í sannleika sagt hefur á undanförnum árum miðað raunalega lítið í að jafna þessi starfsskilyrði. Það er líka ljóst, að samkv. þeim álagningarreglum, sem hjá okkur hafa gilt, á innlendur iðnaður í mjög örðugri samkeppni við innfluttan.

Jafnhliða því, sem menn ræða um eflingu innlends iðnaðar, tala þeir gjarnan um fríverslun og nauðsyn þess að iðnaður okkar dafni í alþjóðlegri fríverslun. Ekki skal ég draga úr því og sjálfsagt erum við öll hlynnt fríverslun. En þá verða menn jafnframt að huga að þeim styrktaraðgerðum sem þegar er gripið til í okkar helstu viðskipta- og samkeppnislöndum. Það er engin spurning um það, að til þess að komast fram hjá fríverslunarákvæðum hafa mörg þessara landa gripið til mjög verulegra styrktaraðgerða. Vilji menn halda áfram á braut fríverslunar, eins og þeir vonandi flestir vilja, verða menn að spyrna við fótum og bregðast við þessum styrktaraðgerðum á réttan hátt. Við vitum að þessar þjóðir fela styrktaraðgerðir sínar ýmist undir alls konar aðgerðum til að draga úr atvinnuleysi eða aðgerðum til að jafna byggðaþróun. Það kann að valda einhverjum frekari erfiðleikum að grípa inn í. En það er alveg ljóst, og ég hef oft gert það að umræðuefni hér á Alþingi og ætla ekki að gera það enn á ný, að þessar þjóðir beita ýmiss konar fjármagnsaðgerðum, bæði lánafyrirgreiðslu og lágum vöxtum ásamt niðurgreiðslu á launum, til að auðvelda sínum iðnaði að flytja ódýrari vörur út undir yfirskini fríverslunar og þá kannske einmitt til okkar lands það sem veikur iðnaður þarf við þessar aðgerðir að keppa. Menn hafa sérstaklega nefnt í þessu sambandi húsgagnaiðnað, vefnaðar,- fata- og saumaiðnað. Skipaiðnaðinn má telja með og sjálfsagt fleiri iðngreinar. Hér er um atriði að ræða sem bregðast verður við. Það er alveg útilokað að halda ræður um það eða semja ályktanir um að okkar innlendi iðnaður skuti vaxa og dafna og þróast í umhverfi fríverslunar ef menn standa svo starblindir frammi fyrir þeim aðgerðum sem beitt er af viðskiptalöndum okkar í þessu sambandi. Hér hvílir mikil ábyrgð á Alþingi og íslensku ríkisstjórninni. Um það er enginn vafi. Við höfum gengið með iðnað okkar tiltölulega veikan inn í fríverslun, og þess vegna hvílir sú ábyrgð á okkur að hann sé ekki hlunnfarinn með aðgerðum þessara viðskiptaþjóða okkar þar sem þær í hálfgerðum feluleik, þó opinberum sé, styrkja iðnaðinn til að keppa við okkar iðnað.

Annað atriði, sem mikilvægt er og ég vil koma hér inn á, er gæðamat hinnar innlendu iðnaðarvöru, bæði sem neytendavernd og þó kannske sérstaklega til að stemma stigu við innflutningi. Við sjáum það meðal iðnríkjanna, að þar er gæðamat yfirleitt mjög sterkt. Þar er erfitt að flytja inn iðnaðarvöru nema hún hafi farið í gegnum strangt gæðamat. Hér á Íslandi eru nokkur brögð að því og veruleg hætta að fluttar séu inn iðnaðarvörur, sem aðrar þjóðir mundu jafnvel ekki vilja, vegna þess að gæðamat okkar er ekki til staðar. Í þessu sambandi hafa menn mikið talað um innflutt húsgögn. Mér virðist, það sem ég hef skoðað til, að innlend húsgagnaframleiðsla standi yfirleitt verulega framar þeim innflutningi sem fram fer á þessu sviði. Mér sýnist þess vegna nauðsynlegt, að gæðamati verði komið á í fyrsta lagi sem neytendavernd, og minni þá enn á innflutning tilbúinna húsa sem gerður hefur verið að umræðuefni hér á Alþingi og veruleg hætta er fólgin í, en jafnframt vegna þess að það er alveg ljóst að viðskiptalönd okkar beita slíku gæðamati beinlínis sem hömlum í innflutningi. Það er alveg ljóst, að mörg okkar viðskiptalönd beita slíku gæðamati sem nokkurs konar „non-tariff barrier“, sem þeir kalla. Íslensk iðnfyrirtæki hafa orðið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fyrir barðinu á því, að vörur þeirra eru settar í gæðamat áður en innflutningur er heimilaður, en síðan tekur mánuði eða hálft ár að fá einhverja afgreiðslu frá slíku gæðamati. Það er einfaldlega svo mikið sem liggur fyrir að það er ekki hægt að koma málinu þar í gegn og það dregst og dregst.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á grundvöllinn sjálfan þegar rætt er um eflingu innlends iðnaðar. Hann er það sem skiptir máli. Ef hann er réttur laðast sem flestir að því að efla þessa atvinnugrein, taka þátt í henni, og fyrirtækin blómstra. Í þessu sambandi er auðvitað rétt, sem fram hefur komið, að þær iðngreinar, sem nýta orkuna, þær iðngreinar, sem nýta sérstaklega innlent hugvit, og þær iðngreinar, sem nýta innlend hráefni sérstaklega, ættu að hafa meiri möguleika en aðrar. Enn á ný vil ég benda á að Íslendingar sem miklir matvælaframleiðendur, Íslendingar sem framleiðendur fiskafurða á heimsmælikvarða, eiga mjög mikla möguleika í nýtingu fisk- og sláturúrgangs. Það er ljóst, að sá iðnaður, sem hvað mest dafnar í iðnríkjunum sem stendur, er einmitt framleiðsla margs konar lífhvata, ensíma og hormóna úr fisk- og sláturúrgangi. Þar virðist vera feiknalegur vöxtur og nýting þessara afurða á hinum ýmsu sviðum er stöðugt að vaxa og sviðin að verða fleiri. Íslendingar eiga þarna mikla möguleika. Fiskúrgangurinn hjá okkur getur leitt okkur inn í — ég vil segja: beinlínis stóriðju á þessu sviði. Hráefnin eru til. Þau eru nánast ekkert notuð, en þau eru verðmæt. Áríðandi er að Alþingi marki stefnu á því sviði að efla einmitt framleiðslu í lífefnaiðnaði og nýtingu þessara mikilsverðu hráefna.

Annað, sem í hugann kemur þegar um þetta er rætt, er auðvitað sjóefnavinnslan, framleiðsla salts og magnesíummálms og annars slíks. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér nú, en fjölbreytilegur og margvíslegur efnaiðnaður er mögulegur hér einmitt á grundvelli sjávarins.

Það vekur nokkra athygli mína, að munurinn á þeim tveimur þáltill, sem hér liggja fyrir um iðnaðarstefnu, er í reynd ekki mjög mikil. Ég hjó þó sérstaklega eftir því, að í þáltill. þeirra sjálfstæðismanna er ekki talað um að tryggja forræði eða yfirráð landsmanna sjálfra yfir íslensku atvinnulífi og auðlindum og þar er ekki heldur talað um að uppbygging iðnaðarins komi sem jafnast út um landið og nýtist einmitt sem byggðaatriði. Nú kann að vera að það mál sé eitthvert deilumál. En mér er til efs að stuðningsmenn Sjálfstfl. taki ekki eftir því úti um land að þetta atriði hefur fallið niður í þeirra þáltill. Ég ætla ekki að gera það atriði frekar að umræðuefni hér, en ég vil hins vegar gera það nokkuð að umræðuefni, að mikil nauðsyn er að stefnan sé mörkuð á þann veg að landsmönnum sjálfum sé tryggt forræði yfir íslensku atvinnulífi og auðlindunum. Ég geri það ekki hvað síst vegna þess að sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn fluttu á sínum tíma þáltill. um svokallaða orkusölunefnd. Nafnið eitt hafði út af fyrir sig mikil áhrif á mig. Ég er þeirrar skoðunar, að einmitt núna, þegar við stöndum frammi fyrir byltingu í íslensku atvinnulífi, þegar allt byggist á því að orkuiðnaður rísi hér á komandi árum, þá verði það að verða meginmarkmið í þeirri stefnumörkun, sem við stöndum frammi fyrir, að við séum ekki að stefna að orkusölu, heldur séum við að stefna að uppbyggingu orkuiðnaðar í þessu landi. Ég vil vekja athygli á því hér, að ég tel að þarna liggi í rauninni úrslitaatriði í því, hvers konar þjóðfélag það verður sem komandi Íslendingar búa í á næstu áratugum.

Ég vil vekja athygli á því, að Íslendingar eiga mikla orku í landi sínu og kannske meiri orku á íbúa en nokkur önnur þjóð veraldar. Það er hægt um vik að bera saman við Kanadamenn. Kanadamenn eiga mikla orku og þeir eiga miklar auðlindir í jörðu. Kanadamenn eru komnir það langt að þeir nota og nýta meiri orku á hvern íbúa í landinu en nokkur önnur þjóð veraldar. Svo langt eru þeir komnir í orkunýtingu. Eigi að síður eru Kanadamenn ekki rík þjóð á mælikvarða þeirra þjóða sem við viljum helst bera okkur saman við. Kanadamenn eru nánast fátæk þjóð, ef borin er saman þjóðarframleiðsla á íbúa, miðað við þær þjóðir sem við viljum helst bera okkur saman við. En hvernig stendur á því, úr því að þeir eiga þessar miklu orku- og auðlindir og hafa nýtt þær þegar í þessum mikla mæli? Skýringin er sú, að þeir hafa ekki virk yfirráð yfir sínu atvinnulífi sjálfir. Það er meginatriðið. Það eru erlend fyrirtæki sem eiga og reka og hirða afrakstur auðlindanna í Kanada. Kanadamenn selja þessum erlendu fyrirtækjum, sem í mörgum tilvikum eru bandarísk, orkuna á tiltölulega lágu verði og síðan vinna Kanadamenn hjá þessum fyrirtækjum og hafa sæmileg laun fyrir það. Þarna held ég að sporin hræði. Ég held að við sjáum hvað þarna hefur skeð, og ég held þess vegna að virk yfirráð Íslendinga sjálfra yfir því atvinnulífi, sem upp af þessum auðlindum sprettur, sé meginmál. Að öðrum kosti er veruleg hætta á að land okkar verði nokkurs konar hálfnýlenda erlendra stórfyrirtækja, að íslensk þjóð verði nokkurs konar vinnumannaþjóð hjá erlendum stórfyrirtækjum.

Ég vek athygli á að einmitt stefnan á þessu sviði núna, áður en lengra er haldið, felur í sér grunninn að því, hvers konar þjóðfélag það verður sem Íslendingar munu lifa í um aldamótin. Framsóknarmenn hafa þess vegna lagt megináherslu á það hugtak sem þeir hafa mótað: virk yfirráð, virk yfirráð í orkuiðnaði og atvinnulífi landsmanna, sem felur í sér ekki bara að Íslendingar eigi meiri hluta í þessum fyrirtækjum, vegna þess að meirihlutaaðild tryggir ekki virk yfirráð, heldur að Íslendingar taki sjálfir að sér tæknimálin í eins ríkum mæli og unnt er og markaðsmálin einnig. Á því er enginn vandi. Heimurinn er ekki það flókinn. Íslendingar verða að stíga það skref að markaðsmál orkuiðnaðar verði mikilvæg atvinnugrein í þessu landi. Að öðrum kosti er hætta á að við lendum í svipuðum sporum og þær þjóðir sem að verulegu leyti hafa nýtt sínar orkulindir, en njóta ekki afrakstursins af þeim í þeim mæli sem skyldi. Við stöndum þess vegna á tímamótum. Við stöndum á tímamótum í þessari stefnumörkun um atvinnulíf á þessu landi, svipað og við Íslendingar gerðum þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna forðum. Menn verða nefnilega að gera sér grein fyrir því, að þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna og efldum skipaflota okkar til að sækja fiskinn lögðum við grunninn að því Íslandi sem við búum í. Við lögðum grunninn að því Íslandi sem þjóðin þekkir. Ef þau skref hefðu ekki verið stigin þá, og þurfti þó að rifta samningum sem búið var að gera og virða þá nánast að vettugi, þá væru lífskjörin önnur í þessu landi en þau eru nú.

Þegar Íslendingar hófust handa um að nýta sínar fiskiauðlindir sjálfir stigu þeir það skref að eiga sín fiskiskip sjálfir. Það kann að vera að menn hafi eitthvað greint á um það á sínum tíma, hvort Íslendingar skyldu eiga sína togara eða hvort útlendingar ættu að einhverju leyti að koma þar inn í. Sem betur fer var það ráðandi stefna að fiskiskipin ættu Íslendingar sjálfir, togskipin, og þeir nýttu sín fiskimið sjálfir. Það er grunnurinn undir það þjóðlíf sem á Íslandi er. Á sama hátt verður það grunnurinn undir þjóðlíf okkar um aldamótin að Íslendingar sjálfir hafi forræði yfir atvinnulífinu í þessu landi, að þeir marki þá stefnu að þeir hafi virk yfirráð yfir þessu atvinnulífi, en verði ekki nokkurs konar hálfnýlenda erlendra fjölþjóðafyrirtækja. Hér er um svo stórt mál að ræða að hjá því verður ekki komist að gera að umræðuefni að í þessari annars ítarlegu og að mörgu leyti athyglisverðu þáltill. sjálfstæðismanna er þetta atriði ekki með.