26.01.1982
Sameinað þing: 43. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

51. mál, landnýtingaráætlun

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem menn hafa hér mælt í sambandi við stuðning við þessa till., henni er að sjálfsögðu ákaflega létt að fylgja. Ég vek þó athygli á því, að framkvæmd hennar verður í rauninni að skoða sem ákveðið framhald af landgræðslu- og landnýtingaráætlun, en einnig um þau mál hefur verið lögð fram till. hér á Alþingi sem væntanlega verður studd af öllum þingflokkum, þar sem hún var undirbúin af nefnd sem þingflokkarnir hver um sig áttu fulltrúa í. Það gefur á vissan hátt auga leið, að þessi mál falla æðimikið saman, og m. a. bar ræða hæstv. iðnrh., sem hann flutti áðan, þess sannarlega merki.

Nú er það að sjálfsögðu þannig, að ef menn færu að skoða þetta mál nokkuð í heild yrði að sjálfsögðu að fjalla um það í mjög víðtæku máli, og ef maður færi sérstaklega að fara ofan í þá umræðu sem hér hefur farið fram og snertir þá allt eins till. um landgræðslu, þá yrði þessi umræða að sjálfsögðu ærið fyrirferðarmikil. Ég ætla þess vegna að sleppa því að fjalla um málið í svo víðtækri merkingu þar sem væntanlega gefst kostur á að ræða það nánar síðar.

En út af því, sem iðnrh. sagði áðan, langar mig aðeins að minnast á tvö atriði. Ég er honum sammála og ég er honum þakklátur fyrir það sem hann hafði hér til málanna að leggja varðandi myndkortagerð, og ég vissi raunar áður um áhuga hans á því máli. Það má kannske segja frá því hér til gamans, að ég var að líta á þetta mál varðandi mína sýslu, Austur-Skaftafellssýslu, og þar gekk ég ofan í spor hæstv. iðnrh., því að hann hafði einmitt verið að kanna það mál í byrjun sinnar þingsetu. Það, sem hann sagði í þessum efnum, er sannarlega þess eðlis, að það beri að undirstrika, og um þetta verður náttúrlega fjallað í skýrara máli síðar. En til viðbótar er hér um ákveðið skipulagsatriði að ræða, því að þessi stofnun er við störf og það eiga sér stað miklar mælingar fyrir ýmsa aðila, þannig að þótt það eitt væri gert og ekkert annað en að samræma þá vinnu, þá næðist gífurlega mikill árangur. Og ég er alveg sannfærður um að það er vil ji fyrir að ná þessu máli fram hér á Alþingi. Um það ættum við að sameinast og að því ættum við að hjálpast að.

Annað atriði sem hæstv. iðnrh. sagði hér og ég get ómögulega látið fram hjá mér fara, var það sem hann talaði um ofbeit og — að því er ég held að hann hafi sagt — hrikalegt ástand, ekki einungis í afréttum, heldur líka í heimahögum. Nú er þessi hæstv. ráðh. að sjálfsögðu þekktur fyrir kurteisi í málflutningi. En mér finnst það of mikil hógværð þegar menn taka svona til orða, vita um slíkt ástand sem þetta, að þeir tilgreini ekki einhver dæmi. Ég væri afskaplega þakklátur fyrir það, ef t. d. kæmu fram ábendingar um þetta í Austur-Skaftafellssýslu. Hún stendur mér næst af öllum íslenskum byggðarlögum og þar þekki ég langbest til. Ég vildi gjarnan fá vitneskju um þetta hrikalega ástand. Það er hægt að færa hér fram tölur um fjölgun búfjár í Austur-Skaftafellssýslu á síðustu áratugum. Þar er um að ræða meiri fjölgun búfjár en trúlega er fyrir hendi annars staðar á landinu. Þar liggja líka fyrir tölur um afurðaaukningu, og ég get nefnt fjölmörg dæmi um það, hvernig gróðri er að fara fram í þessari sýslu, þar sem enginn afréttur er til og þar sem allar tölur mundu sýna að það væri ekkert pláss fyrir búféð. Það, sem hér kemur á móti, eru breyttir búskaparhættir. Það hafa vaxið upp á síðustu árum heilar skógarbrekkur og skógarbreiður. Ég get t. d. nefnt dæmi eins og í landi Staðarfells og Brekku, þar sem skógur hefur vaxið yfir slóðir og troðninga á síðustu áratugum. Ég get nefnt dæmi eins og í sambandi við Hlíð í Lóni, þar sem skógarbrekkur hafa vaxið upp á allra síðustu árum. Og ég get komið með mörg fleiri dæmi. Spurningin er, hverju menn vilja halda fram og hvað menn vilja taka til meðferðar í þessu efni. En það er eftir að ræða hér samskipti bændanna við landið og það er eftir að segja frá því í skýrara máli, með hvaða hætti umskipti hafa orðið vegna breyttra búskaparhátta á allra síðustu áratugum. Þar hygg ég að sé um að ræða einhverja þá þýðingarmestu og gagnlegustu gróðurvernd sem fengist er við á þessu landi.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti hér við fyrri hluta þessarar umr. allmikla ræðu, og í rauninni hefði það ekki verið neitt tiltökumál ef þar hefði verið um persónulega framsetningu hjá hv. ræðumanni að ræða. Það hefði út af fyrir sig ekki verið nein sérstök ástæða til þess að fara ofan í þá ræðu ef hann hefði sérstaklega verið að boða þar stefnu Alþfl. sem slíks. En við öll efnisatriði þessarar ræðu vitnar hann í sérfræðinga, gróðursérfræðinga. Í einstaka tilvikum vitnar hann í fóðurfræðinga. Það er af þessari ástæðu alveg augljóst, að það er engin hending hvernig ræðan er upp sett eða hver texti hennar og innihald er. Í hana virðist hafa verið lögð mikil vinna og ræðumaður óspar á tilvitnanir í sérfræðinga, þó að þeir séu yfirleitt ekki nafngreindir. Það er einmitt af þessari ástæðu sem ekki er hægt annað en fjalla um þessa ræðu í örfáum orðum.

Þar sem hv. ræðumaður byrjar að fjalla um hálendið og nýtingu þess kemst hann m. a. svo að orði, með leyfi forseta: „Á mörgum hálendissvæðum og afréttarlöndum er um mikla ofbeit að ræða.“ Og síðar segir enn fremur: „Og þar er gróðureyðing yfirvofandi vegna of mikils ágangs búfjár, vegna hreinnar ofbeitar.“

Nú er það svo, að viss byggðarlög og upprekstrarfélög hafa haft á því áhuga og áform að koma á ítölu í sína afrétti, sem að sjálfsögðu er grundvöllur þess að þá sé hægt að nýta með eðlilegum hætti, þannig að ekki sé gengið á þeirra höfuðstól. Þessi ítala hefur einungis komist á í sambandi við einn afrétt, þ. e. Landmannaafrétt. Ástæðan fyrir því, að þessari ítölu og þessari beitarstjórnun hefur ekki verið hægt að koma á víðar, er sú, að ekki hafa fengist upplýsingar um það, hvað hver og einn afréttur og heimahagar hafa borið af búfé. Í þessu felst mikilvægt svar við þessum stóru orðum og ásökunum hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Hvernig er hægt að fella slíka dóma sem þessa þegar ekki eru fáanlegar heimildir um beitarþol hinna einstöku afrétta og beitarsvæða? Það er ekki ágreiningsmál, að það er sá grundvöllur sem í þessum efnum verður ekki komist hjá að byggja á. Dómar eru þess vegna út í loftið meðan þetta liggur ekki fyrir. Og það, sem hér er þó allra alvarlegast, er að það eru bornir fyrir þessu beitarsérfræðingar, vonandi þó ekki þeir hinir sömu og taka við fjármagni af hendi hins opinbera til þess að framkvæma gróðurmælingar, en hafa aftur á móti ekki getað afhent þær til skipulagningar við þessi stóru viðfangsefni.

Þá er í öðrum þætti þessa máls talað um fjárfjöldann hér á landi og hvað mikið af fénaði sé rekið á afrétti. Þar er komist að þeirri - ég vil segja: sögulegu niðurstöðu, að 900 þús. fjár, allur sauðfjárstofninn sé hafður í afrétti. Nú vill svo til að það hefur verið gerð á þessu könnun, og hv. þm. Steinþór Gestsson gerði reyndar grein fyrir því. Það hefur verið gerð á því könnun hversu margt fé væri rekið í afrétti. Eins og kom fram í ræðu Steinþórs Gestssonar eru það um 35–38% af öllum sauðfjárstofninum. Það er sem sagt þriðja hver kind sem er rekin til afrétta. En svo kemst aftur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að þeirri niðurstöðu — með þeirri leiðsögn sem hann hefur varðandi sinn málflutning- að afréttirnir beri 500 þús. fjár. Það á að fækka í afréttunum að hans mati um 400 þús. fjár, en það má þá beita þar 500 þús. fjár. Það er töluvert hærri tala en nú gengur á öllum íslenskum afréttum. Samt er talað um ofbeit.

Umfram þetta hefur Grænland alveg sérstaklega dregist inn í þessa umræðu. Talnasamanburðurinn þar er nú að sjálfsögðu með þeim hætti, að þar er engin tala rétt. Reyndar eru allar tölur í ræðu hv. þm. sighvats Björgvinssonar rangar, en talnasamanburðurinn er líka rangur. En út af fyrir sig breytir það ekki málinu, heldur sá almenni boðskapur sem þm. flytur í sambandi við fallþunga, í sambandi við afurðasemi og beitarnýtingu.

Nú vill svo til að um þetta hefur verið fjallað. Á grundvelli þeirra gagna, sem fáanleg hafa verið og legið hafa fyrir, hefur verið gerð úttekt á því hvaða samræmi sé á milli afurðasemi og landnýtingar. Frá því segir í bréfi sem er svar Ólafs Dýrmundssonar landnýtingarráðunautar Búnaðarfélags Íslands til Stéttarsambands bænda og var gefið út sem grein í Árbók landbúnaðarins. Það er ákaflega margt athyglisvert í þessari grein, m. a. það, að þótt sauðfé hafi fjölgað á Íslandi, þótt frjósemi hafi aukist þannig að fleira og fleira fé hefur gengið hér í högum, þá hefur fallþunginn líka aukist. Þetta sýnir það m. a., að við höfum nógan samanburð hér innanlands til þess að sýna fram á að afréttirnir sem slíkir eru með engum hætti ákvarðandi um það, hvað af þeim koma mikil og þung föll. Ég vil benda á það, að sums staðar á landinu liggur ljóslega fyrir að afréttir eru ekki einu sinni fullnýttir. Menn ættu að líta á það og gera samanburð á því, hver fallþunginn er í þeim byggðarlögum miðað við það sem hann er í ofnýttu byggðarlögunum. En þar hygg ég að Norðausturland og Austurland standi kannske einna best. Í umræddri grein eru dregnar skýrar ályktanir í lok hennar. Þar segir svo m. a., með leyfi forseta:

„Þótt vitað sé að fjárfjöldi í högum hafi áhrif á vænleika lamba hefur ekki reynst unnt að greina bein tengsl á milli fjölgunar sauðfjár undanfarin ár og fallþunga dilka.“

Þrátt fyrir þessa úttekt hefur ekki tekist að greina þessi áhrif að. Ég held að það sé best fyrir menn að halda sig á Íslandi þegar verið er að fjalla um þessi mál.

Eitt af því, sem kemur fram í ræðu hv. þm. — og snertir reyndar Grænland líka og gróðursérfræðingar eru bornir fyrir — er skýring á því, vegna hvers frjósemi sé minni í íslenska sauðfjárstofninum en þeim grænlenska. Nú liggur reyndar fyrir að til nytja kemur mun meira af lömbum miðað við hverja einingu heldur en í Grænlandi. Í rauninni segir það ekkert um frjósemina vegna þess að þetta sauðfé býr við mjög ólík skilyrði. En ég hef hvergi á ævi minni, hvorki í töluðu né rituðu máli, heyrt frá því sagt að næringarskortur að sumri til gengi út yfir frjósemi sauðfjárins, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson komst að orði hér og bar gróðursérfræðinga fyrir.

Hv. þm. rekur þessi mál alveg á enda. Hann gengur svo langt að sýna fram á hversu mikil hagkvæmni mundi felast í því að fénaði yrði fækkað í samræmi við hans kenningu, þ. e. um 4/9 hluta, ca. 400 þús. fjár. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að e. t. v. mundi heildarafurðamagnið verða það sama eftir sem áður. Ég bendi á að hér er ekki verið að fjalla um hagnaðinn, ekki um nettó-hagnaðinn, ekki um launagreiðslur til bændanna í landinu, heldur um afurðamagnið sem slíkt. Og þar er sem sagt komist að þeirri spaklegu niðurstöðu, að það sé vel hugsanlegt að með því að fækka um 400 þús. fjár á fóðrum mundu þær 500 þús. kindur, sem eftir eru á fóðrum, gefa jafnmiklar afurðir og þær 900 þús. gerðu þegar þær gengu um haga. Og enn þá eru bornir fyrir þessu gróðursérfræðingar. En hér er sá munur þó gerður á, að menn eru farnir að nefna nöfn. Hér eru hv. þm. farinn að nefna nafn, að vísu bara eitt. Og til þess að þetta sé nú alveg skýrt og alveg ljóst ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að vitna í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Þar segir hann:

„Nú get ég að sjálfsögðu ekkert fullyrt um það, hvort þetta dæmi gengur upp eða ekki. Ingvi Þorsteinsson“ — það er í fyrsta sinn sem hv. þm. nefnir á nafn á svokölluðum gróðursérfræðingi og þá bara einum þeirra — „Ingvi Þorsteinsson, sérfræðingur um gróðurrannsóknir, vakti athygli mína á þessum staðreyndum.“ Þetta eru þá orðnar staðreyndir, að 500 þús. fjár mundu geta gefið eins mikið og 900 þús. fjár, ef 400 þús. væru fjarlægð úr högunum. Hann getur að sjálfsögðu ekki frekar en aðrir fullyrt neitt um það, hvort þetta dæmi gengur upp. (SighB: Hv. þm. hefði átt að ljúka svolítið fyrr, það var það sem þm. ætlaði sér að gera, lesa ekki til enda. Mér sýndist það á honum. Honum brá allískyggilega þegar hann var búinn að lesa svona langt.) Það er að sjálfsögðu ákaflega skiljanlegt að hv. þm. vilji ekki hafa þetta á mörgum stöðum í þingtíðindum. En ég veit ekki hvað er vitlausast í þessari ræðu, og ef ég ætti að fara að setja það þannig upp, þá yrði það allt að fylgja með.

Ég undirstrika það, svo sem ég sagði í upphafi míns máls, að ef hér væri um að ræða eitthvert persónulegt innlegg hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, þá væri ekki mikil ástæða til þess að gera mikið úr málinu, og ekki heldur ef þetta væri stefna Alþfl. eða jafnvel einhvers annars tiltekins flokks. Það, sem skiptir hér máli og ekki verður undan vikist, er að meta hvaðan þetta kemur, hverjir þessir gróðursérfræðingar eru og fóðurfræðingar sem vitnað er í, ekki einn, ekki tveir, þeir hljóta þó alla vega að vera þrír, væntanlega þó alltaf tveir gróðursérfræðingar og einn fóðurfræðingur. Og menn verða í framhaldi af því að líta á það mjög gaumgæfilega, ef svo kynni að vera að einhver tengsl væru á milli þessara gróðursérfræðinga, sem hér hefur verið títt um talað, og þeirra sömu sem eiga að afhenda bændunum í landinu upplýsingar um beitarþol á afréttum og heimahögum. Þá er sannarlega mikil ástæða til þess, að það verði athugað af mikilli gaumgæfni hvers vegna formaður þingflokks Alþfl. fær frekari heimildir um þessi efni en t. d. bændasamtökin sem slík. Það verður engri stofnun liðið, sem hér á hlut að máli, annað en gera grein fyrir því hvers vegna formaður þingflokks Alþfl. fær heimildir sem ekki eru afhentar öðrum sem eftir þeim leita. Þetta er þungamiðja málsins í þessu sambandi.

Ég orðlengi þetta ekki frekar að þessu sinni. En það verður þá með öðrum hætti reynt að ganga eftir því hér á Alþingi, hvort ekki er kominn tími til þess fyrir t. d. Rannsóknastofnun landbúnaðarins að reka af sér slyðruorðið og afhenda upplýsingar um beitarþol á hinum einstöku landssvæðum, í hinum einstöku afréttum. Það er að sjálfsögðu eftir þetta innlegg og eftir þessar upplýsingar hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni alveg ómögulegt að sleppa Rannsóknastofnunni við það. Eftir því verður að ganga, m. a. hugsanlega með tillöguflutningi héðan af Alþingi.