27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

166. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Með frv. því á þskj. 255 um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 frá 23. des. 1952, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., eru gerðar tillögur um ýmsar breytingar á gildandi lögum sem ekki hefur verið hróflað við frá því að þau voru sett árið 1952. Það er að vísu ekki heppilegt, að lög um slíkt efni sæti tíðum breytingum, og þess raunar síður að vænta um lög sem samræmd eru að mestu í samvinnu milli Norðurlandanna fimm. Á síðustu árum hafa orðið breytingar á viðhorfum um tiltekin atriði víða um lönd. Þar á meðal hafa skandinavísku löndin breytt lögum sínum um þau efni á allra síðustu árum. Þykir nú einsýnt að tímabært sé að koma samsvarandi breytingum á hér á landi. Þykir sýnt að þjóðfélagsþróun hafi skapað þau viðhorf einnig hér á landi sem geri þessar breytingar eðlilegar. Einnig verður að telja mikilvægt að halda því lagasamræmi sem verið hefur milli Norðurlandanna. Mundi það nást aftur til fullnustu að gerðum þeim breytingum sem með frv. eru ráðgerðar. Þær breytingar eru einkum þessar:

1. Eftir gildistöku frv., ef að lögum verður, kemst á jafnstaða með körlum og konum í því efni að börn giftra foreldra leiða ríkisfang sitt jafnt frá móður sem föður. Segja má að þetta atriði hafi verið helsta kveikjan að gerð lagafrv.

2. Jafnframt leiðir gildistökuákvæðið í frv. um afturvirkni framangreindrar reglu í afmarkaðan tíma til þess að börn íslenskrar móður, sem eru fædd á síðustu 18 árum fyrir gildistöku laganna, fái íslenskt ríkisfang ef hún gefur skriflega yfirlýsingu um þá ósk innan tiltekins tíma. Auk þess að gefa framangreindri reglu afturvirkni er þetta ákvæði til þess fallið í sumum tilvikum að börn íslenskrar móður, sem ekki eiga ríkisfang með henni eða sama ríkisfang, en e. t. v. fjarlægt ríkisfang föður síns, geti með eðlilegum hætti notið ríkisfangs í heimalandi sínu. Þannig mun hafa háttað til um allmikinn fjölda barna á öðrum Norðurlöndum og þar mun þessi regla væntanlega teljast annar höfuðtilgangur frv. Þessa eru trúlega mun færri dæmi hér á landi.

3. Þá er tekin upp reglan eftir fyrirmynd dönsku laganna um heimild ættleiðenda til að lýsa ættleitt erlent barn undir 7 ára aldri íslenskan ríkisborgara.

4. Tekin er upp í frv. sú lagaregla, sem önnur Norðurlönd tóku upp 1968, samkv. tilmælum í alþjóðasamningi um að draga úr ríkisfangsleysi með þeim tilteknu löggjafarráðstöfunum.

5. Loks er tekin inn í frv. sú lagaregla, sem ekki var tekin upp hér á landi árið 1952, en gilt hefur milli Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar frá 1950, að dvöl í einhverju hinna ríkjanna jafngildi með ákveðnum hætti dvöl í heimalandi við öflun ríkisfangs.

Ég vísa að öðru leyti til aths. með frv. um ítarlegri grg. um aðdraganda frv.-gerðarinnar og þá þjóðfélagsþróun sem orðið hefur grundvöllur að breytingum á löggjöf nágrannaþjóðanna sem fylgt er eftir með frv. þessu.

Ég vil að endingu vekja athygli á því, að í frv. er gert ráð fyrir gildistöku 1. júlí 1982. Ef það á að haldast þyrfti fremur að flýta meðferð þess þar sem nokkur kynningaratriði fylgja ákvæðum 10. gr. þess sem æskilegt væri að koma á framfæri þegar fyrir gildistöku. Ég vil svo óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.