27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

168. mál, dýralæknar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Á síðasta Alþingi fluttum við, ég og hv. 6. þm. Norðurl. e., frv. til l. um breytingar á lögum um dýralækna þar sem lagt var til að skipta Þingeyjarþingsumdæmi með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í þessu frv. Sú skipting, sem við lögðum til, var gerð í samræmi við vilja og að tillögum héraðsdýralæknis, og síðan hefur Búnaðarsamband Suður-Þingeyjarsýslu mælt með þessari breytingu eins og við lögðum hana til. Það kemur mér því afskaplega mikið á óvart að hæstv. landbrh. skuli hér leggja til aðra skiptingu á þessum dýralæknisumdæmum en var í því frv., og ég vil beina því til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að ganga úr skugga um það rækilega, hver sé vilji héraðsdýralæknis og heimamanna í þessum efnum. Það getur auðvitað orðið til þess að tefja fyrir þessu máli og draga það ef stofna á til óeiningar innanhéraðs um jafnsjálfsagt mál og þetta.

Ég verð að harma það, að bæði í framsöguræðu hæstv. landbrh. og eins í grg. skuli vera gefið í skyn að þessi skipting sé í samráði við menn heima í héraði þegar því er alls ekki til að dreifa. Þannig stendur t. d. í aths. við 4. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Við skiptingu þessara umdæma hefur verið haft samráð við viðkomandi héraðsdýralækna og bændur, sem þar eru gagnkunnugir.“

Nú má vera að mín stóru orð standist ekki og að héraðsdýralæknirinn í Þingeyjarþingsumdæmi hafi skipt um skoðun frá því í fyrra, en mér er það þá ókunnugt. Það má líka vera að Búnaðarsamband Suður-Þingeyjarsýslu hafi skipt um skoðun, en mér er það þá líka ókunnugt. Ég vil sem sagt beina því til þeirrar nefndar, sem fær málið til umfjöllunar, að endurskoða skiptinguna þarna, endurskoða hvort rétt sé að slíta Hálshrepp frá Eyjafjarðarumdæmi. Ég get satt að segja ekki skilið, þegar gerð er breyting á dýralæknisumdæmum, hvers vegna þess er ekki getið í framsöguræðu eða í grg. með frv. Ég get alls ekki skilið það. Það er alveg sjálfsögð kurteisi við alþm. að leggja plöggin sem skýrast fyrir. Hálshreppur er í Eyjafjarðarumdæmi eystra samkv. núgildandi lögum, en samkv. því frv., sem hér er lagt fram, er þegjandi og hljóðalaust lagt til að hann verði færður yfir í Þingeyjarþingsumdæmi vestra. Fyrir þessu hef ég ekki heyrt nein rök. Ég vil benda þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, á það, að samgöngur allar við Fnjóskadal og viðskiptasvæði eru til Akureyrar. Þau kaupfélög, sem Fnjóskadalur verslar einvörðungu við, heita Kaupfélag Eyfirðinga og Kaupfélag Svalbarðsstrandar. Það má vel vera að sú skoðun kunni að vera uppi að heppilegra sé fyrir bændur í Fnjóskadal að sækja dýralækni til Húsavíkur og apótek til Akureyrar. En ég held að kjarni þessa máls sé vitaskuld sá, að við skiptingu dýralæknisumdæma eigi að kosta kapps um að vegalengdir séu sem stystar frá dvalarstað dýralæknisins til bóndabýlisins. Við vitum það, eftir að Víkurskarðsvegur er kominn að allar leiðir úr Hálshreppi liggja til Akureyrar. Þó að við íhugum jafnvel að um vetrartímann sé Víkurskarð kannske til trafala, þá er ég í engum vafa um að í verstu stórhríðum verður greiðfærara um Víkurskarð en um Ljósavatnsskarð. Þannig eru hvorki veðurfræðileg rök, landfræðileg rök né neitt því líkt sem veldur þessu.

En hvað er það þá sem veldur þessu? Það, sem veldur þessum tillögum í frv., er að sú er hugmynd þeirra, sem sömdu þetta frv. og lögðu á ráðin, að annar dýralæknirinn, einungis einn dýralæknir, skuli áfram sitja á Húsavík, en sú er hugmynd dýralæknisins á Húsavík og margra bænda í Suður-Þingeyjarsýslu að hagkvæmara sé að báðir dýralæknarnir sitji á Húsavík, Húsavík sé slíkur miðpunktur í Þingeyjarsýslum að þetta sé eðlilegt. Það eru höfuðrökin. Ef við hugsum hvernig samgönguleiðir og samgönguæðar eru þar byggðar upp og ef við höfum jafnframt hliðsjón af því, hvar apótekin eru, og ef við höfum hliðsjón af því, hvar samgönguæðarnar liggja, þá sjáum við að auðvitað er eðlilegra að báðir dýralæknarnir í Þingeyjarþingsumdæmunum sitji á Húsavík, alveg með sama hætti og við teljum eðlilegt að báðir dýralæknarnir í Eyjafjarðarumdæmunum sitji á Akureyri. Auðvitað má hugsa sé að annar dýralæknirinn sitji á Möðruvöllum í Hörgárdal og hinn á Möðruvöllum frammi. Þetta eru gömul höfðingjasetur. Við getum jafnvel látið okkur detta Munkaþverá í hug af því að þar var klaustur. En í nútímabúskap eru við ekki að velta því fyrir okkur. Við erum að velta því fyrir okkur, hvernig við getum í sambandi við þessa þjónustu eins og aðra veitt hana með bestum hætti, þannig að bæði þeir menn, sem eiga að vinna verkið, og þeir menn, sem eiga að njóta þjónustunnar, fái sem mest fyrir sem minnsta peninga og minnsta fyrirhöfn. Það er kjarni málsins.

Ég verð því að mælast til þess, úr því sem komið er, að þingnefndin geri rækilega könnun á því, hver sé vilji manna fyrir norðan og hvernig þessi mál standi. Ég held að það sé óhjákvæmilegt. Auðvitað hefði verið besti kosturinn að reyna að fara þá leið sem héraðsdýralæknirinn lagði til.

Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. landbrh. að því, svo það fari ekki milli mála varðandi það sem er lagt til í 5. gr., að landbrh. skuli ákveða hvar héraðsdýralæknir skuli hafa aðsetur og starfsaðstöðu, hvað hann hugsi sér í sambandi við dýralæknana í Suður-Þingeyjarsýslu, hvort hann hugsi sér að báðir dýralæknarnir sitji á Húsavík, eins og eðlilegast er, eins og ódýrast er fyrir ríkissjóð, ef það skiptir máli, og heppilegast er fyrir bændur, eða hvort hann hefur einhverjar aðrar hugmyndir uppi. Það hefur stundum komið fyrir að afturhaldssemi varðandi staðsetningu lækna og dýralækna hefur dregið úr góðri þjónustu. Ég get t. d. rifjað upp þá gömlu þráhyggju að héraðslæknir skuli sitja á Breiðumýri, sem var aldrei nema orðin tóm svo árum skipti, en af einhverri afturhaldssemi varð að halda við læknishéraði með þessu nafni. Þótt héraðslæknirinn sæti á Húsavík varð annað að standa í lögum. Ég vil aðeins rifja þetta upp. — Og svo þetta: Ef menn vilja endilega halda sig við nafnið Eyfirðingur og Þingeyingur eru þeir nákvæmlega jafnmiklir Þingeyingar í Svalbarðshreppi og Grýtubakkahreppi og þeir eru í Hálshreppi.