27.01.1982
Neðri deild: 34. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim þm. sem hafa tekið til máls um þetta frv., jafnt þeim sem hafa lýst fylgi sínu við það og hinum sem hafa ýmsar athugasemdir við það að gera, því að ég vænti þess að sjálfsögðu, að hafi menn athugasemdir að gera við þá leið, sem hér er lögð til, og hafi menn vilja til að reyna að bæta úr því misrétti, sem hér hefur átt sér stað, komi menn a. m. k. sem athugasemdirnar gera, með einhverja hugmynd um hvernig hægt er að leysa þann vanda sem við er að fást. Alþingi leysti hann fyrir nokkrum árum með því að leggja á 1.5% söluskatt til viðbótar, en þá lausn hefur núv. ríkisstjórnarmeirihluti nú eyðilagt, eins og margfaldlega hefur komið fram, því að bróðurpartinn af því fé, 160 millj. af 190 millj. samtals, hefur ríkisstjórnarmeirihlutinn lekið til annarra þarfa en þeirra að jafna þennan mikla mismun á lífskjörum almennings. Stendur þá væntanlega upp á þá stjórnarsinna, sem bera hagsmuni fólksins úti á landsbyggðinni sérstaklega fyrir brjósti,í fyrsta lagi að gera grein fyrir því, hvernig á því stendur að þeir telja nú réttmætt að taka orkujöfnunargjaldið og eyða því með þessum hætti, skilja aðeins eftir brot af því gjaldi til ráðstöfunar eins og því var upphaflega ætlað að vera, og í annan stað hvaða hugmynd þessir menn hafa, fyrst þeir hafa fallist á þetta, til að leysa vandann og eyða því misrétti sem hér á sér stað.

Eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði í ræðu sinni áðan er það nefnilega engin lausn að benda á það, sem rétt er, að það sé smátt og smátt verið að útrýma erlendum orkugjöfum með framkvæmdum í húshitunarmálum landsmanna. Það er að vísu alveg laukrétt, en það hefur eitt út af fyrir sig alls ekki eytt þeim mikla mismun sem er á orkuverði í landinu. Hv. þm. Magnús H. Magnússon kom með mjög athyglisverðar upplýsingar áðan í ræðu sinni um þetta. Hann hefur gert nokkru frekari útreikninga sem ég held að séu athyglisverðir fyrir þm. Þar kemur það m. a. í ljós að rafhitun hjá RARIK er 5.57 sinnum dýrari en hitun á kyndingarsvæði Hitaveitu Reykjavíkur. Hv. þm. Magnús H. Magnússon nefndi dæmi um hitaveitu á Akranesi og í Borgarfirði. Á Suðureyri er upphitunin 4.86-falt dýrari og er þar þó hitaveita, á Egilsstöðum 4.26-falt dýrari, á Akureyri 3.74% dýrari o s. frv. Þetta leiðir auðvitað í ljós, að þó svo að mikið hafi verið gert til að útrýma erlendum orkugjöfum er mismunurinn á hitunarkostnaðinum mjög mikill eftir sem áður, og það er fráleitt að ætla að afsaka það atferli að hafa að vísu ekki tekið allt það fjármagn, sem samkomulag náðist um hér á Alþingi að afla í því skyni að jafna húshitunarkostnað, heldur meginhluta þess til annarra þarfa þegar ástandið er eins og hér hefur verið lýst.

Menn hafa það í hendi sinni, að a. m. k. á meðan núv. þingmeirihluti ræður ferðinni verður ekki orkujöfnunargjaldið, sem er 190 millj. á ári, notað til þeirra þarfa sem ákveðið var á Alþingi þegar gjaldið var lagt á að ætti að nota það til, heldur er núv. þingmeirihluti staðráðinn í að taka bróðurpartinn af þessu fjármagni í almenn útgjöld hjá ríkissjóði. Því verður væntanlega ekki breytt á meðan núv. þingmeirihluti ræður ríkjum. En eftir er þá að fá að vita hjá þessum heiðursmönnum hvaða tillögur þeir hafi þá að gera í málinu eða hvort þeir ætla að láta við það sitja að segja að vandinn sé út af fyrir sig leystur þar sem 85% af landsmönnum njóti nú innlendra orkugjafa til upphitunar á húsnæði sínu, þó svo að þessir sömu landsmenn þurfi að borga þrefalt og upp í fimmfalt hærra verð fyrir þessa orku en viðgengst hér á Reykjavíkursvæðinu.

Vissulega er það rétt, að sú leið, sem bent er á í því frv. sem hér er til umr., leysir ekki allan vanda, en bent er þó á leið sem fær er í þessu sambandi. Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að benda mönnum á að hún gerir aðeins ráð fyrir að komið sé á jafnrétti milli heimila annars vegar og fyrirtækja hins vegar sem búa við þetta háa orkuverð. Fyrirtækjum úti á landsbyggðinni, sem þurfa að borga margfalt orkuverð á við fyrirtæki í Reykjavík, er heimilt að draga þann orkukostnað frá tekjum sínum í framtali sínu til skatts. Heimilin mega það ekki. Fyrirtækjunum er heimilað að draga greiðslurnar frá skattgjöldum sínum en einstaklingunum ekki. Sé réttlátt að fyrirtækjum sé heimilað slíkt, hvers vegna ætti þá heimilunum ekki að vera heimilað nákvæmlega það sama þegar um er að ræða málefni sem ræður jafnmiklu um kjör allra launþega og hér er vikið að? Með því að samþykkja þetta frv. er því aðeins verið að gera heimilin úti á landsbyggðinni jafnrétthá, veita þeim sama rétt og fyrirtækin úti á landsbyggðinni njóta þegar.

Í öðru lagi er með þessari tillögu reynt að forðast að landsmönnum verði skipt í tvo hópa, dregin verði einhver markalína, sem aldrei verður hægt að draga, um hverjir megi njóta þeirrar fyrirgreiðslu, sem reynt er að veita til að jafna orkuverð, og hverjir ekki. Það verður ákaflega erfitt að draga þá markalínu. Það er ekki hægt að draga markalínuna t. d. þannig, að þeir einir, sem kyndi með olíu, eigi að fá einhverja aðstoð, aðrir ekki. Eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon hefur þegar leitt í ljós eru mjög víða innlendir orkugjafar, sem fólk notar, upp undir það eins dýrir og olíunotkun. Það er fráleitt að skilja þetta fólk eftir ef á að reyna að eyða þessari mismunun.

Ekki heldur er einhlítt að draga markalínuna eftir búsetu, vegna þess að jafnvel þar verður hægt að benda á einstök dæmi þar sem ekki væri tekið tillit til eðlilegs jafnréttis á milli fólks hvað þetta varðar. Auk þess er það ávallt mjög erfitt og umdeilanlegt þegar verið er að skipta landsmönnum í tvennt, Reykvíkinga og aðra. Menn eiga að reyna að leita leiða sem draga úr misrétti og auka jöfnuð, en þó þannig að landsmenn fái ekki tilfinningu fyrir því, að það sé verið að skipta þeim í tvo slíka hópa.

Kosturinn við þá leið, sem hér er lögð til, er einmitt sá, að með henni þarf ekki að skipta landsmönnum í tvo hópa, þarf ekkí að draga þessa vandmeðförnu markalínu. Öllum landsmönnum er heimilt að draga kostnað við orkunotkun á heimilum sínum frá í framtölum sínum, frá tekjum sínum til skatts, en þeim mun meiri gjöld sem menn verða að greiða í því sambandi, þeim mun meiri frádrátt fá menn. Öllum er þó samkv. tillögunni heimilt að beita þessum frádrætti, jafnt þeim sem hér í Reykjavík búa sem hinum sem búa úti á landi, jafnt þeim sem njóta hitaveitu sem hinum sem þurfa að kynda hús sín með olíu, fjarvarmaveitu eða rafmagni.

Þetta skapar ekki heldur vanda um hvernig eigi að skipta greiðslum sem eru til þess gerðar að eyða misrétti. Það vandamál hefur raunverulega aldrei verið leyst. Sú aðferð, sem notuð hefur verið til að greiða olíustyrk, þar sem olíustyrkurinn hefur raunar verið gerður að nokkurs konar fjölskyldubótum, hefur verið mjög gagnrýnd og menn hafa ekki komið auga á neina lausn á því vandasama máli hvernig eigi að skipta slíkum greiðslum réttlátlega svo þær komi jafnt til allra. Kosturinn við þá leið, sem lögð er til í frv., er einmitt einnig sá, að þessu vandamáli er eytt. Þarna er ekki um að ræða vandamál um hvernig eigi að skipta slíkri fjárhæð sem notuð yrði með einum eða öðrum hætti til að jafna orkuverð á milli einstaklinga.

Hv. þm. Magnús H. Magnússon hefur bent á það nú þegar, hvernig með lítilvægri viðbót við þetta frv. væri hægt að eyða þeim eina ágalla sem menn hafa bent á að á því sé, sem sé þeim ágalla að skattfrádráttur nýtist ekki fólki sem hefur svo lágar tekjur að það borgar hvort eð er enga skatta, m. ö. o.: sú leið, sem hér er lögð til, gagnist ekki gömlu fólki og tekjulágu fólki sem búi við mikinn húshitunarkostnað. Þetta er einfaldlega hægt að laga með því, eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon benti á, að fallast á þá till. okkar Alþfl.-manna frá því í fyrra að heimila að ónýttur persónuafsláttur komi til borgunar, að heimila að beita skattakerfinu sem nokkurs konar samblandi af fjölskyldubótakerfi og skattkerfi og gera tekjuskattinn ekki aðeins jákvæðan í þeim skilningi að fólk þurfi að greiða tekjuskatt, heldur einnig neikvæðan í þeim skilningi, að fólk, sem ekki hefur nægar tekjur til að bera skatt, fái út úr skattakerfinu greiddan mismun á ónýttum persónuafslætti og þeim frádrætti sem heimilaður er, en kemur því ekki að notum.

Það, sem athyglisverðast er þó í þeim upplýsingum sem hv. þm. Magnús H. Magnússon hefur saman tekið og greindi frá að nokkru áðan, er það, hversu ranga mynd framfærsluvísitalan gefur af raunverulegum hitunarkostnaði og orkukostnaði heimila. Það er t. d. alveg fráleitt, eins og hann benti á, að menn geti samþykkt það, og alveg furðulegt að verkalýðshreyfingin skuli engar skoðanir hafa á því, að orkukostnaður heimila sé aðeins metinn um það bil 2% af heildarútgjöldum íslenskra launþegaheimila, en það er það sem framfærsluvísitalan segir að eigi við jafnt um heimili í Reykjavíkurborg og úti á landi. Og það er jafnfráleitt að menn skuli fallast á það með þögninni að orkukostnaður hafi aðeins hækkað frá árinu 1968 um óverulegt brot af því sem almennur framfærslukostnaður hefur hækkað á sama tíma. Þetta sýnir það eitt, hversu verkalýðshreyfingin er í rauninni áhugalítil um jafnvandasöm mál og gerð framfærsluvísitölu, hvað menn eru í rauninni áhugalitlir um að sú vísitala, sem á að mæla raunverulegan framfærslukostnað á Íslandi, sé eiginlega til annarra nota en fyrir ríkisstj. til að koma í veg fyrir að verðhækkanir, sem orðið hafa og m. a. fyrir hennar tilverknað, skili sér í hækkuðu kaupgjaldi til launafólks.

Hv. þm. Alexander Stefánsson talaði um það alveg réttilega, að auðvitað væri fráleitt að framfærsluvísitalan væri þannig upp byggð að hún tæki ekkert tillit til þeirra staðreynda sem hér hefur verið drepið á. Aðferðin til að bæta úr því er að sjálfsögðu ekki, eins og hann lagði til, að taka orkuna út úr vísitölunni. Til hvers er framfærsluvísitala? Framfærsluvísitala er til að mæla raunverulegar breytingar á framfærslukostnaði í þjóðfélaginu, og það er auðvitað fráleitt að komast að þeirri niðurstöðu, að orkukostnaður heimila eigi ekki að mælast í framfærsluvísitölu, m. ö. o. að komast að þeirri niðurstöðu, að orkuverð í landinu eigi engu máli að skipta í sambandi við útreikninga á framfærslukostnaði heimila og fjölskyldna. Það er auðvitað gersamlega út í hött. Menn mega alls ekki í þessu sambandi rugla saman annars vegar framfærsluvísitölu, sem á að mæla framfærslukostnað í landinu, og hins vegar þeirri vísitölu sem aðilar vinnumarkaðarins semja um sín á milli að nota eigi til að tryggja greiðslur verðbóta á laun. Framfærsluvísitala verður að mæla eins nákvæmlega og kostur er þær raunverulegu breytingar sem eiga sér stað á framfærslukostnaði. Menn, sem hafa áhuga á þeirri vísitölu í öðrum tilgangi en þeim að beita henni til að koma í veg fyrir að launafólk fái umsamdar kauphækkanir, eiga auðvitað að lýsa áhuga sínum á því, að þær breytingar séu gerðar á framfærsluvísitölunni sem séu þess eðlis, að hún mæli sem réttast breytingar á framfærslukostnaði í landinu. Það verður auðvitað ekki gert með því að taka jafnmikilvægt atriði og orkukostnað heimila út úr framfærsluvísitölu og láta eins og hann skipti ekki nokkru máli um afkomu heimilanna. Vissulega er framfærsluvísitalan röng eins og orkukostnaðarþátturinn er byggður upp í þeirri vísitölu, en það væri að fara úr öskunni í eldinn að taka orkuna gersamlega út, þannig að það mundi engu máli skipta fyrir þær mælingar, sem framkvæmdar eru á útgjöldum íslenskra heimila og á kostnaði við að framfleyta heimilum í þessu landi, að hafa orkuverðið ákveðið. Þetta er svo barnalegt að það er furðulegt að jafngreindur maður og hv. 1. þm. Vesturl. skuli halda þessu fram. Ég á frekar von á því, að þegar hann ræddi um þetta áðan hafi hann raunverulega verið að ræða um verðbótavísitöluna en ekki framfærsluvísitöluna, en hv. þm. ætti þá að taka það fram til þess að menn áttuðu sig á hvað hann væri að fara. Það er ekki annað veifið hægt að tala í sömu ræðunni um framfærsluvísitölu og hitt veifið um verðbótavísitölu án þess að gera neinn greinarmun þar á milli.

Menn geta samið um hvaða þátt í raunverulegri framfærsluvísitölu menn nota til að mæla verðbætur á laun. Það er hægt að hugsa sér hundrað útgáfur af því, t. d. að menn tækju aðeins tillit til þeirra þátta í framfærsluvísitölunni sem mældu innlent verð á þjónustu eða eitthvað slíkt. Það er samkomulagsatriði á milli launþega og ríkisvalds. Það atriði, sem við alþm. eigum fyrst og fremst að hafa afskipti af, er að reyna að ganga svo frá hnútunum að sú framfærsluvísitala, sem reiknuð er, mæli raunverulegan framfærslukostnað. En menn hafa engan áhuga á því. Menn hafa mestan áhuga á að leika sér með þessa framfærsluvísitölu til þess að hún gagnist ríkisstj. sem best til að koma í veg fyrir að launafólk fái verðbætur á laun. Og að hugsa sér að það skuli vera hægt að leika sér með þær verðbætur eins og menn hafa verið að ræða í þessari hæstv. ríkisstj. Það er alveg furðulegt.

Við skulum taka eitt lítið dæmi til að reyna að skýra þetta út fyrir mönnum. Eitt stig í framfærsluvísitölu kostar, ef miðað er við söluskatt, um 260 millj. kr. Það kostar um 260 millj. kr. ef menn ætla að greiða framfærsluvísitöluna niður um eitt stig með því að lækka söluskatt eða, ef við snúum dæminu við, það má leggja á 260 millj. kr. hærri söluskatt til þess að framfærsluvísitalan hækki um eitt stig. En ef menn líta svo á landbúnaðarvörur, sem ávallt eru notaðar til að koma í veg fyrir að launafólk fái umsamdar kjarabætur, kostar hvert vísitölustig þar ekki nema 65 millj. kr. M. ö. o. er hægt að hækka söluskatt um 260 millj. kr. og fá þar hækkun um eitt vísitölustig á framfærsluvísitölunni og nota svo þessa peninga alla saman, þessar 260 millj. kr., til að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum og lækka þar með vísitöluna um tæplega 4 stig. Útkoman væri sú, að með þessari tilfærslu á sömu krónunum hefði það verið ígildi um það bil 3% kauphækkunar til almennings, þessi hækkun söluskatts um 260 millj. kr., og þeir peningar síðan notaðir til að hækka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum og gera ekkert meira. Þá eru menn hreinlega búnir að eyða um það bil 3 vísitölustigum í kaupgjaldi fyrir launafólkið. Hverjum skyldu hafa dottið þetta í hug í ríkisstj.? Það voru ekki framsóknarmenn. Nei, það var Alþb. Því datt í hug að nota nú tækifærið og auka niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum til að koma í veg fyrir að launafólk fengi launabætur og afla fjár til þess með hækkuðum söluskatti, vegna þess að fyrir hvert eitt vísitölustig, sem framfærsluvísitalan hækkar um ef söluskattur er hækkaður, er hægt að lækka þessa sömu vísitölu þrefalt ef peningarnir eru notaðir í niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum. Síðan standa menn upp og segja: Við eigum að skipta á vísitölubótum og kaupmætti. Það mundi sem sé auka kaupmátt launatekna um 3% að hækka söluskattinn um 260 millj. og nota peningana í niðurgreiðslu. Síðan segja menn: Menn geta notað þetta til að lækka verðbætur úr 10% í 7 og ef við gerum þetta skulum við skipta á sléttu. Við skiptum á sléttu, segir Alþb. M. ö. o: hæstv. ríkisstj. er að ræða um að það mundi hafa verið nægilegt að hækka söluskattinn um ca. 1/2% til að greiða vísitöluna niður um ca. 3 stig. Síðan mundi Alþb. segja: Það verður að skipta á sléttu, eiga slétt skipti, skipta á kaupmætti og verðbótum.

Framfærsluvísitala, sem er orðin þannig úr garði gerð eins og ég hef verið að lýsa hér, er auðvitað ekki lengur neinn mælikvarði á raunverulegan framfærslukostnað í landinu. Þetta er orðin hrein skrípamynd af slíkum mælikvarða sem fyrst og fremst er settur upp til þess að ríkisstj. geti möndlað með niðurgreiðslur með þeim hætti sem núv. ríkisstj. er að áforma að gera og ýmsar ríkisstj. á undan henni hafa stundað, þ. e. að hækka söluskatt og fá þar tiltekna peninga og nota þá peninga í niðurgreiðslur og geta síðan sætt fólkið við það: Þessi tilflutningur á peningum úr einum vasanum í annan orsakar stórkostlegar kjarabætur fyrir ykkur. Við höfum skipt á sléttu.

Þetta er það, herra forseti, sem núv. ríkisstj. hefur mestan áhuga á í sambandi við vísitöluna, og það, sem hv. 1. þm. Vesturl. var að segja og leggja til, er raunverulega ekkert annað en að taka orkuverðið gjörsamlega út úr framfærsluvísitölunni, svo sé allt í lagi hvaða orkuverð sé í landinu, hvað það yrði hækkað, það mældist ekki í framfærsluvísitölunni sem útgjaldaaukning fyrir fólkið í landinu. Það er tillagan. Það er talin vera mjög snjöll lausn í þessum herbúðum sem nú eru um það bil að undirbúa sig að athenda okkur stjórnarandstæðingum „þorrabakkann“, eins og ýmsir menn kalla þann ágæta pakka ríkisstj. sem hún er búin að hafa í súr hjá sér síðan einhvern tíma löngu fyrir jól.

Auðvitað á að reisa framfærsluvísitöluna, ég geri enn glöggan greinarmun á framfærsluvísitölu annars vegar og verðbótavísitölu hins vegar, á umfangsmiklum neyslukönnunum sem gerðar eru af til þess bærum aðilum, þar sem tekið er tillit til ekki bara raunverulegs framfærslukostnaðar á einhverjum einum afmörkuðum stað, heldur til framfærslukostnaðar víðs vegar á landinu. Sú framfærsluvísitala á að vera þannig úr garði gerð, að ekki sé hægt að nota hana eins og núv. ríkisstj. gerir, hún sé ekki svo vitlaus að það sé hægt að leggja á menn skatt til að afla fjár til að greiða einhverjar vörur niður í vísitölunni um sömu fjárupphæð og vísitölumælingarnar sýni út úr þessu stórkostlegar kjarabætur. Auðvitað á slík vísitala ekki að vera þannig gerð.

Ég verð að segja eins og er, að það er alveg fráleitt að það skuli vera samningsatriði milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj., eins og virðist vera og eins og virðist vera áætlunin að viðhalda núna, að þessir aðilar geti tekið upp viðræður sín á milli um hvort neyslukönnun, sem Hagstofa Íslands hefur gert hjá tugum fjölskyldna um allt land til að reikna út raunverulegan framfærslukostnað á landinu, sé marktæk eða ekki. Þessi neyslukönnun er sérfræðileg úttekt Hagstofu Íslands á því, hver er raunverulegur framfærslukostnaður í landinu. Og nú hyggst ríkisstj. taka upp viðræður við verkalýðshreyfinguna og fara og semja við hana og aðila vinnumarkaðarins um breytingar á þessari niðurstöðu, t. d. um að það sé ekkert að marka hvað þessi neyslukönnun segi um hvernig fólk skipti neyslu t. d. matvæla á ýmsar tegundir. Það sé t. d. algjörlega rangt að fólk borði svona mikið af nautakjöti eða kjúklingum, fólk éti bara súpukjöt, það sé ekkert að marka niðurstöður neyslukannana sem bendi í aðra átt. Og það á ekkert tillit að taka til þess t. d., að fólk á Íslandi sé farið að fara miklu almennar en áður gerðist til útlanda. Það á ekkert að vera að marka slíkar niðurstöður. Það á bara að semja um, að fólk á Íslandi geri ekki slíkt, og byggja framfærsluvísitöluna á því. Og það er ekkert að marka niðurstöður slíkrar neyslukönnunar um hvað fólk borgi raunverulega í húshitunarkostnað, þetta geti ekki verið rétt, það eigi að taka upp samninga við aðila vinnumarkaðarins um að breyta þessu.

Kannske, herra forseti, það sé ekkert að marka það að fjölmargir Íslendingar éti hrossakjöt, það eigi að taka upp samningaviðræður milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarms um að Íslendingar geri ekki slíkt, þeir borði bara súpukjöt og drekki mjólk og éti smjör, til þess að hægt sé áfram að leika sér að því að leggja á söluskatt upp á 260 millj. og nota þá peninga síðan til að greiða niður súpukjöt, kartöflur og smjör og fá út úr því stórkostlegar kjarabætur. Þetta á að gera. Þar sem ég hef ekki enn þá fengið „þorrabakka“ ríkisstj. í hendur held ég að ég brjóti engan trúnað þó að ég skýri frá því, að mér er ekki kunnugt um annað en að þetta sé ein af tillögunum sem þar eru gerðar, að ríkisstj. hyggist taka upp viðræður við verkalýðshreyfinguna um nýjan vísitölugrundvöll í vor, en ekki bara verkalýðshreyfinguna heldur vinnuveitendur líka. Viðræður um hvað? Neyslukönnunin hefur legið fyrir um margra mánaða skeið. Um hvað eiga viðræðurnar að vera? Viðræðurnar eiga að vera samningaviðræður um að breyta þessari neyslukönnun, taka ekkert mark á henni, leggja hana til hliðar og síðan fara menn að möndla með það, ríkisstj. annars vegar og aðilar vinnumarkaðarins hins vegar, að búa sjálfir til neyslugrundvöll sem á ekki við nein rök að styðjast og ekki er ætlunin að nota til neins annars en þess sem ég var að lýsa áðan. Og hverjir skyldu nú vera fremstir í flokki hvað varðar þetta? Hverjum skyldi — ég tek eftir því að formaður fjvn. situr í hliðarherbergi — hafa dottið það í hug? Ég spyr aftur: Hverjum skyldi hafa dottið í hug að nota nú þessa röngu framfærsluvísitölu, sem við búum við í landinu, til þess snjallræðis að hækka nú söluskatt og nota peningana, sem úr því fást, til að greiða niður verð á kjöti, smjöri og kartöflum og segja síðan við launþega: Það er stórkostleg kjarabót í þessu fólgin og við skiptum á sléttu. Þetta var hugmynd þess Alþb. Auðvitað dettur Alþb. það snjallræði í hug að fara nú að semja við sjálft sig í verkalýðshreyfingunni um að taka ekkert mark á vísitölugrundvellinum sem neyslukönnun Hagstofunnar leiddi í ljós, að taka upp viðræður við sjálft sig í verkalýðssamtökunum um það, af því að þeir sitja nú í ráðherrastólunum: Svavar, Ragnar og Hjörleifur. Haldið það að verkalýðshreyfingin og Alþb.-mennirnir þar semji ekki? — Ég reikna með að þeir finnist núna þegar atvinnuleysisvandinn er leystur. Það hefur enginn fundið þá á meðan milli 6 og 12 þús. manns í landinu voru atvinnulausir. Þá voru þessir menn ekki til. Það heyrði enginn í Ásmundi. Þá varð enginn var við Björn Þórhallsson. Nú hljóta þeir að koma í ljós senn hvað líður, gefa sig fram væntanlega á miðsvetrarfundi hjá Alþb. Og haldið þið að þið gerið það nú ekki fyrir Alþb.-mennina, svo þeir geti setið svolítið lengur, að semja við þá um að breyta niðurstöðu neyslukönnunar Hagstofunnar og koma á fót nýjum neyslugrundvelli, sem á ekki við rök að styðjast önnur en pólitískar þarfir Alþb. þá og þá, til þess að ríkisstj. geti nú tekið upp og haldið áfram þeim skollaleik sem hún er að búa sig undir að beita enn einu sinni nú um þessi mánaðamót?