28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

354. mál, efnahagsmál

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góður hlustendur. Við höfum hlýtt á Friðrik Sophusson, nýkjörinn varaformann Sjálfstfl., útskýra athugasemdir sínar við efnahagsáætlun ríkisstj. fyrir hönd þess hluta Sjálfstfl. sem ekki styður ríkisstj. Það var hins vegar furðulega fátt að finna í þessari ræðu um tillögur Sjálfstfl. í efnahagsmálum. Þeir segjast þó vilja draga úr verðbólgu og það er ekki nýtt í íslenskum stjórnmálum. Við skulum líta nánar á málflutning stjórnarandstæðinga undanfarna mánuði hvað verðbólguna varðar.

Þeim hefur orðið tíðrætt um lélega afkomu atvinnuvega, og engum hefur dulist að þeim finnast heldur dauflegar gengisbreytingarnar í tíð núv. ríkisstj. Það er alveg rétt, að þegar Geir Hallgrímsson var forsrh. voru gengisfellingar miklu myndarlegri og hressilegri. En skyldi verðbólgan verða minni með meiri gengisfellingum? Svari hver sem vilt.

Stjórnarandstaðan hefur fjölyrt um það seinustu vikurnar, og að því ýjaði Friðrik Sophusson rétt áðan, að hækkanir á rafmagnsverði og töxtum hitaveitna væru allt of litlar. Þó hefur Hitaveita Reykjavíkur fengið 131% hækkun á sínum töxtum seinustu tvö árin og Rafmagnsveita Reykjavíkur 122% hækkun. Skyldi ekki verðbólgan minnka með meiri hækkunum á rafmagni og hita?

Varaformaður Sjálfstfl., Friðrik Sophusson, talaði áðan í umvöndunartón um auknar niðurgreiðslur á landbúnaðarverði eins og það væri hálfgert myrkraverk að lækka framfærslukostnað heimilanna — úrræði sem flestar fyrri ríkisstjórnirnar hafa gripið til sem betur fer. Skyldi verðbólgan minnka ef niðurgreiðslur yrðu afnumdar?

Talsmenn Sjálfstfl. hafa talað um það í tíma og ótíma, að innflytjendur og söluaðilar yrðu að hafa algert frjálsræði um ákvörðun álagningar og töku umboðslauna. Skyldi verðbólgan minnka við þá ráðstöfun?

Þeir hafa mikið talað um nauðsyn þess að stórlækka skatta, án þess þó að þeir hafi bent á sama tíma á ákveðnar leiðir til að minnka útgjöld ríkisins. Þeir vilja sem sagt fá aftur það ástand þegar Seðlabankinn prentaði seðla fyrir Matthías Á. Mathiesen til að halda ríkissjóði gangandi. En skyldi verðbólgan minnka við það?

Morgunblaðið hefur verið sérstaklega hneykslað á því, að ríkisstj. skyldi auka innlendan sparnað með því að leita til lífeyrissjóða í vaxandi mæli til að draga úr erlendum lántökum. Í engu er tvöfeldni stjórnarandstöðunnar meiri en einmitt þegar kemur að þessari spurningu um erlendar lántökur. Þeir benda á að erlendar lántökur séu að verða nokkuð miklar, en á sama tíma boða þeir framkvæmdir í orku- og iðnaðarmálum sem yrðu þrisvar sinnum meiri og hraðari en nú eru fyrirhugaðar. Fé til þeirra framkvæmda yrði að sjálfsögðu allt fengið erlendis. Erlendar lántökur mundu því margfaldast.

Núv. ríkisstj. hefur takmarkað innstreymi erlends fjár eins og kostur er og t. d. hækkar lánsfjáráætlun þessa árs langtum minna en nemur verðbólguhækkun milli ára, m. a. til að ýta ekki undir verðbólgu. En hvað ætli yrði um verðbólguna ef stóriðjudraumar forustumanna Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksins ættu eftir að rætast?

Sannleikurinn er sá, að það stendur ekki steinn fyrir steini þegar litið er á málflutning stjórnarandstöðunnar út frá kröfunni um minnkandi verðbólgu. Allt þeirra tal er samfelld krafa um meira olnbogarými þeirra aðila í íslensku þjóðfélagi sem einhvers mega sín, samfelld bæn um meiri verðbólgu.

Mikil kreppa gengur nú yfir flest nálæg ríki, bæði austanhafs og vestan. Danir og Svíar hafa ekki kynnst öðru eins í áratugi. Atvinnuleysið hefur sjaldan verið meira í Bandaríkjunum og aldrei meira í Bretlandi. Margir hér á landi yppta öxlum og segja: Þetta er ekki okkar mál. Við Íslendingar erum blessunarlega lausir við þessa kreppu og verðum það áfram. En þetta er mikil glámskyggni. Íslenskt efnahagslíf er ekki eyland, einangrað frá efnahagslífi annarra landa. Útflutningsverð á afurðum okkar er nú með því lakasta sem verið hefur um langt skeið þegar miðað er við innflutningsverð. Það heitir á máli hagfræðinnar að viðskiptakjör séu í lágmarki. Áhrif kreppunnar í nálægum löndum flæða inn í landið á hverjum einasta degi og marka sín djúpu spor í efnahagslífið, sem m. a. lýsir sér í erfiðari afkomu atvinnuvega. Menn þurfa ekkert að velta því fyrir sér, hvort kreppa í nálægum löndum nái til Íslands. Hún er hér þegar, þótt í annarri mynd sé, og spurningin snýst um það eitt, hvort okkur tekst að bægja atvinnuleysinu, versta fylgifiski kreppunnar, frá dyrum okkar. Engin von er til þess, að unnt sé að vinna úrslitasigur í viðureign við verðbólgu við ríkjandi aðstæður og síst af öllu með skjótum hætti. Hins vegar getum við nálgast markið skref fyrir skref ef allir leggja nokkuð af mörkum, hver með sínum hætti.

Það var einmitt þetta sem tókst prýðilega á s. l. ári þegar verðbólguhraðinn lækkaði úr 60–70% og niður í 40–50%. Efnahagsaðgerðir liðins árs verða sígilt dæmi um vel heppnaða baráttu gegn verðbólgu sem skilaði árangri án atvinnuleysis og án rýrnandi lífskjara með samræmdu átaki margra aðila. Launafólk fórnaði nokkrum vísitölustigum og fékk þau vissulega endurgoldin með kaupmáttaraukningu, sem fylgir minnkandi verðbólgu, auk skattalækkana. Búvöruverð varð lægra. Fiskverð varð lægra. Atvinnuvegirnir fóru í langvarandi gengisbindindi. Við vorum sannarlega á réttri leið.

Seinustu mánuði hefur hins vegar slegið í bakseglin. Ytri aðstæður eru nú töluvert erfiðari en áður. Nýliðin átök um fiskverð hafa auk þess opinberað þjóðinni fremur en margt annað hvernig hraði verðbólgunnar spanast upp í alkunnum vítahring þegar verst gegnir. Flestum var ljóst að sjómenn áttu réttmæta kröfu um kjarabætur við s. l. áramót. Hins vegar voru engin rök til þess, að fiskverð til útgerðarmanna ætti að hækka í réttu hlutfalli við hlut sjómanna. Útgerðarkostnaður vex ekki í hlutfalli við launakjör í landi. Einnig var augljóst að sérstök aukahækkun fiskverðs til útgerðarmanna gæti ekki leitt til annars en meiri gengisfellingar í þágu frystihúsa, sem að sjálfsögðu táknar hærra vöruverð til almennings og þar með hærri verðbætur á laun, en síðan heldur snúningurinn áfram með nýrri hækkun fiskverðs. Vítahringur verðbólgunnar er alþekktur og gengisfellingar löngu orðnar það fíknilyf atvinnuveganna sem ekki er auðvelt að venja menn af.

Enginn heldur því fram, að aðgerðir ríkisstj., sem kynntar eru hér í kvöld, séu varanleg úrræði gegn verðbólgu. Í erfiðri styrjöld vinnst ekki sigur með einni sókn. Úrslitum ræður hvort menn hafa þolinmæði og þrautseigju til að skipuleggja nýjar aðgerðir, hvenær sem aðstæður krefjast, og gefist ekki upp þótt á móti blási. Það, sem gildir nú, er að snúast af fullu afli gegn bylgju vaxandi verðbólgu sem að okkur hefur sótt seinustu vikurnar. Sú leið er valin að þessu sinni að sneiða ofan af skafli verðbólgunnar með því að greiða niður vöruverð að jafngildi 6 vísitölustiga á fyrri hluta þessa árs, en það mun lækka verðbólgu á árinu öllu, þegar áhrif þessara aðgerða margfaldast saman, sem svarar til 10–15 prósentustiga.

Vissulega er þetta engin framtíðarlausn. Þetta eru einhliða aðgerðir ríkissjóðs sem duga til að andæfa meðan beðið er lags að hefja nýja stórsókn gegn verðbólgu með sameiginlegu átaki. En það er óneitanlega styrkleiki þessara aðgerða, að þær reyna ekki á þolinmæði verkalýðshreyfingar eða vinnuveitenda og skerða ekki gildandi kjarasamninga. Aðgerðir ríkisstj. til niðurfærslu verðlags eru m. a. þessar:

Í dag var lagt fram frv. um lækkun tolla á ýmsum tegundum nauðsynlegra heimilistækja, m. a. kæliskápum, frystikistum, þvottavélum, þurrkurum, uppþvottavélum, eldhúsviftum, hrærivélum, ryksugum og brauðristum. Tollarnir lækka úr 80% í 40%. Um þetta atriði spurði hv. þm. Friðrik Sophusson rétt áðan og virtist ekki hafa tekið eftir þskj. sem liggur á borðum þm.

Um næstu helgi lækkar einnig verð á mikilvægustu landbúnaðarvörum allverulega, m. a. á kartöflum, kindakjöti, smjöri og mjólk. Búvöruverð til bænda hækkar að vísu aftur 1. mars samkv. ákvörðun Verðlagsráðs landbúnaðarins, en hækkun til neytenda verður þá minni en ella hefði verið því niðurgreiðslur verða enn auknar 1. mars og aftur 1. maí og 1. jún. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af þessum aðgerðum nemi um 350 millj. kr. Þetta fé er fengið með þrennum hætti. Rúmlega helmingur þess, um 190 millj. kr., er fenginn úr fjárlögum ársins, þ. e. af tekjum sem ekki er þegar ráðstafað til annars, um þriðjungur, eða 120 mill j., er fenginn með sparnaði og auknu aðhaldi í ríkisrekstri, en 40 millj. kr. eru fengnar með sérstökum skatti á starfsemi banka og sparisjóða.

Að sjálfsögðu væru þessar aðgerðir óhugsandi með öllu ef ríkissjóður stæði ekki allvel um þessar mundir. Tvö undanfarin ár hefur ríkissjóður verið rekinn með nokkrum afgangi svo að skuldastaðan við Seðlabankann hefur gerbreyst til batnaðar og er nú svipuð og hún var í árslok 1977 í krónum talið, en síðan hefur verðlag raunar fimmfaldast. Í krafti þessarar gerbreyttu stöðu ríkissjóðs er unnt að beita fjármálum ríkisins af fullu afli í viðureigninni við verðbólguna án þess að hætta sé á hallarekstri. Samanlögð áhrif þessara aðgerða á nýbyrjuðu ári munu valda 10–15% lægri verðbólgu en ella hefði verið og er því ljóst að til mikils er að vinna fyrir alla aðila. Kaupmáttur launa verður meiri, staða atvinnuvega sterkari og allar fjárveitingar og framlög til verklegra framkvæmda nýtast mun betur en verið hefði án þessara aðgerða. Vissulega þarf að kosta því til að ríkið verður að taka á sig verulegan sparnað í útgjöldum, sem m. a. felst í 6% lækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda, en þrátt fyrir þessa almennu lækkun á framlögum verður framkvæmdagildi fjárveitinga talsvert miklu meira en yrði ef aukin verðbólga skæri allar fjárveitingar niður um 10–15%.

Stefnt er að því með margvíslegum hætti að draga úr rekstrarkostnaði ríkisstofnana. Öllum stofnunum verður gert að draga úr yfirvinnu samkv. ákveðnum reglum og takmarka utanferðir opinberra starfsmanna eins og kostur er. Verður þess krafist, að menn geri fullnægjandi grein fyrir löngum og tíðum ferðum til annarra landa á kostnað ríkisins, en eftirlit með slíkum útgjöldum hefur ekki verið nægilegt. Lækkun ríkisútgjalda mun skiptast til helminga á rekstrarframlög og verklegar framkvæmdir. Auk þessara ráðstafana til niðurfærslu verðlags verður nokkur tilfærsla á óbeinum sköttum, sem einkum er til hagræðis fyrir fiskiðnað og framleiðsluiðnað, með lækkun stimpilgjalda á afurðalánum og lækkun launaskatts um 1% hjá þessum atvinnugreinum, en tekna er aflað á móti með sérstöku tollafgreiðslugjaldi. Þessi tilfærsla er ekki veruleg, en léttir þó undir með þessum atvinnugreinum.

Afleitar ytri aðstæður, sem ég áðan nefndi, lágt verð á afurðum og aflabrestur á loðnuveiðum, verða þess valdandi að þjóðartekjur aukast ekki á þessu ári og dragast jafnvel saman. Við þvílíkar aðstæður er ekki aðeins á brattann að sækja í verðbólgumálum. Lítil von er til þess, meðan þannig er ástatt, að kaupmáttur launa fari vaxandi eða almenn neysla þjóðarinnar aukist. Meðan kreppan varir í þessum heimshluta er mikið fengið ef okkur tekst að halda í horfinu og andæfa án þess að atvinnuleysi skelli yfir eða lífskjör skerðist. En við getum margt gert til að undirbúa nýja sókn til bættra lífskjara. Gagnger endurskipulagning og hagræðing í íslensku atvinnulífi er og verður forsenda þess, að unnt sé að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar.

Það er sorglegur misskilningur þegar menn ímynda sér að verðbólgan hyrfi úr sögunni ef hætt yrði að greiða verðbætur á laun. Verkalýðshreyfingin er áreiðanlega tilbúin að taka þátt í efnahagslegu uppgjöri þar sem saman færu minni verðhækkanir, minni hækkun fiskverðs og búvöruverðs, minni gengisfellingar, en verðbætur á laun yrðu að sama skapi lægri. Vafalaust er unnt með skipulögðu átaki að strika hækkunartilefnin út og stöðva hækkanir sem gengju þá hver upp á móti annarri. Með sameiginlegu uppgjöri margra hagsmunaaðila mætti þannig ná verulegum áfanga í átt að lægra verðbólgustigi. En vísitölubætur launþega einar sér eru ekkert aðalatriði málsins.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að um leið og verðbólga er hér meiri en í nokkru nálægu landi hefur það lengi verið séreinkenni á íslensku efnahagslífi að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi með endurteknum gengisfellingum. Þetta er gert til að halda fyrirtækjunum uppi og forðast atvinnuleysi. Öll setjum við atvinnuöryggi og stöðuga framleiðslu ofar öðru. En því verður ekki neitað, að þessi látlausi þrýstingur atvinnurekstrarins á gengi krónunnar, oft með býsna óábyrgum hætti, er ein helsta undirrót mikillar verðbólgu hér á landi. Með endurskipulagningu og stóraukinni hagræðingu verður að létta þessum þrýstingi af og gera atvinnureksturinn ábyrgari eða m. ö. o., svo að ég noti þá líkingu sem ég hef þegar notað, að venja atvinnureksturinn af deyfilyfi sífelldra gengisfellinga.

Takmörkun á afla og úthaldi fiskiskipa og vaxandi hömlur á innflutningi skipa kalla jafnframt á nýja fiskveiðistefnu. Svo að dæmi sé nefnt er augljóst að byggðarlög, sem eiga allt sitt undir útgerð og fiskvinnslu, geta aldrei sætt sig við það ástand að missa þau skip af staðnum, t. d. í annan landshluta, standi menn uppi aflalausir og atvinnulausir og megi ekki útvega sér annað skip. Breytt viðhorf í fiskveiðimálum knýja sem sagt á það, ef fiskveiðiflotinn á ekki að stækka ár frá ári, að löndun og dreifing aflans sé endurskipulögð og stóraukin samvinna verði tekin upp á þessu sviði undir forustu stjórnvalda.

Sama má raunar segja um fjöldamargt annað í íslensku atvinnulífi, m. a. um innkaup og innflutning á helstu nauðsynjavörum landsmanna. Óhagstæð innkaup á erlendum vörum og hlutfallslega dýrt og óhagkvæmt innflutningskerfi hafa vafalaust lagt sinn mikla skerf til verðbólgunnar hér á landi.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Þessar umr. eru ætlaðar til að varpa ljósi á efnahagsaðgerðir ríkisstj. Margir munu nefna þessar ákvarðanir skammtímaaðgerðir. Það er hárrétt, þær eru það. Þegar skipstjórinn snýr stýrinu nokkrar gráður á stjórnborða til að forðast grynningar er það sannkölluð skammtímaaðgerð og þó er hún jafnnauðsynleg þar fyrir. En vafalaust þarf skipstjórinn að snúa stýrinu aftur að nokkrum tíma liðnum. Það er eðli allrar stjórnar. Hitt látum við í léttu rúmi liggja, þótt Friðrik Sophusson, sem talaði hér áðan, stýrimaður á gömlum kútter sem alvarlegur leki hefur komist að vegna innbyrðis illdeilna skipverja, standi fyrir nokkrum hrópum og skjóti fram haldlitlum fullyrðingum. Fleyta hans hefur oft steytt á skeri einmitt af því að ekki var tekið í stýrið þegar það átti við. En okkar skip er á réttri leið og það er fyrir mestu.