28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

354. mál, efnahagsmál

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Nú er farið að síga á síðari hluta þeirrar sviðsetningar sem ríkisstj. hefur gengist fyrir hér á Alþingi í kvöld. Forsrh. hefur fyllt upp í þögnina sem var í ræðu hans á gamlárskvöld. Við höfum nú heyrt það sem á vantaði.

Við myndun þessarar ríkisstj. varð mörgum tíðrætt um virðingu Alþingis sem yrði að bjarga. Ég ætla ekki að rifja upp mismunandi skoðanir manna á því, hvort virðing Alþingis jókst eða minnkaði við hina sérstæðu aðferð forsrh. við myndun ríkisstj. Hitt ætla ég að fullyrða nú, að með framlagningu þeirrar skýrslu, sem hér er nú til umr., hefur virðingu Alþings og útvarpshlustenda verið stórlega misboðið. Þegar við lásum þetta plagg yfir á þingflokksfundi í gær ráku menn upp hlátur hvað eftir annað. Við lentum hins vegar ekki eins illa í því og þm. Alþfl., að stefna til okkar efnahagssérfræðingum áður en við höfðum sjálfir lesið plaggið.

Hér hefur verið tíundað af stjórnarliðum að þjóðartekjur Íslendinga og þjóðarframleiðsla muni standa í stað og jafnvel dragast saman á þessu ári. Þetta þarf engan að undra. Slíkt er alltaf afleiðing vinstri stjórna. Svo varð eftir vinstristjórnartímabilið 1971–1974, allt hefur verið á niðurleið síðan vinstri stjórnin 1978 var mynduð og svo er nú hjá þessari. Þetta er hin eiginlega niðurtalning. Og nú rankar ríkisstj. við sér og vísar til alls þessa og segir brýna nauðsyn á aðgerðum í efnahagsmálum. Markmiðin eru sögð þau sömu og voru sett í stjórnarsáttmálann fyrir tveimur árum. Þau eru sögð hafa náðst. Samt þarf að endurnýja fyrri yfirlýsingar í þriðja sinn.

Hvað sem sagt er er þetta plagg yfirlýsing um að ríkisstj. hafi ekki tekist að gera það sem hún ætlaði sér. Þetta er heldur ómerkilegt plagg og það jaðrar við dónaskap að leggja það fram með þessum dramatíska hætti fyrir hv. Alþingi.

Í þessum svokölluðu aðgerðum í efnahagsmátum felst smávægileg lækkun launaskatts í fiskvinnslu og iðnaði, lækkun stimpilgjalda af afurðalánum, en fyrst og fremst auknar niðurgreiðslur. Kostnaður er litlar 400 millj. kr. eða 40 milljarðar gkr. Nánast ekkert annað. Hitt er „glassúr“ sem forsrh. leggur til utan um bakstur Alþb. Ég tek mér ekki í munn orð forseta ASÍ um þessa kökugerð.

Þetta er staðfesting á uppgjöf ríkisstj. Þetta er tilkynning um að niðurgreiðslur séu eina úrræðið. Með hugvitsamlegum aðgerðum á svo enn að þrengja að atvinnuvegunum, þó annað sé látið í veðri vaka. Þetta er stefna Alþb. í framkvæmd.

Þetta má í sem stystu máli segja um plaggið sjálft. Í umr. til þessa hefur ekkert það komið fram sem bætir það upp á nokkurn hátt. Hin raunverulega umræða um aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum ef einhverjar verða, verður því að fara fram síðar. Ég er ekki viss um að stjórnarliðar verði þá eins ákafir í útvarpsumr. og nú.

Mjög athyglisvert viðtal birtist í Tímanum 16. jan. s. l. við formann Framsfl. Í því viðtali staðfestir hann nánast að ekkert hafi áunnist hjá þessari ríkisstj., og hann skýrir jafnframt frá því, hvað þurfi að vera í efnahagsmálapakkanum. Það er gagnlegt að bera saman nú viðtalið og það sem er í pakkanum eftir að hann hefur verið opnaður.

Um peningamálin segir formaðurinn: „Ljóst er að þar þarf að vera ákveðin stefna.“ Í stjórnarsáttmálanum var sérstakur kafli um peningamál. Hann hefur sem sagt reynst haldlaus eins og við mátti búast. Skyldi stefnuna vera að finna í peningamálakafla fyrirhugaðra aðgerða? Ég held ekki. Hins vegar er sá kafli eitt aðalspaugið í þessu öllu saman, eins og t. d. þar sem segir: Með sérstökum aðgerðum á að reyna að tryggja o. s. frv. og aðhald í peningamálum verði aukið með ýmsum ráðstöfunum. — Þetta er markvisst. Og svo horfa ráðh. sjálfsagt hreyknir um öxl og líta á þróunina í peningamálum á s. l. ári, þegar peningamagnið í umferð jókst um 80%. Ekki prentaði Matthías Á. Mathiesen þá seðla, heldur Ragnar Arnalds. Er þetta stefnan sem á að fylgja áfram.

Formaðurinn segir að erlendar lántökur séu orðnar geigvænlegar og það verði að sporna við því og verði ráðstafanir í því skyni að vera í efnahagsmálapakkanum. Þýðir þetta kannske að sjútvrh. hafi fallið frá þeirri frumlegu, en stórhættulegu stefnu sinni að útvega erlend lán til að flytja fiskiskip milli fjarða innanlands? Vonandi að svo sé.

Í viðtalinu kemur svo fram að þær ráðstafanir, sem þarna sé verið að gera, séu tvímælalaust hugsaðar til þess að gagna út kjörtímabilið. Að vísu segir svo þessi sami formaður viku síðar í viðtali við Tímann að frekari aðgerðir séu nauðsynlegar síðar.

Þetta viðtal formanns Framsfl. Steingríms Hermannssonar er ótvíræð sönnun þess að stefna ríkisstj. hefur til þessa gersamlega mistekist. Ríkisstj. hefur ekkert gengið í baráttunni við verðbólguna. Hún hefur sett atvinnuvegina á heljarþröm og þær svokölluðu aðgerðir í efnahagsmálum, sem hér eru kynntar, vísa ekki veginn fram á við.

Í umr. sem þessum grípa stjórnarliðar gjarnan til þess ráðs, eins og fjmrh. áðan, að spyrja hver sé stefna Sjálfstfl. Sjálfsagt er að upplýsa það, ef það mætti verða stjórninni til leiðbeiningar. Hún verður hins vegar ekki skýrð á 10 mín., en hún hefur komið fram í málflutningi okkar þm. hér á Alþingi m. a. En það er ekki von að ráðh. viti það.

Á landsfundi Sjálfstfl. s. l. haust stóðu allir saman um stefnumótun flokksins í atvinnumálum. Þá stefnu er ekki verið að framkvæma nú af þessari ríkisstj. Í efnahagsmálum hefur Sjálfstfl. einnig markað sér ákveðna stefnu. Þá stefnu er ekki verið að framkvæma af þessari ríkisstj.

Ég skal ekki fara langt aftur í tímann til að minna á málflutning sjálfstæðismanna, aðeins tiltaka nokkur atriði frá umr. um brbl. ríkisstj. um áramótin 1980–1981, þar sem skýrt kom fram hvert við sjálfstæðismenn vildum stefna í efnahags- og atvinnumálum. Við lögðum þá til að skattvísitalan yrði rétt þannig að tekjuskattar og eignarskattar hækkuðu ekki frá því sem verið hafði. Við lögðum til lækkun á vörugjaldi, söluskatti og niðurfellingu á sælgætis- og gosdrykkjagjaldi. Við birtum tillögur okkar um hvernig hægja skyldi á verðbólguhraðanum með því að lina á skattheimtunni. Allir útreikningar bentu til þess, að verðbólgan gæti orðið viðráðanleg ef farið yrði að okkar tillögum.

Ef ríkisstj. hefði þá gengið til liðs við okkur sjálfstæðismenn um að fella niður alla þá aukaskatta, sem lagðir höfðu verið á frá því árið 1978, hefði verið auðvelt að ná verðbólgunni niður í 12 til 18% án þess að skerða nokkurs manns kjör. Þetta sýndum við fram á í fyrra, það kom fram í málflutningi okkar á Alþingi. En auðvitað var ekki hægt að verða við þessum stefnumiðum okkar sjálfstæðismanna.

Hjá núverandi stjórnaraðilum ríkir sú stefna að ausa sífellt meira af fjármunum þjóðfélagsins í ríkishítina. Þessi stefna hefur þegar leitt til ófarnaðar. Sú ofstjórnarstefna á sviði peningamála, þar sem menn halda að þeir geti náð sterkum tökum á fjármálum með því einu að taka peningana af borgurunum og atvinnufyrirtækjum þeirra í ríkissjóð og seðlabanka, hefur reynst röng.

Þetta er ekki sú stefna sem Sjálfstfl. hefur markað. Þvert á móti höfum við viljað skila aftur til borgaranna hluta þess ránsfengs sem til ríkisins hefur gengið, lækka bæði beina og óbeina skatta svo að við verðbólguna verði ráðið. Við höfum sagt að ríkið verði að koma til móts við fólkið í baráttunni við verðbólgu í stað þess að knýja það til þátttöku í verðbólgudansinum. sjálfstæðismenn vilja fjármunina til fólksins og frjálsra samtaka þess því það kann best með þá að fara, en ekki ríkisvaldið.

Í þessu tilviki takast á tvær meginstefnur stjórnmálanna. Annars vegar eru stjórnlyndir menn, þeir sem halda að velfarnaður verði aðeins tryggður með „stjórnvisku“ — og stjórnviska er hér í gæsatöppum — og hins vegar er frjálslynt fólk, sem vill að hverjum og einum sé eftirlátið nægilegt vald og nægilegt svigrúm til athafnasjálfstæðis og þar með afreka. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að fyrir utan hina skipulögðu kjaraskerðingu, sem enn er reynt að dulbúa, stendur ofstjórnaræðið eitt upp úr hjá núv. ríkisstj.

Nú er svo komið að 40% fjármagns þjóðfélagsins eru fryst í seðlabanka og ríkissjóði, allt fé er sogið út úr lífeyrissjóðum og sparisjóðum og eina hjálpræðið virðist vera að auka enn þetta miðstjórnarvald. Peningamálakafli þessa plaggs, sem hér er til umr., er ljóst dæmi um þessar fyrirætlanir.

Verðbólgan hefur hjaðnað, segir hæstv. forsrh. Hann trúir því líklega einn Íslendinga. En hvað er það sem þeir kalla verðbólgu, þeir háu herrar? Er það raunverulegt verðlag eða meðaltal verðhækkana? Því fer víðs fjarri. Það er hækkun framfærsluvísitölu, sem fölsuð er í bak og fyrir, en þar fyrir utan er mikill hluti verðbólgunnar falinn í stórfelldum halla opinberra fyrirtækja.

Hugleiðingar forsrh. áðan um hringinn, hvar hann byrjaði og hvar hann endaði, voru skemmtilegar. Verðbólgustefnu stjórnarinnar mætti líka líkja við hring. Enginn veit upphaf hennar eða endi. Hún er ein hringavitleysa. Það er fölsuð framfærsluvísitala sem segir okkur hver verðbólgan er. Það eru greiddar niður kartöflur á meðan menn eru enn að borða eigin uppskeru. Það lækka tollar á heimilistækjum þegar menn hafa lokið þeim kaupum sínum fyrir nokkru vegna yfirvofandi gengislækkana. Vísitölubrauðin eiga að segja okkur hverjar upphæðir það eru sem við verjum til brauðkaupa, en dýru brauðin við hliðina eru þau sem við borðum. Svo er okkur sagt að verðbólgan sé á niðurleið. Okkur er líka sagt að kaupmáttur hafi verið tryggður. Hvernig ætli það dæmi sé reiknað? Það er reiknað á nákvæmlega sama hátt, með þessari sömu fölsuðu vísitölu sem ég hef hér verið að rekja. Loks segir svo stjórnin að tekist hafi að tryggja öflugt atvinnulíf. Hver er sá maður sem veit ekki að allt atvinnulíf hefur lamast í valdatíð þessarar ólánsstjórnar? Hvernig átti öðruvísi að fara þegar allt hefur frá upphafi verið byggt á undirferli og blekkingum? Og hvernig átti öðruvísi að fara þegar öll ofstjórnaröfl þjóðfélagsins fá lausan tauminn? Áttu kommarnir að hætta við áform sín og yfirlýsta stefnu um ríkisforsjá og sósíalisma þegar liðsauki barst þeim til að hrinda stefnunni í framkvæmd? Áttu framsóknarmenn að hætta að hygla SÍS-hringnum? Áttu þeir að hætta við yfirlýsta stefnu um aukna samneyslu og minni einkaneyslu, eins og þeir orða það, en á mæltu máli þýðir auðvitað aukið miðstjórnar- og ofstjórnarvald, þegar eftir þeim var gengið með þá tegund verslunarviðskipta sem þeim einum hefur alla tíð verið sérlega geðfelld? Sem betur fer hugnast þó ekki öllum í þeirri sveit þessar aðfarir, þótt þeir féllu fyrir gylliboðum göfugmenna sem buðu þjónustu sína þegar í desember 1979. Með því var hindruð heilbrigð stjórnarmyndun í landinu. Það kann því að vera von til þess enn, að heilbrigð lýðræðisöfl sameinist fyrr en síðar um að snúast gegn þeirri óheillaþróun sem hér hefur orðið á undanförnum misserum.

Ég kann ekki að spá um það, hvenær við losnum við þessa ríkisstj. Flestum, sem þar eru innanborðs og styðja hana, virðast líða vel og meðan svo er skulum við ekki vænta breytinga. Forsrh. ítrekar við öll möguleg tækifæri að stjórnin muni sitja út kjörtímabilið. Kokvídd framsóknarmanna virðist með ólíkindum. Enn þá renna þeir niður sem ekkert sé öllum fyrri yfirlýsingum um hinar nauðsynlegu aðgerðir í efnahagsmálum. Þeir munu því sitja áfram. Og varla fara kommarnir að ókyrrast. Þeir hafa sagt að efnahagsstefna ríkisstj. beri mjög svipmót þeirrar afstöðu sem Alþb. hafi haft síðan 1978. Sú afstaða hafi orðið undir í ríkisstj. 1978–1979, þ. e. vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, nú hafi hins vegar verið tekið tillit til sjónarmiða Alþb. og árangurinn sé að koma í ljós.

Okkar skip er á réttri leið, sagði Ragnar Arnalds áðan, og aðdáunin á skipstjóranum leyndi sér ekki. Já, árangurinn er sannarlega að koma í ljós, eins og spáð var: Atvinnureksturinn er kominn í slíka klemmu að kreppulán ein duga til að halda ýmsum greinum undirstöðuatvinnuveganna gangandi. Þar með hafa kommarnir náð þeirri óskastöðu sinni að allt sé komið undir náð og miskunn ríkisins. Hvers vegna ættu þeir að hverfa úr ríkisstj.?

Kjarklausir menn geta ekki verið hreinskilnir, segir í gömlu spakmæli. Það sannast á þeim, sem nú sitja á valdastólum. Þá hefur skort kjark til að takast á við vandann og þá skortir nú kjark til að viðurkenna getuleysi sitt. Um hreinskilnina hef ég áður rætt. Það liggur því beinast við að álykta að þjóðin verði að búa við þessa ríkisstj. til loka kjörtímabilsins. Dugleysið mun hins vegar koma í veg fyrir að okkur miði áfram á framfarabraut. Viðskilnaðurinn verður eins og hjá öðrum vinstri stjórnum. „Nógur er tíminn,“ er orðtak slóðanna sem ekkert gera á réttum tíma og aldrei koma á réttum tíma.