28.01.1982
Sameinað þing: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

354. mál, efnahagsmál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Formaður Alþfl., sem talaði hér áðan, hafði engar tillögur fram að færa um efnahagsmál nema kröfur um enn frekari vaxtahækkanir. Þykir þó víst flestum nóg um þá miklu vaxtabyrði sem nú er um að ræða hér í landinu. Hann sagði að Alþfl. vildi leysa efnahagsvandann. En reynslan sýnir að Alþfl. þorir ekki að takast á við efnahagsvandamál hér á landi. Alþfl. leggur á flótta þegar við vandamál er að glíma.

Það var jarðarfararstemmning í ræðu varaformanns Sjálfstfl. áðan. Honum er vorkunn því allir vita hver stendur við hlið hans við stjórnvöl Sjálfstfl.

Ólafur G. Einarsson, sem talaði hér áðan, kvartaði mjög yfir því, að ríkisstj. óskaði eftir útvarpsumræðum um efnahagsráðstafanir sínar. Þetta eru eðlileg viðbrögð af hálfu Sjálfstfl. Hann hefur ekki áhuga á því að leyfa alþjóð að hlýða á úrræðuleysi sitt í efnahagsmálum. Eina tillaga Ólafs G. Einarssonar áðan var sú að setja ríkissjóð á hausinn með því að fella niður verulegan hluta af skatttekjum hans.

Góðir hlustendur. Á morgun eru tvö ár liðin frá því að Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstfl., hóf tilraun til stjórnarmyndunar ásamt Alþb. og Framsfl. Þessi stjórn vakti þegar upp mikla áróðurshrinu sem stendur enn af hálfu stjórnarandstöðunnar. En stjórnin var eini möguleikinn sem til var og til er til þess að koma í veg fyrir að Alþingi yrði sér til vansa með því að hér settist að völdum utanþingsstjórn. Forustumenn flokkanna höfðu allir reynt stjórnarmyndun. Formaður Sjálfstfl. sat t. d. á löngum fundum með fulltrúum hinna flokkanna og hafði stjórnarmyndunarumboð vikum saman án þess þó að hefja nokkurn tíma raunverulegar stjórnarmyndunarviðræður. Í kosningunum í des. 1979 voru þrír flokkar, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sammála um að útilokað væri að leysa verðbólguvandann nema með því að lækka kaupið mjög verulega og skerða lífskjörin. Þessi stefna hlaut verulegt fylgi, en Alþb. eitt flokka hélt því fram í kosningabaráttunni að unnt ætti að vera að verja lífskjörin í meginatriðum. Flokkarnir þrír, sem höfðu nær sömu efnahagsstefnu, gátu þó ekki komið sér saman um ríkisstj. eftir kosningarnar og þess vegna var sú óvenjulega og sérstæða ríkisstj. mynduð sem nú situr. Hún hefur beitt sér gegn verðbólgunni og hún hefur beitt sér fyrir margháttuðum umbótum í efnahagsmálum, atvinnumálum og félagsmálum frá því að hún tók við.

Fyrir þessu þingi liggja enn margs konar tillögur um úrbóta- og framfaramál. Ég nefni þar sem dæmi frv. um málefni fatlaðra, sem vonandi verður að lögum á þessu þingi, og frv. um málefni aldraðra kemur senn til meðferðar í ríkisstj. Þá vil ég nefna hér frv. um staðgreiðslukerfi skatta og tillögu um röð virkjana og orkunýtingu. Allt eru þetta mál sem til heilla horfa.

Efnahagsáætlun ríkisstj. fyrir árið 1982, sem hér er rædd í kvöld, skapar viðnám gegn verðbólgu. Ríkisstj. beitir sér fyrir því, að eytt verði 6 vísitölustigum úr vísitölu framfærslukostnaðar með niðurfærslu verðlags. Þessar aðgerðir kosta verulega fjármuni. Þar koma um 3/4 úr ríkissjóði en um fjórðungur fæst með sérstakri skattlagningu.

Nú þarf að nota tímann til þess að fjalla um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir lífskjörin í landinu. Þar verður að taka mið til allra átta og taka tillit til hagsmuna launamanna og þjóðarinnar allrar í bráð og í lengd.

Ríkisstj. hefur náð verulegum árangri í baráttu sinni gegn verðbólgunni án þess að skerða kaupmátt launa, eins og nú liggur fyrir frá árinu 1981. Ríkisstj. hefur þannig farið leið sem er í grundvallaratriðum frábrugðin kaupránsleiðinni 1978, en ríkisstjórn íhalds og Framsóknar 1974–1978 lækkaði kaupið samtímis og hún magnaði verðbólguna. Árlega kom Geir Hallgrímsson forsrh. þeirrar stjórnar fram í fjölmiðlum og boðaði 15% verðbólgu árið eftir. Útkoman varð aldrei minni en þreföld sú tala. Í tíð Geirs Hallgrímssonar var verðbólgan sjöföld á við það sem hún var í löndum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Nú er hún þreföld til fjórföld. Geir Hallgrímsson er þannig Íslandsmethafi í verðbólgu, enda þótt málgagn hans reyni nú að telja mönnum trú um annað. Landsmenn þekkja Morgunblaðsblekkingarnar betur en svo að nokkur festi trú á fölsuð línurit þess, töflur og talnarunur.

Í lok s. l. árs var ljóst að gripa yrði til víðtækari aðgerða en áður hafði verið gert ráð fyrir vegna versnandi ytri kringumstæðna þjóðarbúsins. Þess vegna ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir sérstökum efnahagsaðgerðum sem nú eru kynntar. Þessar efnahagsaðgerðir byggjast á þeim meginmarkmiðum sem ríkisstj. hefur áður sett sér: að tryggja fulla atvinnu, að draga úr verðbólgu og að vernda lífskjörin. Í þessum aðgerðum, sem hefur verið lýst mjög rækilega af öðrum ráðherrum fyrr í kvöld, felst pólitískt samkomulag um að verja forsendur þeirra kjarasamninga sem gerðir voru seint á síðasta ári. Þessi pólitíska staðreynd er hornsteinn efnahagsaðgerðanna og því er ekki hróflað við verðbótavísitölunni. Ríkisstj. mun beita sér fyrir mjög auknum niðurgreiðslum sem lækka framfærsluvísitöluna samkv. reglum sem fyrir löngu hafa verið samþykktar af samtökum launafólks. Niðurgreiðslurnar eru í einu og öllu í samræmi við gildandi vísitölugrundvöll eins og hann mælist. Þess vegna er áróður stjórnarandstöðunnar um vísitölufalsanir hrein og bein blekking og fjarstæða. Til þess að skapa forsendur fyrir þessum aðgerðum er beitt sparnaði í ríkiskerfinu, álagningu bankaskatta — og er það í fyrsta sinn sem ætlunin er að leggja skatta á bankana — og loks eru nýttir þeir fjármunir sem alþingi samþykkti að veita til efnahagsaðgerða á þessu ári.

Það er ljóst að þessar aðgerðir munu draga úr verðbólguhraðanum um sinn. Hitt dettur engum í hug, að hér sé um að ræða einhverja endanlega lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar. Slík lausn er ekki til nema í munni stjórnarandstöðunnar. Baráttan gegn verðbólgunni er langtímaverkefni sem verður að takast á við á öllum vígstöðvum í senn. Allt tal um endanlegar lausnir er blekking.

Stjórnarandstaðan ræðst nú gegn efnahagsráðstöfunum ríkisstj. Jafnframt gerir hún lítið úr ráðstöfunum stjórnarinnar hér í kvöld. Þessar árásir eru marklausar með öllu vegna þess að stjórnarandstaðan á engin úrræði. Hún hefur aldrei frá því að þessi ríkisstj. var mynduð lagt fram eina einustu nýtilega hugmynd, hvað þá heldur tillögu um lausn efnahagsvandans. Formaður þingflokks Alþfl. vill líka að ríkisstj. sitji áfram. Hann hefur ekki meiri trú á úrræðum eigin flokks en þetta, enda þekkir hann vel til á þeim bæ. Og ekkert bólar enn á ríkisstjórninni sem Benedikt Gröndal ætlaði að mynda í maí í fyrra. sú yfirlýsing heyrist ekki meir. Traustsyfirlýsing formanns þingflokks Alþfl. við núverandi ríkisstj. yfirgnæfir hana.

Frá því að ríkisstj. var mynduð hafa fylgt henni stöðugar hrakspár stjórnarandstöðunnar. Hún hefur gert sér vonir um að ríkisstj. væri að bresta. Vonir hennar að undanförnu um að hún gæti rekið fleyga í stjórnarsamstarfið hafa einnig brugðist. Svo mun enn verða, því að flest bendir til að þessi ríkisstj. muni sitja út kjörtímabilið.

Aldrei hafa þeir þungbúnu menn, Kjartan Jóhannsson og Geir Hallgrímsson, verið nær því að sýna á sér gleðimerki í sjónvarpinu en fyrir þremur vikum þegar mest gekk á við ákvörðun fiskverðs. Þeir gerðu sér greinilega vonir um að stjórnin réði ekki við verkefni sitt, að hún liðaðist í sundur á næstu dögum eða vikum. Vissulega var þá reynt af ýmsum til þrautar að snúa ríkisstj. niður. Sú reynsla sýnir að ákveðnir hagsmunaaðilar svífast einskis þegar komið er að pólitískum ákvörðunum í landinu. En vonir þeirra félaga Kjartans og Geirs hrundu í rústir eins og fyrri daginn. Þeir hafa ekki náð vopnum sínum á ný, svo að notað sé orðalag Sverris Hermannssonar. Þess vegna eru talsmenn þeirra svona ræfilslegir í málflutningi sínum hér í kvöld. Þeir hafa ekkert til málanna að leggja. Skuggaráðuneyti Geirs Hallgrímssonar og Kjartans Jóhannssonar situr því áfram í skugganum sem betur fer.

Í upphafi síðasta árs lögðu launamenn fram 7% í kaupi í baráttuna gegn verðbólgu sem skilaði sér að fullu aftur með betra vísitölukerfi og skattalækkunum. Í þeim efnahagsráðstöfunum, sem nú verður að taka til athugunar, verður að tryggja að allir fastir efnahagslífsins leggi fram sinn skerf. Útilokað er að ætlast til fórna af launamönnum í baráttunni gegn verðbólgu ef ekki er samhliða um að ræða aðrar víðtækar efnahagsaðgerðir á öðrum sviðum: í verslun, í landbúnaði og í sjávarútvegi. Það er brýn nauðsyn að við gerum okkur ljóst að það verður að koma í veg fyrir sóun og sukk með fjármuni, eins og t. d. í innflutningsversluninni. En meginforsenda árangurs í baráttunni gegn verðbólgu er sú, að gætt verði ítrustu hagsýni í rekstri og fjárfestingu í atvinnuvegum okkar. Því miður hefur mjög skort á forsjá og fyrirhyggju í þeim efnum á undanförnum árum. Þess vegna er það mikilvægt ákvæði í efnahagsáætlun ríkisstj. fyrir árið 1982, að unnið verði að úttekt á fyrirtækjum í fiskiðnaði og almennum iðnaði. Það er með öllu fráleitt að miða gengisskráningu íslensku krónunnar við þann vandræðarekstur sem víða eru dæmi um hér á landi.

Ein leiðin til þess að draga úr verðbólgu er betri rekstur fyrirtækja, aukin framleiðsla og framleiðni. Fullvíst er að það auðveldar árangur í baráttunni við verðbólguna þegar meira verður til skiptanna, þegar þjóðarframleiðsla fer vaxandi svo og þjóðartekjur á mann. Á þessu ári eru hins vegar ekki horfur á því að þjóðartekjur á mann vaxi. Það skapar enn meiri vanda í glímunni við verðbólguna en á umliðnum árum. Jafnframt er ljóst að ytri aðstæður eru okkur stöðugt óhagstæðari og erfiðari. Kreppan á Vesturlöndum gerir það erfiðara en fyrr að tryggja fulla atvinnu hér á landi. Við skulum gera okkur vel ljóst að atvinnuleysisvofan er hvarvetna á sveimi í kringum okkur. Fyrr var kveðið um það, að einangrun landsins skapaði möguleika á sérstakri vernd fyrir Íslendinga andspænis vandamálum umheimsins. Ljóst er að nú orðið eru varnaraðgerðir erfiðari en nokkru sinni fyrr þar sem landið er bundið í margs konar fríverslunarsamninga.

Góðir hlustendur. Þetta land á miklar auðlindir. Þær eigum við að nota af fyrirhyggju og forsjá, ekki aðeins út frá hagkvæmnisjónarmiðum augnabliksins, heldur sérstaklega með tilliti til allrar framtíðar. Það verkefni á að vera efst á dagskrá að skila þessu landi, gögnum þess og gæðum, betra til komandi kynslóða. Hagsmunafrekja augnabliksins má ekki leiða menn út á hála braut t. d. í erlendum lántökum. Þar þurfum við að gæta okkar til hins ítrasta. Til þess þarf aukinn innlendan sparnað. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að verja fjármagni lífeyrissjóðanna til félagslegra verkefna enn frekar en gert hefur verið að undanförnu. Ég er þeirrar skoðunar, að því fjármagni sé betur varið í verkamannabústaði en í hús verslunarinnar, svo að dæmi sé tekið.

Við þurfum að leggja áherslu á að nýta fiskimið okkar vel og skynsamlega, við þurfum að leggja áherslu á að bæta gæði aflans, sem berst að landinu, og endurnýjun fiskiskipaflotans má ekki fylgja tilviljunarlögmálum. Ræktun á að vera okkar kjörorð í athöfn dagsins. Rányrkju bera að hafna í orði og athöfn, í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Sjávarútvegurinn er vissulega hornsteinn atvinnulífs á Íslandi og það ber að leggja áherslu á að bæta gæði hráefnis, auka verðmæti útflutningsins og að nýta alla fjármuni betur en nú er gert. Þar reynir á ábyrgð forráðamanna fyrirtækjanna. En þar eins og víðar í atvinnulífi ber of mikið á því, að menn vilji einlægt hlaupa upp í fangið á stóru mömmu, ríkinu, þegar eitthvað bjátar á, þó að sömu menn vegsami ella einkaframtakið í hátíðarræðum.

Nú vex upp á Íslandi ung kynslóð sem býr við allt önnur kjör en áður hafa verið í landinu. Henni og öðrum þarf að vera ljóst að heilbrigðisþjónusta og menntakerfi landsins kosta verulega fjármuni. Þessa fjármuni leggjum við fram sameiginlega allir landsmenn með skattpeningum okkar. Þessa þjónustu má ekki vanmeta né lítilsvirða á nokkurn hátt. En henni verður ekki haldið uppi nema allir leggi sitt af mörkum. Hún stenst ekki kröfur um aukningu nema landsmenn vilji greiða meira í hina sameiginlegu sjóði.

Hér á landi þarf hver maður að leggja á sig mikla vinnu. Hver einstaklingur vinnur margfalt á við það sem algengast er erlendis. Við gagnrýnum vissulega vinnuþrældóm, en gerum okkur ljóst að vinnan er uppspretta þeirra miklu auðæfa sem við höfum frá degi til dags. Íslenska þjóðin hefur með mikilli vinnu lyft Grettistaki á liðnum árum og áratugum. En fram undan eru enn erfið verkefni. Frammi fyrir þessum verkefnum þurfum við að sameinast, og mestu skiptir að við gefum yngstu kynslóðinni trú á landið, sjálfstæði þess og landkosti. Hér er unnt að lifa betra lífi en í öðrum löndum, ekki aðeins vegna fámennis okkar — því að hér er tillitssemi við einstaklinginn ríkari en annars staðar — heldur líka vegna hinna miklu náttúruauðlinda sem landið á og skapa hér forsendur fyrir góðri framtíð. Til þess að nýta þær auðlindir skynsamlega framvegis þurfum við að staldra við og hyggja að hverju fótmáli. Meðbyr og meðlæti má ekki draga úr fyrirhyggju og aðgæslu.

Góðir hlustendur. Fyrir dyrum standa eftir fáeina mánuði sveitarstjórnarkosningar um land allt. Þar verður tekist á um stjórn byggðarlaganna. Þar verður fjatlað um landsmálin. Þar verða meginátök milli Sjálfstfl. og Alþb. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor munu hafa áhrif á alla þætti þjóðmálanna. Komi Alþb. sterkt út úr kosningunum mun enn um sinn unnt að veita viðnám gegn þeirri kreppu og því atvinnuleysi sem hrjáir launafólk á Vesturlöndum. Sterkt Alþb. styrkir stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Komi Alþb. sterkt úr úr kosningunum í vor verður áfram unnt að sporna gegn erlendri stóriðju í landinu en sækja fram í þágu íslenskra atvinnuvega og íslensks sjálfstæðis. Kosningaúrslit fela ekki aðeins í sér dóm um liðna tíð. Þau eru jafnframt ákvörðun um stjórn landsins og sveitarfélaganna næstu árin. Alþb. fagnar því að fá þegar á næstu mánuðum tækifæri til þess að leggja verk sín fyrir kjósendur. Við förum fram á sanngjarnt mat og ábyrga afstöðu. Það má ekki henda, að leiftursóknarlið íhaldsins nái að brjótast til forustu í byggðum landsins.

Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góða nótt.