01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

182. mál, tollskrá o.fl.

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af viðbrögðum hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, formanns þingflokks Alþfl. Mér komu þau satt að segja nokkuð á óvart.

Á fundi snemma í fyrri viku, sem við áttum formenn þingflokka, forsrh. og fáeinir ráðherrar aðrir hérna í stigaherberginu, var rætt um fyrirkomulag á útvarpsumr. og flutning skýrslu þeirrar sem flutt var hér á fimmtudagkvöldið. Þá upplýsti fjmrh. þar á fundinum að hann þyrfti að fá lögfest þetta frv. um tollamál. Ég leit svo á að það hefði verið um það samið þar á fundinum að þetta frv. næði fram að ganga. Ég man ekki betur en talað hafi verið um mánudag. Það kom a. m. k. ekki fram aths. frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að hann teldi þetta ekki fært. Ég treysti því nú, að menn sjái að þetta er leikur einn. Þetta er einfalt mál og ég held að hv. nm. í fjh.- og viðskn. þurfi ekki mjög langan tíma til að taka afstöðu til málsins.

Það vill svo til að formaður n., Halldór Ásgrímsson, er veðurtepptur enn þá á Höfn í Hornafirði. Það standa að vísu vonir til að þangað verði flogið síðar í dag. En fyrir hönd Framsfl. mun Guðmundur G. Þórarinsson mæta í stað Halldórs Ásgrímssonar við afgreiðslu þessa máls. Varamaður Ingólfs Guðnasonar, hv. þm. Jón Ingi Ingvarsson, mætir þar að sjálfsögðu. Og varamaður varaformanns n., Guðmundur J. Guðmundssonar, þ. e. hv. þm. Guðrún Hallgrímsdóttir, mætir á fundinum svo að það standa vonir til að þessi nefnd verði vel skipuð og starfhæf. — Annað var það ekki, herra forseti.