01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

182. mál, tollskrá o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég kann ekki vel að meta það, hvorki nú né endranær, þegar hæstv. ráðherrar leggja mál hér inn á hið háa Alþingi, eftir hádegið er talað fyrir málinu, síðan er sagt við þm., eins og hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að menn skyldu varast að flytja brtt. við málið, þm. gæfist kostur á því einhvern tíma síðar á þinginu, þá væri miklu eðlilegra að gera þetta og þar fram eftir götunum. Auðvitað er málflutningur af þessu tagi óviðeigandi. Það er sök sér ef hæstv. ráðh. hugsa á þennan hátt, en hitt er varla sæmandi virðingu þessarar stofnunar, að hæstv. ráðh. skuli láta þetta út úr sér, jafnvel þótt þeir séu Alþb.-menn.

Ég vil svo segja það og biðja þá nefnd, sem tekur þetta mál til afgreiðslu, og sérstaklega stjórnarandstöðuna, að hyggja vel að því, hvort á sérstöku tæki, sem hér er talað um að lækka úr 80% í 40% toll, sé ekki nauðsynlegt að afnema tollinn með öllu, en þar á ég við eldhúsviftur. Það liggur fyrir, og er raunar ekki aðhlátursefni, að það hefur mjög skert samkeppnisaðstöðu Rafha-eldavéla að undir vissum kringumstæðum fást þessar eldhúsviftur fluttar inn tollfrjálst, ef þær eru tengdar við eldavélar og koma þannig til landsins. Þetta hefur komið í veg fyrir að þetta íslenska iðnfyrirtæki hafi staðið jafnfætis erlendum í samkeppninni um íslenska markaði. Til að taka af allan vafa í þessu efni er eðlilegast að afnema tollinn með öllu, enda sé ég satt að segja ekki hvaða rök hníga til þess, úr því að eldavélar eru tollfrjálsar, hvers vegna eldhúsvifturnar mega ekki vera það líka. Svo er raunar um fleiri heimilistæki. Það er þetta og ýmislegt annað í þessu sambandi sem vert er að íhuga.

Ég geri mér grein fyrir því, að hæstv. fjmrh. brá svo skjótt við og flutti þessi sérstöku tollskrárnúmer vegna þess að þau koma við vísitöluna. Auðvitað er hæstv. fjmrh. á móti því, að tollur sé lækkaður á öðrum vörum sem ekki eru jafnmikið í vísitölunni. Það er þessi venjulega pólitík sem við búum við hér í landinu, að það er sérstök reiknuð verðbólga sem búin er til á skrifstofum, og henni er hampað hér í þingsölum og ráðuneytunum, en svo er önnur raunveruleg verðbólga í landinu sem bitnar á fólkinu vegna þess að kauptaxtarnir eru ekki miðaðir við þá verðbólgu.

Ef maður les yfir tollskrána kemur fljótt í ljós að hvers konar listmunir, menningarhlutir, eru tollfrjálsir. Skiptir þá ekki máli hvort við tölum um bækur eða málverk eða listaverk af því tagi. Á hinn bóginn eru háir tollar á hvers konar hljóðfærum, hljómplötum og öðrum þvílíkum hlutum. Nú hygg ég að það sé öllum þingheimi ljóst, að á undanförnum árum hefur mjög færst í vöxt að foreldrar hafa lagt mikið fé til að mennta börn sín í tónlist og hljóðfæraleik. Fjöldi heimila leggur mikið á sig til að kaupa hljóðfæri af ýmsu tagi til þess að uppeldi barna þeirra megi verða sem best, og þegar um hæfileikamikil börn er að ræða og þau eru kannske mörg í fjölskyldu, þá verður hér um mjög tilfinnanlegan kostnað að ræða. Á hinn bóginn vitum við það, sem höfum fengist við kennslu í framhaldsskólum, að fáir nemendur eru jafnsamviskusamir, jafnagaðir í sínu námi og jafnfljótir að grípa hvað eina, sem til meðferðar er í skólanum, og einmitt þessir nemendur sem hafa lagt stund á hljóðfæraleik og unna fögrum listum. Það er af þessum sökum og líka vegna þess að það er boðað að nefndin fái naumast nokkurn tíma til að skoða málið sem ég sé mig knúinn til þess hér strax við 1. umr., að flytja þá brtt., að tollur af hljóðfærum og hljómplötum verði afnuminn í leiðinni.

Ég þarf ekki að taka það fram við hv. þingheim, að það tekur nákvæmlega jafnlangan tíma að fella brtt., sem fram kemur, og að samþykkja hana. Það eru þess vegna ekki rök í málinu að tímaskortur komi í veg fyrir að þessi tillaga verði samþykkt. En á hinn bóginn vil ég aðeins segja það við hæstv. ríkisstj., að miklu mundi þjóðin verða umburðarlyndari í hennar garð og vilja líta með meiri velþóknun á þær ráðstafanir, sem ríkisstj. er nú að gera í efnahagsmálum, ef hún léti svo lítið að leyfa einhverju að fljóta með í tollalækkununum sem ekki mælist í framfærsluvísitölunni eða svo sem ekki neitt, þannig að fólk fái með öllum þessum pökkum svo sem einn pínulítinn aukapakka sem sé á kostnað ríkisins sjálfs, en ekki til að hlunnfara launþegana í landinu.

Nú veit ég að hæstv. fjmrh. er mikill unnandi fagurra lista, þekki það frá fornu fari, og ég veit að hugur hans stendur til að samþykkja þessa till. mína. Hins vegar er hann í vondum félagsskap í þessari ríkisstj. Ég vil því mælast til þess, þegar hann litur á brtt., að hann láti sinn góða mann einu sinni lesa yfir till. frá stjórnarandstöðunni, betri helminginn í sjálfum sér, því að ef hann gerir það veit ég að hann muni leggjast á sömu sveif og ég og við munum lifa það á þessum degi að tollur af hljóðfærum og hljómflutningstækjum verði afnuminn og virðing þingsins verði meiri eftir en áður.