01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

182. mál, tollskrá o.fl.

Magnús H. Magnússon:

Örfá orð, herra forseti.

Það hefur lengi verið Alþingi og ríkisstj. til skammar að leggja lúxustoll á sérstakar nauðsynjavörur sykursjúklinga. Það er einnig ljóst að frv. stjórnarandstæðinga, hversu góð sem þau annars eru, fá í fæstum tilfellum afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Það er því að vonum að stjórnarandstæðingar reyni að koma sínum sjónarmiðum á framfæri með brtt. við stjfrv., því að það tryggir þó að þessar brtt. fái afgreiðslu, en reynslan sýnir okkur að aðrar tillögur stjórnarandstæðinga, hversu góðar sem þær eru, fá yfirleitt ekki afgreiðslu. Ég vil stuðla að fljótri afgreiðslu á því máli sem hér er á dagskrá, en þó ekki svo að jafnhliða sé ekki tekið af það sérstaka óréttlæti sem sykursýkissjúklingar hafa orðið að þola og það lengi, að sjúkdómur þeirra sé beinlínis notaður sem sérstök tekjuþúfa fyrir ríkissjóð.