01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki eyða löngum tíma deildarinnar í það sem ég hef áhuga á að koma hér á framfæri. Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í þessar beinu umræður hv. fyrirspyrjanda og hæstv. sjútvrh. um stærð loðnustofnsins. Þó vildi ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi tekið þau mál réttum tökum strax þegar hin alvarlegu tíðindi birtust í haust, þegar upp kom að loðnustofninn væri minni en við höfðum gert okkur vonir um, að ganga þá ekki strax til þess að stöðva veiðar, heldur skoða málin betur. Ég held að aðgerðir hæstv. sjútvrh. í þessum málum séu réttar. Jafnvel vil ég taka undir það, að þó að stofn verði lítill, þá er það staðreynd, sem nú blasir við, að slíkur stofn getur skilað af sér góðri hrygningu.

En ég ætla að vekja athygli á einu sem kom fram í. ræðu hæstv. sjútvrh. Það eru fregnirnar um þorskgengdina í kringum loðnustofninn núna. Það getur vel verið að við eigum fyrst og fremst að óttast það, að sá þorskur éti upp lítinn loðnustofn. En í mínum huga ríkir ekki sá ótti fyrst og fremst. Gagnvart þeim fréttum finn ég fyrst og fremst til gleði yfir því, að það er nú staðreynd, að þorskstofninn við strendur Íslands er orðinn mjög stór og mjög sterkur. Fregnirnar, sem við fáum núna um þorskstofninn við Ísland, eru ekki aðeins þær fréttir sem sjútvrh. færir okkur nú í sambandi við rannsókn á loðnustofninum, heldur sýnir línuvertíð hringinn í kringum landið að þorskstofninn við Íslandsstrendur er mjög sterkur, hvort sem við heyrum fréttir frá Suðurnesjum eða frá Snæfellsnesi. Línuvertíðin, sem er að byrja nú, byrjaði því miður hálfum mánuði og seint, hefst á því að næstum því úr hverjum línuróðri koma nú 6, 8, 10–12 tonn. Þetta eru stórar fréttir, þetta eru góðar fréttir um íslenskan þorskstofn. (ÁG: Þetta eru vondar fréttir fyrir loðnustofninn.) Ja, fyrst og fremst erum við nú að hugsa um byggðina á Íslandi og þróun atvinnumála á Íslandi og við vitum sáralítið um það, hvað þorskurinn okkar étur mikið af loðnu. Við vitum sáralítið um það. Og við vitum það, sem höfum stundað sjó hér við landið, að við höfum veitt mikinn þorsk í ördeyðu-loðnuárunum. Þetta segir svo sem ekki mikið. En þær fréttir, sem eru að birtast okkur núna, segja okkur það, að við höfum ærin verkefni fyrir okkar fiskiskipaflota og þurfum ekkí að óttast það að þurfa að senda hann til annarra landa.

Fyrir 20 árum var borin fram hér í hv. Alþingi tillaga um að reyna að koma íslenskum skipum til Afríku-stranda, fara að veiða þar, vegna þess að þau hefðu ekki verkefni hér við Íslandsstrendur. Það er eitthvað svipaður hugsunarháttur sem núna kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég hef trú á að fiskstofnar við Íslandsstrendur, jafnvel þó að svolítið dökkt sé núna um loðnustofninn, séu ekki það illa farnir að íslenskir fiskimenn á íslenskum flota geti ekki haft nóg verkefni við að nýta þá á næstu árum.