01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins til að fyrirbyggja misskilning sem mátti e. t. v. ráða af síðari ræðu hv. fyrirspyrjanda.

Ég kannast ekki við að ég hafi gefið honum tilefni til að ætla að ég hafi ekki áhyggjur af ástandi loðnustofnsins. Ég sagði þvert á móti að ég tæki undir hvert orð sem hann sagði um hið alvarlega ástand. Hitt er svo annað mál, að hv. fyrirspyrjandi er ekki að upplýsa menn um einhvern stórasannleik í þessu máli. Við höfum fjallað um þetta að sjálfsögðu hvað eftir annað, rætt við fiskifræðingana og við þá menn sem hafa hagsmuna að gæta. Ég er sannfærður um að allir þessir menn hafa verulegar áhyggjur af því, hvernig loðnustofninn hefur þróast.

Hitt er svo annað mál, að menn gætu einnig tekið fiskifræðingana á hvalbeinið og sagt: Hvers vegna leggið þið til 700 þús. tonn í vor og það er farið eftir því? Hvað gerðist? Mér dettur það ekki í hug. Það er alveg rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þessi vísindagrein er ekki nákvæm. Það geta orðið gífurlega miklar skekkjur. Þeir segja mér að þeir telji að skekkjan sé fremur upp á við, en engu að síður tek ég undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þegar svona er verði að hafa allan varann á og byggja á því sem verst gæti orðið.

E. t. v. hefur hv. þm. tekið því svo illa sem ég sagði að ég kynni engin ráð til að banna þorskinum að veiða loðnu. En þaðan stafar í dag langmesta hættan. Og þar er áreiðanlega mjög mikið af því magni sem hefur einhvers staðar týnst. Kannske hafa skekkjur hjá fiskifræðingunum að vísu verið á hinn veginn í vor, en mjög miklu af því magni, sem þarna hefur týnst, hefur þorskurinn áreiðanlega fyrst og fremst eytt. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þannig verður haldið á þessum málum, að þeim loðnustofni, sem eftir er, mun ekki stafa hætta af veiðum manna. En meiru get ég ekki lofað.