01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hlýtur að hafa allafgerandi áhrif á mína ræðu að fjarverandi er hv. 6. landsk. þm., Karvel Pálmason, því væri hann viðstaddur væri full ástæða til að svara honum í svipaðri tóntegund og hann notaði á seinasta fundi þegar þetta mál var til umr.

Mér er fullkomlega ljóst hvílíkt vandræðaástand er að orka til upphitunar er á eins misjöfnu verði og mönnum er kunnugt. Ég vil taka undir það, að það ástand getur aldrei varað til lengdar án þess að til verulegrar byggðaröskunar komi í landinu. Ég lýsti því jafnframt yfir þegar þegar þetta mál var til umr., að ef ekki næðist samstaða um að fara þá leið að jafna orkuverðið sjálft, þá væri að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en fara þá leið sem hér er stungið upp á, þ. e. að leiðrétta þetta í gegnum skattakerfið og í gegnum almannatryggingar og með öðrum aðferðum sem tryggja að þeir, sem ekki mundu fá leiðréttingar í gegnum skattakerfið, fengju þær þá eftir öðrum leiðum.

Ég vil undirstrika það, og það held ég að flestum sé ljóst, að sú leið að leiðrétta þetta í gegnum skattakerfið er miklu verri en hin: að fara í gegnum orkuverðið. Ástæðurnar fyrir því eru m. a. þær, að tekjur manna eru misjafnar og sá, sem er með háar tekjur, fengi þetta dregið frá hæstu skattþrepum, en sá, sem væri með lágar tekjur, fengi þetta e. t. v. aðeins dregið að hluta frá lægstu skattþrepum. Þetta er mönnum fullljóst, einnig hitt, að það er náttúrlega líka spurning hvort sanngjarnt sé að útbúa skattakerfi þannig, að menn séu verðlaunaðir fyrir að búa í stóru húsnæði frekar en að búa þröngt. Það er spurning sem líka hlýtur að vakna í þessu sambandi. Og það er gallinn við að fara í gegnum skattakerfið. En mér er fullljóst að leiðrétting verður að eiga sér stað í þessum málum, og verði ekki farið í gegnum orkuleiðina, sem ég tel miklu betri, þá mun það koma í ljós, þegar þessi mál eru tekin fyrir við atkvgr. hér í þinginu, að ég er ekki fjarri þeim hugmyndum sem hér koma fram og lagt er til varðandi skattamálið.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri vegna fjarveru 6. landsk. En miðað við allan þann bægslagang sem hann viðhafði hér væri hollt að hann hugleiddi það, að hann var þm. í stjórnaraðstöðu og hann gerði engin kraftaverk í þessum málum þegar hann var á þingi sem stjórnarsinni. Hann mætti gjarnan hugleiða það í einveru, þó að hann vilji ekki láta mikið bera á því þegar hann þarf að standa hér í stólnum.