01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

125. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég sagði hér um daginn að hægt væri að fá hjá Landsvirkjun ódýra raforku fyrir fjarvarmaveitur. Hv. þm. Alexander Stefánsson dró það í efa og taldi að það hefði ekki verið boðið. Ég get upplýst það, að 1973–1974 stóð Vestmannaeyjakaupstaður í samningum við Landsvirkjun um slík orkukaup vegna fjarvarmaveitu sem við áætluðum að setja í gang. Það var áður en fyrir lá að hægt væri að nota hitann í hrauninu. Þá gátum við fengið raforku frá Landsvirkjun á mjög sambærilegu verði og ótryggða raforkan er seld til Grundartangaverksmiðjunnar. Í framhaldi af því setti Landsvirkjun inn í sína gjaldskrá slíka sölu og hún er þar enn í dag. Eins og flest annað hjá Landsvirkjun er þetta heimildarákvæði, en það er í núverandi gjaldskrá. Samkv. því er raforka seld á 3.8 aura kwst., sem er mjög sambærilegt eða var a. m. k. til skamms tíma sambærilegt verð og Grundartangaverksmiðjan kaupir á sína ótryggðu raforku. Þó að þeir samningar séu það flóknir að ekki sé hægt að bera það saman upp á eyri, þá var þetta á sínum tíma mjög sambærilegt. Þetta er miðað við Reykjavíkursvæðið og miðað við 130 kílóvolta spennu. Ef spennan er lægri en 130 kv. bætast 7% við. Ef hún er hærri, t. d. 220 kv., dragast 5% frá. Á svæði 2, þ. e. Þjórsársvæðinu, er 10% afsláttur frá þessu. Flutningskostnaður verður alltaf verulegur af svona mikilli raforku. Bæði kostar línan sitt og tapið verður talsvert mikið. Þannig selur t. d. Landsvirkjun núna til Akureyrar talsvert af ótryggðri raforku og þangað komin kostar hún 10.4 aura kwst. Til samanburðar er almennt verð núna til beinnar rafhitunar hjá rafveitum einhvers staðar nálægt 30 aurum kwst., þannig að það er hægt að fara þessa leið og er sjálfsagt fyrir þau sveitarfélög, sem hafa ekki beinan aðgang að jarðvarma, að gera þetta. Í reynd kostar þetta ekki miklu meira, í rekstri alla vega, heldur en hitaveitur.

Ég er sammála hv. þm. Alexander Stefánssyni um að það er hægt að finna ýmsar aðrar leiðir til þess að leiðrétta það ranglæti sem við erum að tala um. En mér finnst ekki að við eigum að neita alfarið þeim tillögum, sem fram koma, á þeim grundvelli að þær leysa ekki allan vandann strax og fyrir alla. Við Alþfl.-menn höfum verið með tillögur sem mundu leysa þennan sama vanda fyrir tekjulága fólkið, sem er tekjuskattslaust og útsvarslaust, þ. e. í gegnum útborganlegan neikvæðan tekjuskatt. Tryggingakerfið er líka hægt að nota. Og ég skal líka lýsa því yfir, að við Alþfl.-menn munum fylgja öllum viðráðanlegum og skynsamlegum tillögum frá framsóknarmönnum til að leysa þetta mál. Satt að segja gætum við vel hugsað okkur að fylgja þeim tillögum sem framsóknarmenn hafa sett fram í þeim efnahagsvanda sem nú er við að glíma og við höfum séð í blöðum og heyrt um og eru miklu skynsamlegri en sú leið sem nú virðist vera farin. Við erum sammála framsóknarmönnum í mjög mörgum atriðum, mikið af þessu er svipað og okkar tillögur frá því fyrir tveimur árum eða svo og er um margt miklu skynsamlegra en þær leiðir sem hæstv. ríkisstj. orðið sammála um að fara.