01.02.1982
Neðri deild: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

169. mál, loftferðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 273 flyt ég frv. til 1. um breytingu á lögum nr. 34 frá 21. maí 1964, um loftferðir. Brtt. varða annars vegar eignarnámsheimild 64. gr. laganna, en hins vegar heimild til ráðh. vegna leyfisveitingar til loftferðastarfsemi, sbr. 82. gr. laganna. Núgildandi 64. gr. laganna hljóðar svo:

„Rétt er að framkvæma eignarnám samkv. lögum nr. 61 frá 1917 vegna gerðar flugvallar eða annars flugvirkis, vegna stækkunar, endurbóta eða viðhalds slíks virkis í þágu loftferða, enda telji flugmálaráðherra að mannvirkjagerðin sé frá almennu sjónarmiði æskileg.

Eins og segir í athugasemdum við frv. virðist eignarnámsheimild 64. gr. laganna takmarkast við það, að einhvers konar mannvirkisgerð sé tilefni þess, að eignarnám sé talið nauðsynlegt. Hins vegar er ljóst að þær aðstæður geta skapast, að rétt sé og nauðsynlegt að taka fasteignarréttindi eignarnámi, jafnvel þótt slíku sé ekki til að dreifa. Má hér minna á hin margvíslegu áhrif, bein eða óbein, sem notkun flugvallar getur haft á næsta umhverfi, áhrif sem takmarkað geta svo notkun fasteigna, að fullkomin eignaupptaka sé æskileg, en kvöð sú eða forræðisskerðing, sem 69. gr. laganna heimilar, sé þá ekki til staðar. Einnig er ljóst að ekki er alltaf hægt að sjá fyrir við byggingu flugvirkis hvaða fasteignarréttindi verði að taka eignarnámi.

Þetta er m. a. sagt með tilvísun til þess lands sem er í kringum Keflavíkurflugvöll og er þar innan girðingar og hefur verið talið nauðsynlegt að hafa innan girðingar. Fyrst eftir byggingu flugvallarins var gert ráð fyrir að þar gætu orðið viss beitarréttindi sem síðan hafa fallið niður og landið ekki lengur notað til beitar. Fyrir það hefur verið greidd lítilfjörleg leiga. Eðlilegra væri tvímælalaust fyrir alla aðila að land þetta yrði tekið eignarnámi, en talið er vafasamt að greinin, eins og hún hljóðar nú, heimili það.

Af þessum almennu sökum er lagt til að sú breyting verði gerð á 64. gr. laganna, að rekstur flugvallar eða annars flugvirkis geti réttlætt og heimilað eignarnám á fasteignarréttindum, rétt eins og við mannvirkjagerð á eða við flugvöll.

Með 2. gr. frv. er lagt til að bætt verði nýrri málsgr. við 82. gr. laganna sem er samhljóða núverandi 3. gr. laga nr. 119 28. des. 1950, um stjórn flugmála, er heimilar ráðh. að setja reglur um flugferðir innlendra flugfélaga og — ef ástæður eru til — að veita sérleyfi til áætlunarferða á ákveðnum leiðum innanlands og utan. Eftir setningu laganna frá 1964 er eðlilegra að þetta ákvæði, sem nú er í lögunum frá 1950, verði flutt yfir í þessi nýju lög frá 1964 og þá sett í tengsl við VII. kafla þeirra laga sem fjallar um leyfi til loftflutninga. Hér er m. ö. o. lagt til að þetta ákvæði, sem þegar er í lögum, verði til samræmingar flutt í lögin frá 1964 og fellt inn í 82. gr. þeirra sem ný málsgr. Jafnframt er að sjálfsögðu lagt til að 3. gr. laganna frá 1950 verði felld niður.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni þessa frv. Ég hygg að lagagreinarnar séu skýrar og ástæður til breytingarinnar liggi ljósar fyrir. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað að lokinni umr. til 2. umr. og hv. samgn.