02.02.1982
Neðri deild: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

182. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um einfaldar breytingar á tollskrá, um að lækka toll á nokkrum algengum heimilistækjum, og ætti því ekki að þurfa mikillar umr. við, því að allir eru sammála því að það sé mjög æskilegt að lækka toll á þessum heimilistækjum. Það er mjög mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga í dag og samkomulag um það hér á Alþingi að svo muni verða. Þess vegna er nauðsynlegt að málið geti náð fram að ganga hér í deild um hádegi. Skal ég því ekki eyða miklum tíma til að rekja það.

Þau áhrif sem verða á framfærsluvísitölu vegna þessarar tollalækkunar eru 0.22%. Það er óvefengd venja, að slík breyting sem þessi hefur áhrif á þá framfærsluvísitölu sem verið er að reikna út þessa dagana. Gert er ráð fyrir að þessi tollalækkun hafi bein áhrif á þá framfærsluvísitölu sem nemur 0.22%.

Fjh.- og viðskn. flytur brtt. þess efnis, að tollur af varahlutum verði samræmdur tolli af þessum tækjum, þ. e. hann verði 40% í stað 50% áður, en tollur af varahlutum var nokkru lægri en af tækjunum. Þá gerir nefndin einnig ráð fyrir því, að vörugjald á þessum vörum verði samræmt, en til þess þarf ekki lagabreytingu heldur er mögulegt að gera slíkt með reglugerð. Tekjutap ríkissjóðs af slíkri breytingu, þ. e. lækkun tolls af varahlutum, er mjög lítið. Hefur verið talað um 200–300 þús. kr. í því sambandi.

Það liggja einnig fyrir aðrar tillögur um breytingu á tollskránni. Við, sem skipum 1. minni hl. n., leggjum ekki til að þær breytingar verði samþykktar. Hér er eingöngu um að ræða breytingar tolls á heimilistækjum. Hitt er svo annað mál, að það eru margvíslegar aðrar breytingar á tollskránni hér til meðferðar, komu fram hér á Alþingi fyrir áramót og þurfa að ná fram að ganga í framtíðinni og einhverjar á næstunni.

Ég vil aðeins geta þess, að upplýst var í nefndinni að sú brtt., sem hv. þm. Halldór Blöndal flytur hér, mundi leiða til 22 millj. kr. tekjutaps fyrir ríkissjóð. Ég hef fengið upplýsingar um það nú í morgun, að brtt. hans muni þýða um 18.8 millj. kr. tekjutap, en ekki 22 millj. eins og fram kom í nefndinni í gær, og vil ég koma þeirri leiðréttingu hér á framfæri.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta annars einfalda mál og vil aðeins endurtaka það, að 1. minni hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu er fram kemur í brtt. á þskj. 299 frá fjh.- og viðskn.