02.02.1982
Efri deild: 37. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

182. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og fram kom í umr. hér á Alþingi s. l. fimmtudag er það einn meginþátturinn í efnahagsaðgerðum ríkisstj., sem nú eru að koma til framkvæmda, að verðlag sé fært niður með sérstökum aðgerðum. Þessar aðgerðir munu í heild kosta um 350 millj. kr., þ. e. þessar niðurfærsluaðgerðir, en þar til viðbótar er svo tilfærsla á skattlagningu, sem varðar launaskatt, stimpilgjöld og tollafgreiðslugjald. Fjár til þessarar niðurfærslu verðlags er þannig aflað að um 120 millj. eru fengnar með lækkun útgjalda á fjárl., 40 millj. eru fengnar með sérstökum skatti á banka, en um 190 millj. eru teknar úr fjárlagadæminu sjálfu eins og það liggur nú fyrir. Samtals eru þetta 350 millj.

Nú þegar hafa verið teknar ákvarðanir um ráðstöfun á rúmlega helmingi þessa fjár eða um 187 millj. Þær ráðstafanir eru í því fólgnar, að niðurgreiðslur eru auknar nú þessa dagana sem nemur útgjaldaauka fyrir ríkissjóð upp á 165 millj. og framkvæmd er ákveðin tollalækkun upp á 22 millj., eða samtals 187 millj.

Það er einmitt seinast talda aðgerð, tollalækkunin, sem felst í því frv. sem hér er til umr. Tollar eru lækkaðir á allmörgum rafmagnsheimilistækjum sem nú eru talin nauðsynleg í heimilishaldi hverrar fjölskyldu.

Þess misskilnings hefur gætt í umr. um þetta mál, að einungis sé verið að lækka tolla á nokkrum heimilistækjum sem eru í vísitölunni, þ. e. mælast í þeirri vísitölumælingu sem fram fer á næstu dögum. Það er rétt að benda á að hér er í fyrsta lagi um að ræða kæliskápa, þvottavélar, hrærivélar og ryksugur og vissulega eru þessi fjögur tæki öll í vísitölu, en auk þess er um að ræða frystikistur, eldhúsviftur, uppþvottavélar, þurrkara, strauvélar, viftur og brauðristar, en þessar síðast töldu vörur eru ekki í vísitölunni og tollalækkunin er því ekki tengd vísitölumálunum hvað þau heimilistæki snertir.

Við meðferð málsins í Nd. var samþykkt tillaga sem hv. þm. Albert Guðmundsson bar fram, þess efnis, að tollar séu einnig lækkaðir á varahlutum til þessara heimilistækja. Það virðist mjög eðlileg og sjálfsögð ábending að ekki sé um að ræða hærri tolla á varahlutum til þessara tækja en á tækjunum sjálfum. Var því sjálfsagt mál að fallast á þessa ábendingu og taka varahlutatollnúmerin inn í þessa lagabreytingu. Ég vil taka það fram, að ráðstafanir verða gerðar til að lækka þá einnig vörugjald af varahlutum í þessi tæki að því marki sem vörugjald hefur verið fellt niður af þessum tækjum, en það gildir um sum þessi tæki, en ekki öll. Að öðru leyti eru ekki fyrirhugaðar breytingar á vörugjaldi.

Eins og fram kemur í aths. með frv. er gert ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga geti numið um 22 millj. kr.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.