02.02.1982
Efri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

182. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur haft þetta frv. til athugunar í 20 mínútur milli 1. og 2. umr. Eins og fram hefur komið í umr. í báðum deildum er þetta frv. fyrst og fremst flutt til að lækka framfærsluvísitölu um 0.22%. Þetta er því liður í áframhaldandi vísitöluleik, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið í að undanförnu og raunar frá því að hún komst til valda. Það er þó kannske einn ljóður á þessu ráði hæstv. ríkisstj., að það mun vera mjög í járnum að vísitöluleikur hennar heppnist þar sem þarf að staðreyna að lækkunin hafi átt sér stað í þessari viku. Ef dregst fram yfir þessa viku að þessi heimilistæki lækki í verði mælist ekki lækkunin í vísitölunni 1. febr., sem er raunar liðinn, svo gegnsær er þessi leikur. En þrátt fyrir þetta teljum við fulltrúar Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. hér vera stigið spor í rétta átt. Hér er verið að slaka örlítið á þeirri gífurlegu skattahækkun sem ríkisstj. hefur staðið að að undanförnu. Hér er um mjög takmarkaða tilslökun að ræða, eins og fram hefur komið í þessum umr., en þrátt fyrir það spor í rétta átt.

Í hv. Nd. flutti hv. þm. Halldór Blöndal brtt. um lækkun gjalda á hljóðfærum og hljómplötum. Við teljum að það sé tilgangslaust að flytja þá brtt. í þessari hv. deild þar sem stjórnarliðið virðist hafa snúist öndvert gegn henni, en hæstv. fjmrh. hefur æ ofan í æ látið í það skína og raunar lýst yfir að hann vildi endurskoða þessar tollaálögur. Það hefur komið fram í sambandi við tolla á hljómplötum að þeir geti orkað tvímælis vegna samninga okkar við EFTA, en eins og kunnugt er er farið að framleiða hljómplötur og hljómbönd á Íslandi.

Þetta frv. hér, þótt lítið sé í sniðum, er hluti af þeim svokallaða þorrabakka sem hæstv. ríkisstj. hefur boðið upp á nú á síðustu dögum. Þykir ýmsum að þar kenni heldur fárra grasa, sé varla hægt að tala þar um súrmat, hvað þá annað, heldur fremur einhvers konar þorragraut. Ég skal ekki fara út í þá sálma að ræða þessi mál í heild sinni þar sem við höfum rætt um að hraða þessu máli í gegnum hv. deild. En ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi, að þær niðurgreiðslur, sem hér er stefnt í, og þessi litla tollalækkun munu kosta ríkissjóð talsvert fé á þessu ári. Ef menn hugsa sér að halda áfram, halda þessari stíflu þannig að ekki fari út í verðlagið, verða menn að halda þessu niðurgreiðslustigi á næsta ári og það mundi þýða fyrir ríkissjóð á verðlagi ársins í ár 600–700 millj. kr. Ég vek athygli á að ýmsar ríkisstjórnir hafa gert þetta sem bráðabirgðaráðstöfun, t. d. vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, hæstv. núv. utanrrh., en strax á fyrsta ári sprakk sú ríkisstj. á limminu og treysti sér ekki til að viðhalda svo gífurlegum niðurgreiðslum sem hér er stefnt í.

Verðbólgumarkmið hæstv. ríkisstj. segir hún að sé 35% á þessu ári og er þá horfin frá því verðbólgumarkmiði sem hún setti með fjárlagagerð, sem var 26–27%. Fjárlög eru rétt nýkomin út, eins og menn vita. Þetta verðbólgumarkmið mundi þýða að óbreyttu vísitölukerfi að engin grunnkaupshækkun yrði á þessu ári þrátt fyrir lausa samninga og að verðbætur á laun þyrfti að skerða um a. m. k. 10% síðari hluta ársins. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé stefna hæstv. ríkisstj. að standa þannig að málum á síðari hluta ársins. Ég vil enn fremur spyrja hann, þar sem það hefur ekki komið fram hér í umr., — hann gerði nokkra grein fyrir hluta af því dæmi ríkissjóðs, hvað stefnt er að að ríkissjóður leggi á sig í þessum niðurgreiðslum og lækkun tolla, en hann gerði ekki grein fyrir heildardæminu, — ég vil því spyrja hæstv. ráðh. hvað tekjur ríkissjóðs af tollafgreiðslugjaldi muni nema miklu á árinu, hvað skattur á banka og sparisjóði sé talinn nema miklu og lækkun stimpilgjalds og lækkun launaskatts. Það mun hafa komið óbeint fram í umr. hverjar þessar tölur séu. Enn fremur spyr ég hvað niðurgreiðslur um 3% 1. maí muni kosta ríkissjóð að mati ríkisstj. Og að síðustu, til að varpa ljósi á hvað hér er að gerast: Nú. er gert ráð fyrir að lækka tolla á heimilistækjum og fá fram með því lækkun verðbótavísitölu. Hver verða áhrifin af álagningu tollafgreiðslugjalda á vísitölu að mati hæstv. ríkisstj.? Það mun vera um álíka eða hærri upphæð að ræða, kannske miklu hærri. Ég hef ekki heyrt ákveðnar tölur um það.