02.02.1982
Efri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

182. mál, tollskrá o.fl.

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur gert grein fyrir aðstöðu okkar sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu til þessa frv., að við munum styðja það með þeim aths. sem fram hafa komið, þar sem í því felst örlítil tilslökun á þeim gífurlegu skattahækkunum sem ríkisstj. hefur staðið að. En tilefni þess, að ég kom í ræðustól, var að ég komst hér yfir bók, mikinn dýrgrip á hv. Alþingi þar sem eitt eintak mun vera til hér, fékk það lánað. Það heitir Tollskrá o. fl. Ég fór að fletta henni áðan. Mig langaði að vita hvað allar þær tölur þýddu sem eru í þessu frv., því að menn lesa það ekki beint út úr þessu nema hafa tollskrána við hliðina a. m. k. Það er eftirtektarvert að fljótlegasta leiðin til að finna heimilistæki og það sem snýr að heimilunum er að leita að hæstu tollunum. Ef varan hefur prósentutöluna 80, þá eru það helst heimilistæki eða eitthvað sem snýr að þeim, borðbúnaður og annað slíkt. Þess vegna var ég byrjuð að skrifa og ætlaði að flytja brtt., en uppgötvaði þá að það er sama brtt. og hv. 2. þm. Reykn. hefur nú þegar lagt fram. Ég vil því koma hér og lýsa stuðningi við hana og taka undir að það er löngu orðið tímabært að endurskoða frumskóg aðflutningsgjalda og fella niður lúxustolla af almennri nauðsynjavöru.