02.02.1982
Efri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

182. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Lárus Jónsson óskaði eftir frekari upplýsingum um tekjur og útgjöld sem snúa að þessum væntanlegu efnahagsaðgerðum. Ég gerði áðan grein fyrir heildarútgjöldum vegna niðurgreiðslna og tollalækkana og niðurfærslunnar í heild, en sú tala var 350 millj., og gerði jafnframt grein fyrir hvernig tekna vegna þeirra útgjalda væri aflað.

Ég lét þess hins vegar getið, að auk þess stæðu til nokkrar tilfærslur á sköttum, án þess að víkja frekar að því, og það er víst það atriði sem hv. þm. vill fá nánari upplýsingar um. Það er einfaldlega um það að ræða, eins og raunar hefur komið fram í tilkynningu frá ríkisstj., að stimpilgjöld eru lækkuð og tekjumissir vegna þess nemur um 20 millj. kr. Auk þess er um að ræða lækkun á launaskatti. Það er ekki fyrir hendi í dag hárnákvæm áætlun um tekjumissi vegna þessarar breytingar þar sem það er töluvert mikið verk að reikna slíkt út nákvæmlega, en við höfum gert ráð fyrir að tekjumissirinn nemi milli 30 og 35 millj. kr. Þar á móti kemur svo álagt tollafgreiðslugjald, eins og ég hef þegar sagt, en við áætlum að tekjur af því muni nema einhvers staðar á bilinu milli 50 og 60 millj. kr., þannig að tekjur og gjöld eða öllu heldur tekjumissir og tekjuauki vegna þessara aðgerða standast nokkurn veginn á. Það er því rangt, sem reynt er að halda fram í þessum umr., að það sé ætlunin að lækka tolla og það sé gert með því að afla tekna með tollahækkunum á móti. Þessi tilfærsla á sköttum, sem ég hef gert hér grein fyrir, gengur fjárhagslega séð nokkurn veginn upp. Tekjumissirinn vegna breytinga á stimpilgjöldum og á launaskatti jafnast nokkurn veginn á við tekjuauka sem fæst vegna álagningar þessa sérstaka tollafgreiðslugjalds.

Um niðurfærslu verðlags umfram það, sem ég hef þegar gefið upplýsingar um, er ekki neitt frekar að segja.

Ég lét þess getið, að kostnaður við niðurfærsluna væri um 350 millj. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir um 187 millj., þannig að hækkun niðurgreiðslna nemur 165, en tollalækkunin 22 millj. Það hafa hins vegar ekki verið teknar ákvarðanir um hvernig mismuninum á þessum tveimur tölum, 350 og 187, verði varið á komandi mánuðum í auknar niðurgreiðslur, tollalækkanir eða annað þess háttar, en þó er gert ráð fyrir að niðurgreiðsluaukning muni eiga sér stað bæði 1. mars, 1. maí og 1. júní. En það verður tilkynnt síðar hvernig því verður háttað í smærri atriðum.