02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

339. mál, örbylgjustöðvar á Skaga og í Grímsey

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 66 leyft mér að flytja þrjár fsp. varðandi örbylgjustöðvar á Skaga og í Grímsey.

Þannig standa sakir, að verið er að reisa örbylgjustöð hjá Tjörn á Skaga, og þótt framkvæmdir liggi niðri nú er gert ráð fyrir að ljúka verkinu þannig að örbylgjustöðin geti hafið starfrækslu á vori komanda. Gert hefur verið ráð fyrir að þessi örbylgjustöð verði tengd um Hnúka hjá Blönduósi og þaðan til Gufuness. Er það af þeim sökum að loftskeytasamband eða langlínusamband við Siglufjörð hefur verið ófullnægjandi.

Nú er gert ráð fyrir að setja upp í vor lítið langlínusamband við Siglufjörð á örbylgju, þannig að fyrir því ætti að vera séð að nægilegt símasamband sé á milli þessara staða til þess að af þeim sökum sé hægt að starfrækja þessa stöð á Siglufirði. Þar er nægilegur mannskapur til slíkrar starfrækslu, en menn fyrir norðan, ekki síst sjómenn, leggja mikið upp úr því, að þessi afgreiðslusvæði, sem eru Siglufjörður og þá Tjörn á Skaga og Ísafjörður, verði í sambandi hvert við annað, en þurfi ekki að fara um Gufunes. Það er sem sagt ósk manna fyrir norðan að þessu verði háttað á þann veg að þessi örbylgjustöð verði tengd við Siglufjörð, enda er þar nægur mannskapur. Af þessum sökum spyr ég, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Verður örbylgjustöð fyrir fiskibáta í Húnaflóa, sem nú er verið að reisa hjá Tjörn á Skaga, rekin og tengd við Siglufjörð?

2. Ef svo er ekki, hvaða ástæður valda því?“

Þriðja fsp. á þessu þskj., um hvort áætlanir séu uppi um endurbætur á örbylgjustöð í Grímsey, er óþörf orðin þar sem ákvörðun hefur verið tekin um að þær endurbætur fari fram.