02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

339. mál, örbylgjustöðvar á Skaga og í Grímsey

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Svör við þessum spurningum eru sem nú skal rakið: Örbylgjustöðin á Vestur-Núpi við Húnaflóann verður tengd Siglufirði. Hins vegar er ekki nægur línufjöldi þar á milli núna og því verður það eingöngu til bráðabirgða að henni verður stjórnað frá Gufunesi. Ég geri ráð fyrir að það verði ekki nema í mesta lagi þetta ár og jafnvel ekki það allt. Þessu tengist fyrirhugað sentimetrakerfi, sem á að bæta öll fjarskipti á milli Vestur-Núps og Grímseyjar og Siglufjarðar, sem verður og er verið að setja upp í tengslum við þessa framkvæmd á Vestur-Núpi, og um leið og það er tilbúið verður stjórnunin flutt frá Gufunesi til Siglufjarðar.

Í raun og veru felst í þessu einnig svar við síðustu spurningunni, um endurbætur á örbylgjustöð í Grímsey. VHF-kerfi hefur þjónað þessu svæði alllengi. En það er eyða á milli þessa svæðis og þess sem stöðin á Þverfjalli við Ísafjarðardjúp nær til, sem verður fyllt með þessari stöð á Vestur-Núpi. Jafnframt því sentimetrakerfi, sem ég nefndi áðan, verður bætt mjög samband Grímseyjar við Siglufjarðar-radíó, þannig að svið Siglufjarðar-radíós verður með þessu aukið mjög verulega.

Þetta hygg ég að séu nú svör við þessum spurningum. En af því að ég veit að ýmsum hér leikur forvitni á að vita hvað þessum framkvæmdum liður skal ég fara örfáum orðum um það.

Í fjárhagsáætlun Pósts og síma fyrir árið 1981 óskaði ég eftir að gerð yrði áætlun yfir að ljúka uppsetningu þessa örbylgjukerfis, sem samkv. lögum á að ná yfir fiskimiðin allt í kringum landið. Í þessu kerfi eru núna einkum tvær eyður, önnur á Húnaflóa og hin á suðurhluta Austfjarða, og lítil eyða, en þó, út af Vopnafirði. Auk þess munu vera átta innsiglingar þar sem bæta þarf slíkt kerfi. Loks má nefna að Póstur og sími telur ákaflega mikilvægt að endurbætur verði gerðar á Gufunesstöðinni þar sem tæki eru orðin gömul og úr sér gengin. Samtals nam þessi áætlun, ef ég man rétt, í lok ársins 1980 5.8 millj. kr. eða tæplega 600 millj. gkr., eins og þá var reiknað. Þessi áætlun var skorin niður um það bil um helming í meðferð á fjárhagsáætlun Pósts og síma hér á hinu háa Alþingi, en með tilliti til þess, hve ég taldi mikilvægt að loka þessum eyðum, gaf ég Pósti og síma engu að síður fyrirmæli um að láta þetta verk ganga fyrir. Jafnframt var ljóst að unnt mundi verða að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum á Austfjörðum samfara því örbylgjukerfi sem þar er verið að leggja í tengslum við háspennulínu, þ. e. svokallaða Austurlínu. Var þá ákveðið að láta heldur aðra þætti bíða, eins og endurnýjun á Gufunesi, og í þetta var gengið, en framkvæmdahraði takmarkaðist fyrst og fremst af afgreiðslutíma tækja. Stóð þannig s. l. haust að hús og undirstöður og allt slíkt var tilbúið. Hins vegar er eftir að reisa mastur.

Staurar eru komnir fyrir raflínu, en það er eftir að ganga frá raflínunni sjálfri og ekki talið fært að ráðast í það verk nú í vetur. Eins og ég sagði takmarkast þessi framkvæmd einnig að nokkru leyti af afgreiðslutíma tækja. Þessu á hins vegar öllu að ljúka nú í vor og verður þá stöðinni til að byrja með, eins og ég sagði í upphafi, stjórnað frá Gufunesi, en flutt á Siglufjörð um leið og fyrirhugað sentimetrakerfi er orðið tengt.