27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

25. mál, afkoma iðnfyrirtækja í eigu ríkisins

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. iðnrh. á þskj. 25 um afkomu iðnfyrirtækja í eigu ríkisins. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver er áætluð rekstrarafkoma neðangreindra fyrirtækja á árinu 1981, sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkissjóðs og opinberra aðila:

1. Járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.

2. Álafoss hf.

3. Kísiliðjunnar við Mývatn.

4. Sementsverksmiðju ríkisins.

5. Siglósíldar.

6. Norðurstjörnunnar í Hafnarfirði?

Ef taprekstur er fyrirsjáanlegur hjá þessum fyrirtækjum, hvernig verður hann fjármagnaður?“

Ástæðan fyrir þessari fsp. er ofureinföld. Eins og hv. þm. vita hefur atvinnumál borið hátt í umr. að undanförnu, ekki síst stöðu iðnaðarins í landinu, sem flestir mæna til sem þeirrar atvinnugreinar sem þurfi á næstu árum og áratugum að vera burðarás í íslensku atvinnulífi meir en áður við hliðina á okkar undirstöðuatvinnugreinum: sjávarútvegi og landbúnaði. Fréttir hafa borist um bága afkomu þessara fyrirtækja. Það er auðvitað ljóst að þar koma til ýmsar ástæður. Ein sú veigamesta er að sjálfsögðu atvinnustefna ríkisstj. En auk þess hafa þar komið til ýmis önnur atriði. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa sálma. Það verður fróðlegt fyrir þingheim og þjóðina að fá yfirlit yfir þetta, hvernig horfir um rekstur þessara fyrirtækja, sem eru í eigu ríkisins, og ætti að gefa nokkra spegilmynd af stöðu annarra atvinnufyrirtækja í landinu.