02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda hlý orð í minn garð og ætla að reyna að verða við því að svara, veita honum nokkra úrlausn við fsp. hans varðandi raforkuverð til fjarvarmaveitna.

Snæfellsnes er á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins sem kunnugt er, og þær hafa haft forgöngu um athugun á húshitunarmálum á sínu veitusvæði. Reyndar hafa þær athuganir verið þáttur í könnun á húshitunarmöguleikum fyrir þéttbýlisstaði á landinu í heild og um þetta verið nokkur samvinna við Landsvirkjun sem væntanlegan söluaðila m. a. raforku inn á veitusvæði Rafmagnsveitnanna. Svar Rafmagnsveitnanna, sem ég leitaði eftir frá þeim þegar þessi fsp. barst er þannig:

Rafmagnsveitur ríkisins hafa nú tekið í rekstur tvær kyndistöðvar fyrir fjarvarmaveitur, þ. e. á Höfn í Hornafirði og á Seyðisfirði, hugmyndir hafa einnig verið uppi um að reisa slíkar stöðvar á nokkrum stöðum til viðbótar og hefur þá einna helst komið til álita að reisa þær í Neskaupstað, Stykkishólmi, Ólafsvík og Grundarfirði, en þeir staðir komu einna best út í samanburðarathugun sem Rafmagnsveiturnar stóðu fyrir á árunum 1977–1979. Að fenginni reynslu af áðurnefndum tveimur kyndistöðvum svo og úttekt á afkomu þeirra, sem framkvæmd var haustið 1980 og aftur haustið 1981, telja Rafmagnsveitur ríkisins ekki fjárhagslegan grundvöll fyrir því að sinni að ráðast í fleiri kyndistöðvar fyrir tilheyrandi fjarvarmaveitur. Með kostnaðarréttri verðlagningu á orku frá slíkri fjarvarmaveitu mun hitunarkostnaður notenda verða mun hærri en hægt er að bjóða með beinni rafhitun.

Eitt af þeim atriðum, sem hafa hér áhrif, er hið slæma ástand á orkuöflunarkerfi landsmanna sem verið hefur á undanförnum tveimur vetrum. Ef hér er um viðvarandi ástand að ræða er ljóst að mun minni afgangsorka verður til staðar en gert var ráð fyrir í áætlunum 1980 og síðari áætlanir byggja á. Mun það hafa áhrif til hins verra gagnvart fjárhagslegri afkomu kyndistöðva fjarvarmaveitna. Annað er, segja Rafmagnsveiturnar í sinni umsögn, að byggingarkostnaður kyndistöðva á Höfn og Seyðisfirði hefur reynst meiri en áætlanir ráðgjafa gerðu ráð fyrir.

Að öðru leyti vísa Rafmagnsveiturnar til bréfa frá haustinu 1980, frá 14. okt. og 4. nóv. 1980, um sama efni, en í bréfi þeirra 4. nóv. 1980 segir m. a. um fjarvarmaveitur:

„Á fundi stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins 30. nóv. s. l. var lagt fram bréf frá bæjarstjóranum í Neskaupstað þar sem óskað er svars við því, hvort Rafmagnsveiturnar séu tilbúnar að gera samhljóða samning við Neskaupstað um orkuverð til fjarvarmaveitu og gerður var við Höfn í Hornafirði og við Seyðisfjörð nú í október þ. e. 1980. Eftirfarandi bókun var samþykkt en jafnframt var samþykkt að iðnrn. yrði kynnt bókunin áður en bæjarstjóranum yrði svarað:

„Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins vísar til samþykktar sinnar frá síðasta fundi, sem haldinn var 9. okt. s. l., um að gjaldskrá fyrir fjarvarmaveitur einstakra sveitarfélaga miðist við að hagsmunir rafmagnsveitna séu tryggðir. Gjaldskrá þeirra fjarvarmaveitna, sem þegar hafa tekið til starfa, munu ekki fullnægja þessu meginsjónarmiði, enda eru þær stofnsettar við aðrar aðstæður en nú ríkja og má auk þess líta á þær að nokkru sem tilraunafyrirtæki. Á þessum forsendum treystir stjórn Rafmagnsveitna ríkisins sér ekki til að leggja til byggingu nýrra kyndistöðva R/O-veitna.“

Þetta var úr bréfi Rafmagnsveitna frá 4. 1 1. 1980 um þetta efni.

Frá s. l. hausti hafa þessi mál verið til frekari meðferðar hjá Rafmagnsveitunum og hefur verið haft samráð við sveitarfélög á Snæfellsnesi, ég hygg fyrir milligöngu þm. að einhverju leyti, um að fara ofan í húshitunarmál þeirra í ljósi þeirrar stöðu, sem nú liggur fyrir. Fundur mun hafa verið ráðgerður í byrjun febr., en hefur nýlega verið frestað um mánaðartíma, að ég hygg, en þá er fyrirhugað að sameiginlegur fundur verði með þessum aðilum.

Það er nokkuð ljóst af þessu, að Rafmagnsveiturnar telja ekki forsendur fyrir því, eins og málum er háttað, og þá ekki síst með tilliti til þeirrar takmörkuðu afgangsorku sem er að hafa í raforkukerfi landsmanna nú, þrátt fyrir tilkomu nýrrar virkjunar á síðustu mánuðum, að mæla með því, að ráðist verði í fjarvarmaveitur á fleiri þéttbýlisstöðum a. m. k. um sinn. Þetta er svar sem ég veit að mun valda ýmsum aðilum vonbrigðum að heyra. En eðlilegt er að Rafmagnsveiturnar gefi því auga, að rétt og skylt er að ekki sé um orkusölu að ræða undir framleiðslukostnaði nema tryggt sé að komið sé þá til móts við það með öðrum hætti, enda benda þær í svari sínu á að bein rafhitun sé hagkvæmari kostur fjárhagslega en fjarvarmaveitur í þessu tilviki. Þá er eftir fyrir sveitarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi að átta sig á því, hvort þau vilja leysa sín mál með vatnshitunarkerfum m. a. í von um að vinnanlegur og nýtanlegur jarðvarmi fáist þar, þó fullkomin óvissa sé um það nú og það sé spurning, sem ekki hefur verið svarað, hvort og hvenær slíkur jarðhiti fengist.

Það hefur verið vakin athygli sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi á því, að það sé algerri óvissu háð hvort hægt sé að fá þar nýtanlegan jarðvarma með borunum, en þar var borað á s. l. sumri, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Í ljós kom hár hitastigull, en ekki fengust vatnsgæfar holur við þá borun. E. t. v. geta bætt tækni við jarðboranir og frekari rannsóknir gefið jákvæðari niðurstöður í framtíðinni, en full ástæða er til að vera ekki of bjartsýnn í þeim efnum. Við höfum því miður nokkuð dapra reynslu frá svokölluðum jaðarsvæðum varðandi jarðvarma, þar sem menn hafa ráðist í varmaveitur með tiltölulega lágu hitastigi og óvissu um þróun mála og þær veitur eiga nú við verulega fjárhagslega örðugleika að stríða.

Ég vænti þess, að það samráð, sem Rafmagnsveiturnar hafa þegar haft og ætla að hafa á næstu vikum við sveitarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi, verði til þess að skýra þetta mál fyrir byggðarlögin. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að á því er mikil þörf. Meginspurningin fyrir þessi byggðarlög er auðvitað sú: Eiga þau að ráðast í vatnskerfi til húshitunar eða eiga þau að stefna að beinni rafhitun?