02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er mál á ferð sem er mikið vandamál og varðar miklu fyrir ekki aðeins svæðin á Snæfellsnesi, sem ekki eiga kost á hitaveitu, heldur önnur svæði á landinu sem líkt er ástatt með, svo sem á Vestfjörðum og Austurlandi.

Umr. um þessi mál hafa tekið nokkur ár á Snæfellsnesi. Sveitarfélögin hafa látið vinna mikið í undirbúningi að fjarvarmaveitum, bæði í Ólafsvík og Stykkishólmi sérstaklega, og hafa fullunna áætlun um fjarvarmaveitu. Það eru því mikil vonbrigði þegar fyrir liggur að ekki er hægt að fá jákvæðar undirtektir við að orkuverð frá þeirri kyndistöð, sem Rafmagnsveiturnar mundu setja upp, væri viðunandi fyrir notendur. Sömuleiðis hefur það valdið vonbrigðum, að jarðhitaleitin á þessu svæði hefur tekið miklu lengri tíma en reiknað var með og liggur nú fyrir að engin vissa er fyrir því, að sú leit haldi áfram, né um horfur.

Fyrir nokkrum dögum héldu þm. Vesturlands fund með forustumönnum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar og ræddu þessi mál og fengu þar þessa skýrslu, sem hér hefur verið minnst á. Það er sannast sagna, að það, sem okkur finnst aðalatriðið, er að það verði tryggt að fólk á þessu svæði fái leyfi til rafmagnshitunar, hvort sem það er bein hitun eða túpuhitun, — tryggt verði öryggi í því að rafmagnsflutningurinn sé í lagi og næg raforka fyrir hendi og enn fremur að Rafmagnsveitur ríkisins sjái um að unnið verði að innanbæjarkerfinu, sem þarf þá að vera í lagi til að taka inntök í húsin.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að bæta meira við. Fólkið á þessu svæði er tilbúið að taka upp rafmagnshitun í stað olíu og það hefur verið s. l. tvö, þrjú ár eingöngu tekin túpuhitun, þ. e. vatnshiti, og hefur verið stefnt að því á þessu svæði að hita húsin á þann hátt með von um að betri tíð komi síðar, annaðhvort með fjarvarmaveitu eða þá með jarðhita, ef hann finnst. En aðalatriðið er það, að við þurfum að fá umræður og við þurfum að fá aðgerðir sem miða að því, að fólk á þessu svæði fái orkujöfnun þannig að það þurfi ekki að borga mörgum sinnum hærra verð fyrir rafmagn en gerist á þeim svæðum sem búa við hitaveitu.