02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég varð fyrir nokkuð miklum vonbrigðum þegar ég heyrði svar hæstv. iðnrh., því að bein rafhitun hlýtur að verða óhagkvæm nema bara í dreifbýli, þ. e. fyrir sveitabæi og einstök hús. Aftur á móti er fjarhitun, sem byggir á ótryggðri raforku og svartolíukyndingu til vara, þjóðhagslega mjög hagkvæm. Við skoðuðum þetta mál mjög vel í Vestmannaeyjum veturinn 1973–1974 og það er mjög hagkvæmt. Hitt er svo sjálfsagt rétt, sem kom fram í svari hans og máli manna hér, að vatnsbúskapurinn er eins og er lélegur. Það hafa verið léleg vatnsár nú seinustu 2–3 árin, en það verður ekki til lengdar. Í fyrsta lagi býst ég við að það fari að rigna meira og í öðru lagi að vatnaveiturnar, sem nú eru þegar fyrirhugaðar á Suðurlandi og verið er að vinna að á Þjórsársvæðinu, muni gerbreyta þessu á 2–3 árum. Þessi möguleiki verður því til og það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að stefna að þessu. Satt að segja skil ég ekki hvernig stendur á því, að Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun skuli ekki horfa svolítið lengra fram í tímann.