02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

349. mál, afstaða til atburða í El Salvador

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér er spurt hver sé afstaða íslensku ríkisstj. til ástandsins í El Salvador. Mér þykir rétt að fram komi á ótvíræðan hátt hver afstaða ríkisstj. er í þessu máli. Stjórnir fjölmargra annarra ríkja hafa lýst afstöðu sinni.

Það má fullyrða að núverandi ríkisstjórn í El Salvador sé eingöngu við völd fyrir stuðning Bandaríkjastjórnar. Landið hlaut milljónir dollara á síðasta ári í efnahags- og hernaðarstuðning frá Bandaríkjunum. Fjöldi ábyrgra ríkisstjórna víða um heim hefur reynt að hafa áhrif'á stjórnvöld í Bandaríkjunum og fá þau til að breyta stefnu sinni í þessum heimshluta. Spyrja má: Hvað um okkur í þessum efnum?

Alþjóðasamband jafnaðarmanna hefur ítrekað vakið athygli á þessu ástandi, og í því sambandi er rétt að benda sérstaklega á yfirlýsingu utanrrh. Mexíkó og Frakklands, þar sem fram kemur ótvíræður stuðningur við frelsisöflin í El Salvador. Vill ríkisstj. t. d. taka undir þessa yfirlýsingu?

Ég vil fullyrða að stjórnin í El Salvador beri ábyrgð á einhverjum mestu fjöldamorðum síðari ára. Vera má að einhverjum þyki fjöldamorð vera stórt orð, en staðreyndirnar eru þessar. Samkvæmt heimildum frá fulltrúum kirkju- og mannréttindasamtaka hafa tugþúsundir manna verið myrtar á kerfisbundinn hátt í landinu á síðustu tveimur árum. Frá 15. okt. 1979 til ársloka 1980 hefur mannréttindanefndin í El Salvador skráð 34 123 morð í landinu. Mannréttindasamtök og kirkjuleiðtogar halda því fram, að langflest þessara morða séu framin af dauðasveitum og öryggissveitum stjórnvalda. Það hefur verið sýnt fram á tengsl milli herforingjastjórnarinnar í landinu og ýmissa hópa hægri öfgamanna sem vinna þessi óhæfuverk. Fórnarlömbin eru oft óbreyttir borgarar. Ógn á hendur almenningi í landinu og handahófskennd morð á saklausu fólki eru skipulögð til að hræða og vekja ótta meðal hugsanlegra stjórnarandstæðinga, en niður í þeim er vitaskuld þaggað með því að myrða þá eða láta þá hverfa.

Ed Broadbent, þingmaður á Kanadaþingi, hefur kynnt sér málefni El Salvadors sérstaklega. Hann lýsir ástandinu þannig:

„El Salvador hefur alla tíð verið stjórnað af hinum ríku fyrir hina ríku á kostnað bænda og verkamanna, sem mynda þó mikinn meiri hluta þjóðarinnar. Þeir búa við örgustu fátækt og pólitískt vonleysi. Hin fámenna og auðuga yfirstétt landsins hefur beitt hernum til að viðhalda þessu óréttlæti og útrýma öllu raunverulegu lýðræði. Þessari pólitísku kúgun hefur verið fylgt eftir með hrikalegum ofbeldisverkum.“

Hann segir líka að hvorugur deiluaðila geti vænst þess að vinna fullan hernaðarsigur í átökunum sem nú eiga sér stað. Þeir verði að semja um pólitíska lausn vandans. Og það að semja um pólitíska lausn vandans er auðvitað kjarni málsins. Hins vegar kemur fram hjá Broadbent að æðstu herforingjar landsins séu því algjörlega andvígir að semja við stjórnarandstöðuna, þeir vilji láta vopnin tala. Stjórnarandstaðan hefur á hinn bóginn lýst sig fylgjandi pólitísku samkomulagi. Ætti ekki að láta reyna á það? Það tel ég. Hver er afstaða ríkisstj. í þeim efnum?

Talið er að um hálf milljón þjóðarinnar í El Salvador sé nú landflótta. Þetta er tíundi hver landsmaður. Og eins og ég sagði: yfir 34 þúsund manns hafa verið myrt frá haustdögum 1979. Það er talið að tugir manna séu pyntaðir og drepnir á degi hverjum eins og sakir standa. Á þessum lista yfir þá, sem láta lífið, má m. a. s. finna fjölda barna.

Er fulltrúar mannréttindanefndar El Salvador voru hér á ferð á vegum Alþfl. í des. s. l. áttu þeir m. a. fundi með hæstv. forsrh. Gunnari Thoroddsen og hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni. Forsrh. mun hafa tekið undir kröfu nefndarinnar um sjálfsögð mannréttindi og utanrrh. látið í ljós þá skoðun, að Íslendingar væru andvígir hvers konar öfgamönnum og öfgastefnum. Ég vil segja: Varla er til meiri öfgastefna en sú að halda uppi ógnarstjórn eins og þeirri sem ég hef hér lýst í fáum dráttum.

Spurningin er þessi: Eigum við Íslendingar að standa hjá og lýsa ekki skoðunum okkar á alþjóðavettvangi í þessu máli eða eigum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar? Síðustu fregnir herma að enn færist ógnarstjórnin í aukana. Um miðjan janúar höfðu á fjórða hundrað manns fallið í landinu frá áramótum. Sendinefnd írska þingsins, sem vildi kynnast málum af eigin raun, var hinn 8. jan. s. l. vísað úr landinu. Túlkurinn var handtekinn og sendur til Mexíkó, en nefndin var send til Nicaragua. Hvað máttu Írarnir ekki sjá?

Það er engin tilviljun að samlíkingin við Víetnam heyrist nú æ oftar nefnd í sambandi við þessa atburði. Það birtist í fréttum nú seinustu tvo dagana að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að veita El Salvador-stjórn 65 millj. dollara í aðstoð, þar af 55 millj. í hernaðaraðstoð. Þessi hernaðaraðstoð Bandaríkjanna er ekki einasta hryggileg, hún er beinlínis forkastanleg. Enginn stjórnmálaflokkur í El Salvador vill lengur kannast við eða bera ábyrgð á stjórn Napoleons Durantes. Hann hefur á bak við sig örlítið brot kristilegra demókrata. Allir aðrir stjórnmálaleiðtogar landsins hafa gengið í lið með stjórnarandstöðunni. Við þessar aðstæður er talað um að halda frjálsar kosningar. Allir sjá að kosningar við þessar aðstæður yrðu skrípaleikur, meðmælendalistar yrðu jafnskjótt að aftökulistum. Stjórnmálaleiðtogar koma ekki úr felum við þessar aðstæður.

Saga liðinna ára sýnir að það getur reynst stórveldum erfitt að leggja jafnvel smæstu þjóðir heims að fótum sér. Ógnarstjórn og þjáningum verður að linna í þessu landi. Hernaðarleg lausn er ekki til, einungis pólitísk og félagsleg lausn. Í þá veru gætu Íslendingar beitt áhrifum sínum gagnvart Bandaríkjastjórn.

Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. geti veitt skýr svör við þessari einföldu spurningu minni. Ég tel mikilsvert að ríkisstjórn Íslands hafi skýra stefnu í þessu máli og beiti sér í því á alþjóðavettvangi.