02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

349. mál, afstaða til atburða í El Salvador

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka formanni Alþfl., Kjartani Jóhannssyni, 2. þm. Reykn., fyrir að flytja þetta mál inn í þingsalina. Alþingi Íslendinga hefur of lítið látið til sín taka í umræðum um hörmungarástand sem ríkir í ýmsum ríkjum víða um heim. Þegar svo er komið, eins og þróunin hefur orðið í El Salvador, að það er miskunnarlaust verið að myrða stóran hluta þjóðar og leiða hörmungar yfir þá, sem eftir lifa, til að viðhalda í landinu grimmdarlegri ógnarstjórn fámennrar auðstéttar, þá er nauðsynlegt að þær þjóðir, sem vilja halda á lofti merki lýðræðis og mannréttinda og jafnaðar í heiminum, láti í sér heyra.

Ég held að það sé nauðsynlegt að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki í ljósi þeirra atburða, sem nýlega hafa orðið í El Salvador, stærri skref í átt til stuðnings við andstæðinga herforingjastjórnarinnar í því landi en gert hefur verið til þessa. Ég held að það sé alveg ljóst, að þær skýringar, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur látið frá sér fará um atburðina í El Salvador og hæstv. utanrrh. rakti hér með tilvitnunum í skýrslu sína frá því á síðasta ári, hafa reynst algjörlega rangar. Þær hafa reynst ómerkilegur áróður stórveldis sem reynir að búa til grýlu kommúnistahræðslu til að verja stuðning sinn við grimmdarlega auðs- og herforingjastjórn í El Salvador.

Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur skýrt og greinilega á því hér á Alþingi og einnig innan ríkisstj., að innan Bandaríkjanna sjálfra er hörð andstaða gegn þessari stefnu Bandaríkjastjórnar. Demókrataflokkurinn í Bandaríkjunum hefur tekið upp einarða stjórnarandstöðu gegn þeim stuðningi sem ríkisstjórn Reagans í Bandaríkjunum veitir herforingjaklíkunni og auðstéttinni í El Salvador. Í ljósi þessara síðustu atburða, og nú síðast fregnarinnar í dag um að þessi sama ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi ákveðið að hefja að nýju vopnasendingar til herforingjastjórnarinnar í El Salvador, er nauðsynlegt að öll ríki, sem vilja hamla gegn þessari þróun, sérstaklega þau ríki sem að forminu til eiga Bandaríkin að bandalagsríkjum í hernaðarbandalögum láti til sín heyra skýrt og greinilega í þessu efni.

Ég vil því beina þeim tilmælum til hæstv. utanrrh. og reyndar ríkisstj. í heild, að málið verði tekið upp á þeim vettvangi og það verði unnið að sameiginlegri afstöðu Alþingis og ríkisstjórnar til þessa máls. Við megum ekki sitja hjá ef svo stefnir sem nú horfir, að nýtt Víetnam fæðist í El Salvador.