02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

349. mál, afstaða til atburða í El Salvador

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það virðist vera að verða ljóst, að sú atburðarás, sem hefur verið að eiga sér stað í El Salvador, og afskipti Bandaríkjamanna og hinnar nýju ríkisstjórnar Ronalds Reagans af þessari þróun, eru sá ljótasti þáttur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna síðan styrjöldinni í Víetnam lauk. Nú er það hins vegar svo, að við, sem erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og höfum auk þess varnarsamning við Bandaríkjamenn, hljótum að láta okkur þessi mál varða og við hljótum að undirstrika rækilega, hvar sem við getum og þá ekki síst á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, hversu við hljótum að harma þá stefnu sem stjórn Bandaríkjanna, stjórn Reagans, rekur í þessu landi. Það er auðvitað ljóst, að það er viðurstyggilegur glæpalýður sem fer með stjórn í þessu landi. Það er lítill minnihlutahópur sem er þarna að fremja þjóðarmorð. Það er ekki of mikið sagt þó þessi orð séu notuð. Þær fréttir, sem nú berast daglega af vaxandi stuðningi Bandaríkjastjórnar, bæði á efnahagssviði og á sviði vopnasendinga, hljóta að vera þess eðlis að við lítum það mjög alvarlegum augum vegna þeirrar samvinnu sem við eigum við Bandaríkjamenn á öðru sviði utanríkismála.

Ég tala hér sem stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins, hafandi verið það og verandi það, en sem slíkur læt ég í ljós miklar áhyggjur af þeirri atburðarás sem þarna er að eiga sér stað. Sú utanríkisstefna, sem stjórn Bandaríkjanna rekur í þessum heimshluta, hlýtur að vera okkur stuðningsmönnum Atlantshafsbandalagsins mikið umhugsunarefni. Ég vil hvetja til þess, hæstv. utanrrh., að láta einskis ófreistað að þessi sjónarmið séu gerð bandamönnum okkar ljós því að það eru ekki góðir bandamenn sem hegða sér með þessum hætti.