02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er hafa miklar umr. orðið að undanförnu um þá stefnu núv. hæstv. ríkisstj. að vera stöðugt að auka skuldir við útlönd. Í stjórnarsáttmálanum var tekið fram, að þessar erlendu lántökur yrðu hafðar í hófi þannig að greiðslubyrði færi ekki fram úr 15% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Nú í ár er áætlað að greiðslubyrði af erlendum skuldum verði um það bil 19% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar, svo þarna er enn eitt mark miðið farið fyrir björg hjá hæstv. ríkisstj.

Sagt hefur verið að meðal þess, sem heimilað hafi verið af núv. hæstv. ríkisstj., sé að dæmi séu um að mönnum hafi verið leyft að taka erlend lán til að selja fiskiskip milli fjarða hér innanlands. Ég hef engar sönnur á þessu, en orðrómur um þetta er sterkur. Ég tel að ef þetta er rétt sé verið að fara þarna inn á nýja og mjög háskalega braut sem væri ástæða til að fordæma. Til þess að fá skorið úr um, hvort þessar fregnir séu réttar, er ekki önnur leið betri en að spyrja þann ráðh. sem með þessi mál fer í hæstv. ríkisstj. Því hef ég ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, 1. þm. Vestf., leyft mér að flytja á þskj. 165 svofellda fsp. hæstv. viðskrh.:

„1. Hefur ráðh. gefið heimildir til erlendrar lántöku vegna kaupa á fiskiskipum innanlands, ef svo er, hvenær voru þær heimildir gefnar út og hvaða starfsmenn viðskrn. undirrita heimildarbréfin ásamt ráðh.?

2. Hver eru rök ráðh. fyrir umræddum afgreiðslum, hafi þær átt sér stað?“