02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 165 hafa hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Matthías Bjarnason lagt fram svohljóðandi fsp:

„1. Hefur ráðh. gefið heimildir til erlendrar lántöku vegna kaupa á fiskiskipum innanlands, ef svo er, hvenær voru þær heimildir gefnar út og hvaða starfsmenn viðskrn. undirrita heimildarbréfin ásamt ráðh.?

2. Hver eru rök ráðh. fyrir umræddum afgreiðslum, hafi þær átt sér stað?“

Gefnar hafa verið út tvær heimildir til erlendrar lántöku vegna kaupa á fiskiskipum innanlands. Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar var veitt heimild til erlendrar lántöku með bréfi rn. nr. 265, dags. 29. okt. 1981, vegna kaupa á togskipinu Sigurey SI 71 frá Togskipum hf., Siglufirði. Glettingi hf. í Þorlákshöfn var heimiluð erlend lántaka með bréfi rn. nr. 266, er dags. er 29. okt. 1981, vegna kaupa á ms. Ísleifi VE 63 frá Vestmannaeyjum. Atli Freyr Guðmundsson deildarstjóri í viðskrn. hefur undirritað þessar heimildir í mínu umboði.

Togskipið Sigurey SI 71 var keypt frá Togskipum hf. á Siglufirði á s. l. ári. Vegna atvinnuástands á Patreksfirði þótti nauðsynlegt að skapa frekari atvinnutækifæri og jafnframt að tryggja rekstrargrundvöll hins nýja húss, Hraðfrystihúss Patreksfjarðar. Til þess að unnt væri að festa kaup á skipinu þurfti að koma til erlend lántaka og heimilaði rn. erlenda lántöku sem nemur 22.5% af kaupverði skipsins. Varðandi kaup Glettings hf. í Þorlákshöfn á Ísleifi VE 63 frá Ísleifi sf. í Vestmannaeyjum skal tekið fram, að þegar ákveðið var að heimila Ísleifi sf. kaup á skipi frá Færeyjum var heimiluð erlend lántaka sem nemur 68% kaupverðs. Ísleifur sf. seldi síðan Glettingi hf. í Þorlákshöfn skip sitt, Ísleif VE 63, og var heimiluð erlend lántaka vegna þeirra kaupa 2.5 millj. danskra kr. eða 50% kaupverðs. Jafnframt þessu var gert að skilyrði að ms. Sporður RE 16, 249 rúmlesta fiskiskip, yrði tekinn af skipaskrá vegna ofangreindra viðskipta, enda var eigandi Sporðs hf. aðili að viðskiptunum. Þá var frá því gengið, að skipið Ísleifur VE 63 yrði ekki gert út til loðnuveiða, eins og verið hafði, heldur yrði það gert út til netaveiða. Þessi afgreiðsla var liður í eðlilegri endurnýjun bátaflotans í Vestmannaeyjum.

Þessar afgreiðslur teljast til undantekninga, ef sérstaklega stendur á. En það er ekki rétt hjá hæstv. fyrirspyrjanda að það séu ekki fordæmi fyrir þessu. Þau eru sjálfsagt nokkur, og gæti ég nefnt þau ef ástæða þætti til þess.