02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það var eins og mig grunaði, að hæstv. viðskrh. gæti ekkert fordæmi nefnt fyrir þeim afgreiðslum sem hann hefur skýrt hér frá. Þau tvö fordæmi, sem hann nefndi, voru þannig vaxin að innlendur aðili keypti nýtt skip erlendis frá og greiddi hluta af kaupverðinu með gömlu skipi, sem hann átti, sem hinn erlendi viðsemjandi innlenda kaupandans tók upp í kaupverðið, og sú afgreiðsla lækkaði að sjálfsögðu þá lánsfjárfyrirgreiðslu, sem ella hefði þurft til kaupanna þannig að hið gamla skip var notað sem gjaldmiðill í þessu tilviki. Síðan er það að vísu rétt, að þetta skip, sem hafði verið selt erlendum aðila, var keypt til landsins á ný og þeim, sem keypti, heimilað að taka erlent lán til að greiða hinum erlenda viðsemjanda. Nú er hins vegar um það að ræða, að tveir inniendir aðilar stunda viðskipti sín á milli með skip og öðrum aðilanum er heimilað að taka lán í erlendum gjaldeyri, taka erlent lán, til að greiða söluverð skips samlendum manni, ekki erlendum viðsemjanda, eins og í hinum tilvikunum, heldur innlendum skipaeiganda í næsta eða þar næsta firði. Þetta hefur aldrei áður gerst og hæstv. viðskrh. hefur engin fordæmi getað nefnt um slíkar afgreiðslur. Auðvitað eru mörg dæmi um að þegar menn kaupa til landsins atvinnutæki frá erlendum aðilum sé þeim heimilað að taka til þess erlend lán. En ég hygg að það séu fá dæmi þess, þó þori ég ekki að fullyrða um það — ég þekki ekki nein a. m. k. sem mér geta komið í hug, að mönnum sé heimilað að taka erlend lán til að kaupa sömu atvinnutæki af landsmönnum sínum og þegar hefur verið veitt erlent lán fyrir. Mér er ekki kunnugt um að þetta sé t. d. vaninn í viðskiptum með ýmsar stórvirkar vinnuvélar á innlendum markaði, þar sem einn Íslendingur kaupir af öðrum, að honum sé heimilt að greiða hluta kaupverðsins með erlendum lánum. Sú afgreiðsla, sem hæstv. viðskrh. hefur hér gert, er algerlega fordæmalaus. Þau fordæmi, sem hann sagðist geta nefnt, hefur hann ekki nefnt enn. Ég held að ekki fari hjá því, að það fordæmi, sem hæstv. ráðh. er hér að gefa og varðar þá tvo aðila sem hafa haft þennan sérstaka aðgang að honum, sé stórháskalegt fyrir framtíðina.