02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég ætla ekki beint að blanda mér í umr. um erlendu lántökurnar og það, heldur aðeins í sambandi við það ágæta skip, Sporðinn.

Hv. 1. þm. Vestf. kvartaði undan því, að útvegsmaður á Snæfellsnesi deildi á vonda kerfiskarla út af því, að hann mætti ekki losa sig við það skip á annan máta en eyðileggja það. Ég vil taka undir þá skoðun þess útvegsmanns, að ef á að vera grundvallarstefna að fækka skipum eða koma skipum úr umferð, þá skuli þau verðmæti nýtt sem eftir eru í skipunum. Þegar maður, sem er með ónýtt skip í höndum, hefur ekki heimild til þess, eins og þarna stendur á, að láta Stálfélagið hafa það, þó það hafi ekki þegar lóð, með tryggingu fyrir að það fari ekki á sjó aftur og það liggi vestur í Grundarfirði, þá finnst mér ekki hægt að taka undir annað en það séu kerfiskarlar sem banna það. Auk þess er ekki eingöngu um það rætt að Stálfélagið eigi að fá þetta skip, heldur eru yfirlýsingar jöfnum höndum til reiðu um að Stálvík í Garðahreppi sé tilbúin að taka þetta skip, um leið og aðstaða verður til þess, og búta það í parta. (MB: Þeir mega það.) Það hefur ekki verið samþykkt. (MB: Það hefur víst verið samþykkt.) Það er þá nýtt í málinu og það er gott að heyra það. Það er nýtt í málinu, að leyfilegt sé að taka þennan skipsskrokk og reyna að nota verðmætin sem eftir eru. Það er nýtt í málinu, það er gott að heyra það og þá hafa kerfiskarlarnir lagað sig. Þeir viðurkenna þá að það megi nýta þessi verðmæti.