02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

143. mál, erlendar lántökur vegna viðskipta með fiskiskip innanlands

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta mörg orð, enda hafa fyrirspyrjendur talað tvisvar í þessu máli. Ég skal því hafa þau fá.

Ég vildi aðeins í tilefni af því, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði um þau fimm skip, sem voru leigð til landsins, ítreka það, sem kom fram í fréttatilkynningu frá sjútvrn. til fjölmiðla nú fyrir stuttu, þar sem gerð er grein fyrir því, að ríkisstj. hafi samþykkt innflutning á nokkrum skipum til byggðarlaga sem sérstaklega hefur staðið á um, og þar var m. a. um að ræða Þórshöfn, Djúpavog, Akranes, Suðurnes og rækjuskip til Dalvíkur. Það fylgdi þessari fréttatilkynningu, að frekari undantekningar væru ekki ráðgerðar.

Ég held að flestum þm., sjálfsagt öllum hv. þm., sé ljóst að þessi mál eru vandmeðfarin. Eins og ég sagði áður er mikill þýstingur í sambandi við afgreiðslu svona mála af ýmsum knýjandi ástæðum. Þannig er kannske erfitt að setja reglur, sem aldrei er vikið frá, vegna þess að atvik eru svo misjöfn.

En það er alveg rétt hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að það hefur stundum gengið illa að koma skipum úr landi. Ég nefndi áðan að togarinn Bjarni Ólafsson átti að fara til útlanda sem hlutagreiðsla upp í nýtt skip sem keypt var til Akraness á sínum tíma. Síðan var hann seldur til Hafnarfjarðar. Í sambandi við þá ráðstöfun var ákveðið að skip, sem heitir Arnarnes hf., ætti að fara til útlanda. Það skip var svo selt til Bolungarvíkur og ég veit ekki hvað síðar varð af því. En svona hefur þetta stundum gengið. (MB: En svo fóru tvö skip úr landi, samtals 500 smál., svo að ég endi söguna fyrir ráðherrann.) Já, ég þakka hv. þm. fyrir sögulokin og þau bæta frásögnina.

Ég hygg að ef farið væri að rekja þessi dæmi mætti finna mörg dæmi af ýmsu tagi í sambandi við að leysa mál sem þessi. En ég vil aðeins undirstrika það, að ég tel ekki að það hafi verið teknar upp neinar nýjar reglur í þessu sambandi í minni ráðherratíð, heldur hafi hér verið um að ræða mál af svipuðu tagi og stundum áður hafa verið afgreidd.