02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég lagði hér fram í haust á þskj., sem útbýtt var 10. nóv. 1981, fsp. til forsrh. um kostnað við utanlandsferðir á vegum Alþingis, ríkisstj. og ríkisstofnana. Í fsp. segir:

„Óskað er eftir upplýsingum um utanlandsferðir á vegum Alþingis, ríkisstjórnar og ríkisstofnana, að meðtöldum ríkisbönkum, á árinu 1980 og það sem af er þessu ári,“ eins og segir í fsp., því að þá var ekki talið að komið yrði fram á næsta ár þegar svarið kæmi. Í svarinu var ætlast til að kæmu fram nöfn þeirra sem farið hafa utan, hvert farið, hverra erinda og hve langan tíma hver ferð tók, kostnaður vegna hverrar ferðar, ferðakostnaður annars vegar og dvalarkostnaður hins vegar, yfirlit yfir hver heildarferðakostnaður varð og fjöldi ferða hjá Alþingi, ráðherrum, stjórnarráði og ríkisstofnunum. Óskað var eftir skriflegu svari. Áður hefur verið spurt um svipað efni og svör fengist.

Mér er kunnugt um það, að forsrn. sendi út bréf og óskaði eftir þessum upplýsingum, því þó að fsp. sé beint til forsrh. sem samnefnara ríkisstj. varð eitthvert rn. að hafa forustu í málinu. En svarið er ekki komið enn þá.

Nú segir í þingsköpum, 32. gr., um fyrirspurnir, á þessa leið: „Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð.“ Ég ætlaðist ekki til þess, að svar eins og þetta væri hægt að vinna á sex dögum, og var eiginlega rólegur fram til jóla og bjóst við að svarið lægi fyrir strax á fyrsta degi eftir að þing kom aftur saman. Nú vantar ekki nema rúma viku upp á að ársfjórðungur sé liðinn frá því að um þetta var beðið.

Hæstv. forseti Sþ. er forsvarsmaður þingsins, og hér er um að ræða ótvíræðan rétt þm. að óska eftir svari. Hæstv. forseti þingsins hefur leyft þessa fsp. og sent hana áfram. Það er því mjög undir honum komið, hvort þessi svör fást eða ekki. Ég er ekki á nokkurn hátt að veitast að forsrn. í þessum efnum. Einhvers staðar hlýtur stíflan að vera annars staðar en þar. En það er ósk mín til hæstv. forseta Sþ., að hann kanni hvar þetta mál er á vegi statt og hvað hefur dvalið það að svar væri gefið. Við eigum rétt á því, að slík svör sem þessi liggi fyrir.

Nú nýlega viðhafði hæstv. ráðh. þau ummæli í ræðum — mig minnir að það hafi verið í útvarpsumr. — að ríkisstj. ætlaði að hafa aukið aðhald með utanlandsferðum og takmarka þær nokkuð. Mér er ljóst að bæði ráðherrar og ýmsir aðrir embættismenn og þm. þurfa nauðsynlega að fara til útlanda og sækja þar ákveðna fundi og ákveðnar ráðstefnur, ekki síst utanrrh. Það er ég ekki að gagnrýna á einn eða annan veg. En það er grunur minn, að æðimargar ferðir séu farnar á vegum hins opinbera sem hefði verið hægt að komast hjá að senda fulltrúa í. Þess vegna var ég að óska eftir þessum svörum, til þess að þingið og aðrir gætu metið það og vegið, hvort þetta litla þjóðfélag gæti ekki eitthvað dregið úr hinum mikla kostnaði í sambandi við utanlandsferðir á vegum hins opinbera.

Það er verið að skera niður nauðsynlegar framkvæmdir í þjóðfélaginu, það er verið að beita aðhaldi, að sagt er, og það er nauðsynlegt að gera. En það þarf einnig að beita aðhaldi í þessum efnum. Því geri ég þá kröfu, að hæstv. forseti Sþ. geri gangskör að því að kanna hvað dvelur það að þetta svar komi á borðið. Ég vona að þetta verkefni hafi ekki verið falið einhverjum ákveðnum mönnum sem hafa æ síðan verið erlendis. En ef svo er, þá væri nauðsynlegt að fela það einhverjum sem væru oftar heima.