02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson gerði að umtalsefni fsp. sem hann bar fram á Alþingi fyrir alllöngu. Hann hefur verið látinn fylgjast með því af hálfu forsrn., hvernig gengi að afla þeirra upplýsinga sem þar var óskað eftir eða nauðsynlegt var að afla áður en svör yrðu gefin. Hér er bæði um það að ræða, sem vakir fyrir hv. þm., hvort auka eigi fjárveitingar til jarðvísinda eða jarðfræðirannsókna, og hins vegar vafalaust um ráðstafanir, svo sem varnargarða og annað, í sambandi við það ef frekara gos og hraunrennsli verður á þessu svæði.

Áður en svarað yrði fsp. hv. þm. var að sjálfsögðu nauðsynlegt að afla sem nákvæmastra upplýsinga um þessi mál. Það eru að ég ætla fjögur ráðuneyti sem þarna eiga hlut að máli. Það er menntmrn., sem hinar vísindalegu rannsóknir heyra undir, það er iðnrn., sem hefur þarna mjög komið við sögu bæði vegna Kröfluvirkjunar en ekki síður vegna Kísiliðjunnar, sem hefur að sérfróðra manna áliti verið talin í verulegri hættu. Málið snertir dómsmrn., sem Almannavarnir heyra undir, og svo að sjálfsögðu fjmrn. vegna þess að hér er um það að ræða hvort eigi að verja úr ríkissjóði auknu, jafnvel verulegu fé í þessu skyni.

Um leið og fsp. hafði verið leyfð og forsrn. var skrifað um þetta var að sjálfsögðu haft samband við öll þessi fjögur ráðuneyti og þau við þær stofnanir sem undir þau heyra. Þær upplýsingar, sem fást, þarf svo í sjálfu sér að ræða milli þessara aðila og samhæfa. Því miður eru ekki enn komnar allar þær upplýsingar og skýrslur sem skapa grundvöll undir það að svara fsp. hv. þm.

Fyrir viku, þegar þessi fsp. átti að vera á dagskrá, hafði ég samband við hv. fyrirspyrjanda. Ég var tilbúinn að svara fsp. svo langt sem þær skýrslur og svör næðu sem fyrir lægju, en það væru í rauninni ekki nema hálf svör. Ég taldi því réttara, og mér skildist að hv. fyrirspyrjandi féllist á það, að hyggilegra og vænlegra og æskilegra væri á alla lund að svara fsp. þegar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru um þessi atriði öll, lægju fyrir. Ég kannaði að sjálfsögðu í gær hvort þessar upplýsingar lægju þannig fyrir að hægt væri að svara fsp. í dag. Þeir, sem um þetta hafa fjallað og lagt í það mikla vinnu, töldu ekki rétt að láta svör frá sér fara nú vegna þess að þau væru í rauninni ekki fyllilega tilbúin.

Þetta segi ég til skýringar á því, hvernig í þessu máli liggur. En það leiðir aftur hugann að því, sem væri æskilegt að t. d. hæstv. forsetar Alþingis athuguðu, hvort ekki þarf að endurskoða reglurnar um fyrirspurnir.

Þegar fyrirspurnir voru lögleiddar og ákveðnar í þingsköpum fyrir nokkrum árum var farið eftir erlendri fyrirmynd, fyrst og fremst eftir fyrirmynd frá breska þinginu sem hafði langa hefð í þessum efnum. Þar eru fyrirspurnir með þeim hætti, að það er ætlast til og unnt af hálfu ráðherra að svara þeim undirbúningslaust. Það þarf ekki að leggja mjög mikla vinnu í að afla gagna til að svara þeim. Hér á Alþingi er komið töluvert út á þá braut, að bornar eru fram og leyfðar fyrirspurnir sem kostar gífurlega mikla vinnu hjá ráðuneytum, stofnunum og sérfræðingum að undirbúa svör við. Þó að æskilegt sé og geti verið gott og gagnlegt að fá slíkar skýrslur, þá verða menn að skilja að þingsköpin, sem ætlast er til mjög skjótra svara við fyrirspurnum, eiga hér alls ekki við. Hér er verið að óska eftir ítarlegum skýrslum sem kosta bæði fé og fyrirhöfn og mikinn tíma.

Að sjálfsögðu mun ég undir eins og unnt er svara fsp. hv. þm.

Varðandi fsp. hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, en hann óskaði eftir skriflegu svari, hef ég í rauninni engu við það að bæta sem hæstv. forseti Sþ. gat um. Ég vil aðeins taka fram í fyrsta lagi, að slík fsp. hefur verið borin fram áður hér á þingi, fyrir að ég ætla þrem, fjórum árum. Miðað við hin prentuðu svör við þeirri fsp. geri ég ráð fyrir að svarið við þessari fsp. hv. þm. mundi verða á annað hundrað blaðsíður prentaðar, sem sagt hell bók. (MB: Það er einhver gróska í þessu.) Ja, gróska í því? Fyrri fyrirspurnin kom fram í ráðherratíð okkar beggja, hv. 1. þm. Vestf. og mín. Það var varðandi árið 1977, og það var allmikil bók þá líka. Ég geri varla ráð fyrir að efnið hafi minnkað síðan. Ég get þessa hér til að sýna fram á að hér er ekki verið að bera fram fsp. sem hægt sé að svara í stuttu máli án verulegrar vinnu. Hér er um að ræða svar sem mundi verða mikið að vöxtum vegna þess að hér er óskað mikillar sundurliðunar á því sem um er spurt. Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga, og þessari fsp. verður auðvitað svarað. En ég vil aðeins taka það fram, að þó að forsrn. hafi — strax þegar fsp. var leyfð — ritað öllum þeim stofnunum og ráðuneytum, sem hér eiga hlut að máli, hafa ekki nærri öll svarað enn. Hæstv. forseti gat þess, að meðal þeirra, sem ekki hefðu sent skýrslu sína, væri sjálft Alþingi. Ég held að það sé ekki rétt að fara að prenta þessa skýrslu og útbýta henni til hv. þm. meðan aðeins nokkur hluti þeirra ráðuneyta og stofnana, sem fsp. er beint að, hefur svarað.

Þetta vildi ég láta koma fram, um leið og ég tek það fram, að ýmis ráðuneyti og stofnanir hafa þegar gert fullkomin skil. Frá mörgum þeirra liggur allt þegar fyrir.