02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949. Þessi viðbótarsamningur var undirritaður af fulltrúum NATO-ríkjanna 15 á utanríkisráðherrafundi bandalagsins hinn 10. des. s. l. Hann tekur gildi þegar allar bandalagsþjóðirnar hafa fullgilt hann skv. stjórnskipunarlögum hvers ríkis, og heimilast þá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd núverandi aðildarríkja að bjóða ríkisstj. Spánar að gerast aðili að Norður-Atlantshafssamningnum. Tekur aðildin síðan gildi frá þeim degi sem Spánn afhendir formlega þessa beiðni.

Við afgreiðslu þessa máls innan Atlantshafsbandalagsins hefur verið viðhafður sami háttur og þegar Tyrkland og Grikkland gerðust aðilar 1951 og Sambandslýðveldið Þýskaland 1954, en önnur bandalagsríki voru stofnaðilar.

Ríkisstjórn Spánar ákvað að leita eftir aðild á s. l. ári eftir að meiri hluti spánska þjóðþingsins hafði samþykkt að slík ósk skyldi sett fram.

Í viðræðum mínum við utanrrh. Spánar á s. l. hausti svo og í umræðum innan Atlantshafsbandalagsins hef ég látið í ljós þá skoðun mína, að réttmætt og eðlilegt væri að styðja þá ósk sem meiri hluti spænska þjóðþingsins hefur sett fram. Nú þegar lýðræðislegir stjórnarhættir hafa verið teknir upp á Spáni og rétt kjörnir fulltrúar þjóðarinnar óska eftir nánari tengslum við vestræn ríki á ýmsum sviðum, m. a. með aðild að Atlantshafsbandalaginu, væri í ljósi góðra samskipta okkar við Spán óeðlilegt ef við tækjum ekki jákvætt í þessa aðildarbeiðni. Jafnframt tók ég fram að staðfesting á viðbótarsamningnum væri háð heimild Alþingis. Heimildar Alþingis er nú óskað með þessari till. til þál., en sami háttur var hafður á þegar viðbótarsamningarnir vegna aðildar Grikklands, Tyrklands og Sambandslýðveldisins Þýskalands voru lagðir fyrir Alþingi á sínum tíma. Þegar munu einhver þjóðþing hafa samþykkt þessa aðildarbeiðni.

Að loknum þessum þætti umræðunnar er lagt til að till. verði vísað til utanrmn.