02.02.1982
Sameinað þing: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

171. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949 var við völd á Spáni fasistísk einræðisstjórn undir forustu Francos hershöfðingja. Ég tel að óhætt sé að fullyrða að hefði verið lýðræðisstjórn í landinu á þeim tíma hefði Spánn verið meðal stofnenda Atlantshafsbandalagsins. Að því lúta fjöldamargar röksemdir sem liggja í augum uppi þegar horft er á Evrópukort. Lega landsins er sú, að það á sannarlega heima með öðrum ríkjum sem eru í Atlantshafsbandalaginu, bæði á Atlantshafsströnd álfunnar og við Miðjarðarhaf.

Nú hafa orðið þær stórfelldu breytingar og gleðilegu, að þessari einræðis-fasistastjórn á Spáni er lokið og þar er nú verið að byggja upp lýðræðislegt stjórnarfar. Hefur það gengið að mörgu leyti vel þótt nokkur áföll hafi orðið eins og vel mátti búast við. Ég tel því mjög eðlilegt að nú verði einnig gerð breyting á utanríkisstefnu Spánverja, eins og meiri hluti á þingi þeirra hefur ákveðið, og þeir gangi í Atlantshafsbandalagið. Ég geri fastlega ráð fyrir að þeir muni einnig verða hluti af Efnahagsbandalaginu. Að því lúta mörg hin sömu landfræðilegu og raunar hagfræðilegu rök. En það kemur ekki þessu máli við.

Alþfl. telur eðlilegt að Spánverjar verði þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu. Við munum greiða því atkvæði, að Ísland standi ekki í vegi fyrir að svo geti orðið.